Skip to content

Þrír íslenskir keppendur á HM öldunga.

Heimsmeistaramót öldunga er framundan en mótið fer fram dagana 7. – 15. október í Ulaanbaatar, Mongólíu. Á mótinu er bæði keppt í kraftlyftingum með útbúnaði og klassískum kraftlyftingum. Keppendur frá Íslandi eru þrír talsins og eru: Elsa Pálsdóttir, Hörður Birkisson og Sæmundur Guðmundsson.

Elsa Pálsdóttir keppir í klassískum kraftlyftingum í -76 kg flokki (60-69 ára). Hún er að keppa á sínu þriðja heimsmeistaramóti og á að baki farsælan feril á alþjóðamótum. Hún hefur bæði orðið heimsmeistari (2021, 2022), hampað Evrópumeistaratitlum (2021, 2022, 2023) og er þar að auki handhafi þriggja heimsmeta. Elsa keppir aðfaranótt sunnudagsins 8. október kl. 05:00 að íslenskum tíma.

Hörður Birkisson keppir í klassískum kraftlyftingum í -74 kg flokki (60-69 ára). Hann keppir hér á sínu öðru heimsmeistaramóti, en hann náði þeim árangri á síðasta ári að vinna til silfurverðlauna á EM öldunga og hlaut 4. sætið á HM. Hörður keppir á sunnudaginn 8. október kl. 10:00

Sæmundur Guðmundsson keppir í kraftlyftingum með útbúnaði í -74 kg flokki (70-79 ára). Hann hefur líka keppt áður á alþjóðamótum og vann til bronsverðlauna á HM öldunga 2019 og varð Evrópumeistari árið 2022. Sæmundur keppir aðfaranótt föstudagsins 13. október kl. 02:00.

Í för með keppendum eru Kristleifur Andrésson yfirþjálfari og aðstoðarþjálfararnir Hanna Harðardóttir og Sigurþór Stefánsson.