Þing IPF 2012

Alþjóðakraftlyftingasambandið IPF hélt ársþing sitt í tengslum við Heimsmeistaramótið í Puertó Ríkó.
Hér má sjá þinggerðina.

Á þinginu var Gaston Parage kjörinn nýr forseti IPF, en hann hefur undanfarin ár starfað sem gjaldkeri sambandsins og er öllum hnútum kunnugur.
Sigurjón Pétursson, formaður KRAFT, hefur tekið við formennsku í aganefnd IPF.

Ísland leiðir NPF

Þing NPF, Norðurlandasambandið í kraftlyftingum, fór fram í Svíþjóð um helgina. Nokkrar veigamiklar ákvarðanir voru teknar á þinginu og verður fundargerðin birt þegar hún liggur fyrir samþykkt.
Meðal annars var samþykkt að láta formennska í sambandinu ganga hringinn milli aðildarþjóðanna til skiptis. Ísland ríður á vaðið og leiðir sambandið næstu tvö árin. Sigurjón Pétursson hefur tekið við formennsku í NPF og Gry Ek hefur tekið starf ritara.

EM framundan

Evrópumótið í kraftlyftingum fer fram í Pilzen í Tékklandi 3. – 7. maí nk. 165 íþróttamenn frá 25 löndum munum keppa á mótinu og má gera ráð fyrir keppni í hæsta gæðaflokki. Nú er keppt í nýjum þyngdaflokkum og verður spennandi að sjá hvernig menn hafa aðlagast þeim.

Frá Íslandi fara tveir keppendur. Auðunn Jónsson, Breiðablik, keppir í 120,0+ flokki síðdegis á laugardeginum. María Guðsteinsdóttir, Ármanni, keppir í -63,0 kg flokki síðdegis á miðvikudeginum, en hún hefur þurft að létta sig töluvert til að komast niður í þennan þyngdarflokk. Þau mæta bæði öflugum andstæðingum en eru í góðu formi og án meiðsla og við búumst við góðu af þeim.

Auk þeirra fara til Tékklands Sigurjón Pétursson, formaður Kraftlyftingasambands Íslands, sem ætlar að sitja þing EPF, Hörður Magnússon sem ætlar að dæma á mótinu og endurnýja alþjóðaréttindi sín sem dómari og Klaus Jensen sem ætlar að taka dómaraprófið til að öðlast slík réttindi. Hann ætlar þess utan að aðstoða Maríu, en aðstoðarmaður Auðuns er Vigfús Kröyer.

Bein vefútsending verður frá mótinu.
HEIMASÍÐA MÓTSINS

Árnað heilla!

Sigurjón Pétursson, formaður KRAFT, er sextugur í dag. Stjórn KRAFT, fyrir hönd kraftlyftingaáhugamanna allra, sendir honum heillaóskir á þessum tímamótum. Kveðjunni fylgja þakkir fyrir fórnfúst starf í þágu KRAFT,  kraftlyftinga- og íþróttaáhugamönnum öllum í landinu til heilla.

Kveðjunni fylgir líka ábending um að reglubundin styrktarþjálfun er undirstaða heilbrigðis á efri árum 😉