Stelpurnar koma heim með íslandsmet og verðlaun

photo (1)Camilla Thomsen og Arnhildur Anna Árnadóttir hafa lokið keppni á EM unglinga í St. Pétursborg.
Camilla vigtaði 62,65 kg í -63 kg flokki. Hún opnaði á 135 kg í hnébeygju, en það er jöfnun á hennar besta árangur. Hún kláraði það örugglega, en mistókst svo tvisvar með 142,5 kg. Á bekknum gerðist nákvæmlega það sama. Hún jafnaði sinn besta árangur örugglega með 80 kg í fyrstu tilraun, en mistókst tvisvar að bæta sig með 82,5.
Í réttstöðu opnaði Camilla á 147,5. Í annari jafnaði hún sinn besta árangur með 155 kg, en það er um leið íslandsmet unglinga.  Í þriðju tilraun lagði hún allt undir í tilraun til að ná bronsinu með 165 kg, en það reyndist of þungt þrátt fyrir mikla baráttu.
Besti samanlagði árangur Camillu fyrir þetta mót var 352,5 kg, en hér endaði hún í 370 kg sem er unglingamet og góð bæting. Hún endaði í 5.sæti.

Arnhildur Anna vigtaði 71,10 kg í -72 kg flokki. Hún klikkaði á byrjunarþyngd 180 kg í hnébeygju, hækkaði svo í 185 kg í annari, mætti einbeittari og kláraði örugglega. Arnhildur endaði með 190 kg í mjög vel útfærðri þriðjulyftu. Það er nýtt íslandsmet í opnum flokki og dugði henni til bronsverðlauna í beygju.
Á bekknum byrjaði Arnhildur í 95 kg en mistókst. Hún kláraði 95 kg örugglega í annari tilraun og bað um 100 kg í þriðju, en það er jöfnun við hennar besta árangur. Sú lyfta misheppnaðist því miður, og Arnhildur endaði með 95 kg.
Í réttstöðu kláraði hún 165 kg en mistókst tvisvar með 170 kg. Samanlagt gerir það 450 kg sem er persónuleg bæting um 10 kg og nýtt íslandsmet unglinga.
HEILDARÚRSLIT
Við óskum þeim til hamingju með árangurinn.

Á morgun, laugardag, keppir Einar Örn Guðnason í .93 kg flokki. Keppnin hefst kl. 13.00 að íslenskum tíma og er hægt að fylgjast með hér: http://goodlift.info/live.php

EM unglinga

Evrópumeistaramót unglinga í kraftlyftingum hefst í St. Pétursborg í Rússlandi á miðvikudag.
Fyrir hönd Íslands keppa í kvennflokki Camilla Thomsen í -63 kg flokki og  Arnhildur Anna Árnadóttir í -72 kg flokki en í karlaflokki Einar Örn Guðnason í -93 kg flokki og Júlían J.K. Jóhannsson ðí +120 kg flokki.
Konurnar keppa á föstudag, Einar á laugardag og Júlían á sunnudag, en sýnt verður beint frá mótinu hér: http://goodlift.info/live.php 

Keppendur: KARLAR KONUR 

Viktor Samúelsson norðurlandameistari

Norðurlandamót í kraftlyftingum í unglingaflokkum fór fram í Aalborg í Danmörku sl helgi.
Viktor Samúelsson, KFA, gerði sér lítið fyrir og varð stigahæstur í unglingaflokki karla. Hann lyfti 900 kg í -120 kg flokki, með seríuna 330 -260 – 310.
Hnébeygjan og samanlagður árangur eru Íslandsmet í opnum flokki, og réttstaðan er íslandsmet í unglingaflokki.
Alexandra Guðlaugsdóttir, KFA, vann bronsverðlaun í sínum flokki, -72 kg flokki unglinga. Hún lyfti 150 – 100 – 172,5 = 422,5 kg. Réttstaðan er íslandsmet unglinga.
Þorbergur Guðmundsson, KFA, keppti í +120 flokki unglinga og vann þar silfurverðlaun með seríuna 270-140-310=720 kg. Hann bætti sig í beygju og réttstöðu.
Aðrir keppendur frá Íslandi voru Fríða Björk Einarsdóttir, Camilla Thomsen og Einar Hannesson. Þau lentu öll í vandræðum og tókst ekki að klára mótið. Þau koma heim reynslunni ríkari og með verkefni á næstu æfingar.
NM 2014 Junior og Sub-Junior - Álaborg, Danmörk

Norðmenn mættu með öflugt lið í keppnina og unnu liðaverðlaunin bæði í kvenna- og karlaflokki.
Svíin Calle Nilsson setti heimsmet drengja í bekkpressu þegar hann lyfti 255,0 kg í +120 kg flokki.
Hér má sjá heildarúrslit.

Norðurlandamót unglinga á laugardag

Laugardaginn 22.febrúar nk fer Norðurlandamót unglinga fram í Aalborg í Danmörku.
Frá Íslandi mæta eftirtaldir keppendur:
Camilla Thomsen, -63 kg flokki unglinga, Alexandra Guðlaugsdóttir, -72 kg flokki unglinga, Fríða Björk Einarsdóttir, -84 kg flokki stelpna, Einar Hannesson, -105 kg flokki unglinga, Viktor Samúelsson -120 kg flokki unglinga og Þorbergur Guðmundsson, +120 kg flokki unglinga.
KEPPENDALISTI.

Við óskum þeim góðs gengis!

Norðurlandamót unglinga

Endanlegur keppendalisti á Norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum sem fram fer í Aalborg í Danmörku 22.febrúar nk liggur nú fyrir.

http://npfpower.wordpress.com/

6 íslenskir keppendur taka þátt, Camilla Thomsen, Alexandra Guðlaugsdóttir, Fríða Björk Einarsdóttir, Einar Hannesson, Viktor Samúelsson og Þorbergur Guðmundsson.
Camilla er í Gróttu, en allir hinir keppendurnir eru frá KFA á Akureyri.

Góður árangur unglingalandsliðsins

hopurHM unglinga er nú lokið. Íslenska unglingalandsliðið gerði góða hluti á þessu móti undir stjórn þjálfara síns. Grétars Hrafnssonar.
Allir kláruðu mótið með góðum persónulegum bætingum. Arnhildur, Viktor og Júlían lentu öll í 6.sæti í sínum flokkum. Viktor Ben vann brons í sínum.
Uppskeran er bronsverðlaun samanlagt, tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun í einstökum greinum, 1 drengjamet, 7 unglingamet og 2 Islandsmet í opnum flokki.
Þetta er mjög góð niðurstaða þó að allir ítrustu draumar hafi ekki ræst.
Við óskum Arnhildi, Viktori Ben, Viktori Samúelssyni, Júlíani, Grétari og liðsstjóranum Borghildi Erlingsdóttur til hamingju og góða ferð heim.

Viktor hafnaði í 6.sæti á nýju Íslandsmeti

Viktor Samúelsson, KFA, hefur lokið keppni í -105,0 kg flokki unglinga á HM. Hann hafnaði í 6. sæti  á nýju Íslandsmeti í opnum flokki og flokki unglinga,
Viktor opnaði með 290 kg í vel útfærðri hnébeygju. Hann kláraði 300 kg í annari af harðfylgi, en það er nýtt Íslandsmet í flokki unglinga og opnum flokki. Hann átti svo góða tilraun við 305 kg en missti jafnvægið og varð að játa sig sigraðan.
Á bekknum opnaði Viktor mjög örugglega með 225 kg. Hann reyndi svo tvisvar við persónulegt met 232,5 kg og var mjög nálægt í þriðju tilraun en náði ekki að klára.
Í réttstöðu opnaði hann á 280 kg létt. Tók síðan 292,5 og setti þar með nýtt Íslandsmet í samanlögðu með 817,5 kg. en það er bæting um 10 kg. Hann lyfti svo 297,5 kg í þriðju tilraun, en kláraði hana ekki nógu vel að mati dómaranna og fékk hana ógilda.
Við óskum Viktori til hamingju með bætingar og ný met í safnið.

Sigurvegari í flokknum var Rússinn Yuri Belkin með 980,0 kg.

HM unglinga hefst í dag

Heimsmeistaramót unglinga í kraftlyftingum hefst í dag í Killeen í Texas.
Fjórir keppendur frá Íslandi taka þátt.
Arnhildur Anna Árnadóttir, Gróttu, keppir í -72,0 kg flokki unglinga á fimmtudag kl. 19.00 á íslenskum tíma.
Viktor Samúelsson, KFA, keppir í -105 kg flokki unglinga á laugardag kl. 19.00.
Júlían J.K. Jóhannsson, Ármanni, keppir í +120,.0 kg flokki unglinga á sunnudag kl. 18.00
Viktor Ben, Breiðablik, keppir í +120,0 kg flokki drengja á sunnudag kl. 15.00 en skemmtilegt viðtal við Viktor birtist á RÚV.IS um daginn og má lesa HÉR.

Við óskum þeim góða ferð og góðs gengis.

Bein útsending er frá mótinu.

Fanney keppir á morgun

Nú stendur yfir Heimsmeistaramót í bekkpressu í Kaunas í Litháen. Keppt er í opnum og aldurstengdum flokkum karla og kvenna.
Tveir íslenskir keppendur taka þátt: Fanney Hauksdóttir, Grótta, sem keppir í -63,0 kg flokki unglinga og Ingimundur Björgvinsson, Grótta, sem keppir í -105,0 kg opnum flokki.
BEIN VEFÚTSENDING ER FRÁ MÓTINU

FanneyFanney keppir á morgun, þriðjudag kl 10.00 á íslenskum tíma.
Fanney er 21 árs gömul og vakti strax á sínu fyrsta móti athygli fyrir styrk sinn í bekkpressu. Hún er ríkjandi íslandsmeistari í greininni og á best 115,0 kg í -63,0 kg flokki. Það er íslandsmet bæði í únglinga- og opnum flokki.

Við krossum fingur á morgun og vonum að Fanney nái út úr sér öllu því sem hún hefur lagt inn fyrir á æfingum undanfarið.

Góður árangur unglingalandsliðsins

Landsliðshópurinn er nú allur kominn heim frá EM unglinga í Prag og er ástæða til að fagna frammístöðu keppenda og óska þeim, þjálfurum þeirra, aðstoðarmönnum og landsliðsþjálfara til hamingju með mótið:
Í heildinni vann Ísland einn titil, 4.sæti, 5 sæti, 7. sæti, 10.sæti og 14.sæti, og fékk tvenn gull- og tvenn silfurverðlaun í greinunum. Allir keppendurnir kláruðu mótið og allir bættu árangur sinn, nema einn sem jafnaði sínu besta. Tólf Íslandsmet voru sett í unglingaflokkum og þrjú í opnum flokki.
Það mun kosta vinnu að toppa þetta, en undirbúningur er þegar hafinn.