Breyting á mótareglum

Stjórn KRAFT samþykkti á fundi sínum 28.nóvember sl breytingu á 19.grein reglugerðar um mótahald. Félögum er gert skylt að leggja til dómara á mótum sem þau senda keppendur á, en annað starfsmannahald er á ábyrgð mótshaldara.
Eftir sem áður munu félögin hafa með sér samvinnu vegna mótahalds, en það verður ekki bundið í reglugerð heldur gert eftir samkomulagi hverju sinni.
Allir starfsmenn þurfa að vera skráðir í Felix.

REGLUR UM MÓTAHALD

Um löglegar keppnisgræjur

Í tæknireglum IPF er nákvæmlega tilgreint hvernig keppnisaðstæður eiga að vera. Hnébeygjustatíf og bekkir þurfa að uppfylla kröfur í öllum smáatriðum. Á alþjóðamótum má eingöngu nota græjur frá framleiðendum tilgreindum og viðurkenndum af tækninefnd IPF.

Hér á Íslandi hafa verið smíðuð tæki sem uppfylla þessa staðla fullkomlega og stjórn KRAFT hefur ákveðið að leyfa notkun þessara tækja í keppni innanlands, þar með talið á Íslandsmeistaramótum og bikarmótum.
Þetta var bókað á stjórnarfundi 1.júlí sl: Stjórn KRAFT styður ákvörðun dómaranefndar þess efnis að votta  sem gildar til notkunar á kraftlyftingamótum á Íslandi statív-samstæður sem smíðaðar eru á Íslandi í samræmi við staðla IPF. Stjórnin mælist til þess við dómaranefnd að hún votti framangreindar vottaðar samstæður til notkunar á öllum kraftlyftingamótum á Íslandi þ.m.t. Íslands-og bikarmótum.

Um starfsmenn á mót – breyting á reglugerð

Í nýsamþykktum mótareglum KRAFT er mikilvæg breyting í orðalagi 19.greinar.  Breytingin varðar skyldu allra félaga að senda starfsmenn á mót.
Nauðsynlegt er að skrá starfsmenn um leið og keppendur eru skráðir – annars tekur skráning ekki gildi.

Ástæðurnar fyrir þessum reglubreytingum eru ljósar öllum þeim sem hafa staðið í mótahaldi.
Helstu ástæðurnar eru:

–  að auka og tryggja gæði móta.
–  að auðvelda smærri félögum að halda mót
–  að fjölga dómerum og reyndum starfsmönnum í öllum félögum
–  að gefa öllum hlutverk, líka þeim sem eru ekki keppendur í það skiptið
–  að stuðla þannig að eflingu liðsanda

Reglan hljóðar:
19. gr. Starfsmenn á mótum

Það er sameiginleg skylda mótshaldara og þeirra félaga sem senda keppendur á mót að sjá til þess að nægilegur fjöldi dómara og starfsmanna sé á mótinu. Hvert félag fyrir sig ber ábyrgð á sínum dómurum og starfsmönnum. Allir dómarar og starfsmenn á móti skulu vera meðlimir í félögum innan KRAFT og skráðir sem slíkir í Felix. Starfsmenn skulu vera auðkenndir með fatnaði eða merkjum.
Félag sem sendir allt að tvo keppendur á mót skal leggja til að minnsta kosti einn dómara eða starfsmann.
Hvert félag sem sendir 3-4 keppendur á mót skal leggja til að minnsta kosti einn starfsmann og einn dómara.
Hvert félag sem sendir 5-6 keppendur á mót skal leggja til tvo dómara og tvo starfsmenn.
Hvert félag sem sendir 7-10 keppendur á mót skal leggja til að minnsta kosti tvo dómara og þrjá starfsmenn.
Hvert félag sem sendir 11 keppendur eða fleiri skal leggja til að minnsta kosti tvo dómara og 4 starfsmenn.

Beiðni um skráningu keppenda öðlast þá fyrst gildi þegar ofangreindum ákvæði er fullnægt.
Forfallist skráður starfsmaður er það á ábyrgð þess félags sem hann er fulltrúi fyrir að finna og tilkynna staðgengil. Mótshaldari metur hversu marga starfsmenn hann þarf á að halda og lætur félögin vita eins fljótt og hægt er.

Klassískar kraftlyftingar

Í nýuppfærðum reglum um mótahald er gert ráð fyrir að haldið sé árlegt Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum án búnaðar. Heiti mótsins verður Íslandsmeistaramót í klassískum kraftlyftingum og verður það heiti notað um kraftlyftingar án búnaðar.

Gert er ráð fyrir að skráning Íslandsmeta í klassískum kraftlyftingum hefjist 1.janúar 2014 og verða birtar lágmarksviðmið fyrir slík met fyrir þann tíma.

Eingöngu verður hægt að setja klassísk met á mótum þar sem keppt er án búnaðar. Nánar er fjallað um þetta í 24.grein mótareglnanna.

Mótareglur uppfærðar

Stjórn KRAFT samþykkti á fundi sínum 20.mars sl breytingar á reglugerð um keppendur og mótahald.
Reglurnar eru aðgengilegar undir Um KRAFT > reglugerðir 

Það er nauðsynlegt fyrir keppendur og ekki síður fyrir þjálfara og ábyrgðarmenn í félögum að kynna sér vel hvaða reglur eru í gildi.
Við munum kynna helstu breytingarnar hér á síðunni á næstunni.

Viðbrögð við óhapp á Bikarmóti

Eins og margir vita átti alvarlegt óhapp sér stað á Bikarmóti KRAFT 24.nóvember sl þar sem keppandi af slýsni drakk fljótandi ammóníak sem annar keppandi varðveitti í neytendaumbúðum.
Stjórn KRAFT fjallaði um þetta atvik á fundi sínum 16.desember og var eftirfarandi bókað: “Á Bikarmóti KRAFT þann 24. nóvember sl. átti það atvik sér stað að keppandi Gróttu tók í misgripum drykkjarflösku sem hann hélt sína og drakk af. Innihald drykkjarflöskunnar var ammóníak. Drykkjarflaskan sem innihélt ammóníakið bar ekki neinar merkingar í þá veru að innihaldið væri ammóníak og því hættulegt efni til neyslu heldur var hér um að ræða Gatorade flösku. Umbúnaður og varsla eiganda og umsjónarmanns umræddrar ammóníaksflösku var því vítaverður og til þess fallinn að valda slysi eins og umrætt atvik sannar. Til að koma í veg fyrir að slíkt atvik sem hér um ræðir endurtaki sig hefur stjórn Kraftlyftingasambands Íslands samþykkt í dag eftirfarandi viðbót við 7. gr. Reglna um mótahald: “Notkun ammóníaks í fljótandi formi er bönnuð á mótum á vegum aðildarfélaga Kraftlyftingasambands Íslands. Ammóníak sem er ekki í fljótandi formi er leyfilegt en verður að vera í greinilega merktum umbúðum. Viðurlög við broti á ákvæði þessu eru ákveðin af aganefnd KRAFT. Þau geta verið allt að eins árs keppnisbann frá þeim tíma sem viðkomandi keppni fór fram.”

Auk framangreinds var samþykkt að rita bréf til Kraftlyftingafélags Akureyrar (KFA) þar sem ofangreind samþykkt er tíunduð auk þess sem KFA er áminnt um ábyrgð sína á keppendum félagsins og allra þeirra sem hafa hlutverk á vegum þess í tengslum við mótahald og keppni. Einnig var samþykkt að rita Kraftlyftingadeild Gróttu bréf og gera grein fyrir aðgerðum í kjölfar atviksins á Bikarmótinu