Bikarmót – keppendur

Skráningu á Bikarmót KRAFT er nú lokið og hafa 54 skráð sig til leiks, þar af 20 konur.
KEPPENDUR 

Menn hafa nú viku til að ganga frá greiðslu og færa sig milli þyngdarflokka.
Athugið að greiða þarf fyrir veisluna í leiðinni og skrá sig á hana til [email protected]

Föstudaginn fyrir mótið heldur stjórn KRAFT fund með formönnum félaga. Á fundinn kemur Viðar Sigurjónsson, verkefnastjóri ÍSÍ, til að ræða m.a. þjálfaramenntun og fyrirmyndarfélagsfyrirkomulagið.
Æskilegt er að öll félög eigi fulltrúa á fundinum. Ef formaður kemst ekki, má finna annan fulltrúa.
Dagskrá fundarins verður sendur út þegar nær dregur.

Bikarmót – skráning hafin

Bikarmót Kraftlyftingasambands Íslands í kraftlyftingum karla og kvenna fer fram í íþróttamiðstöð Glerárskóla á Akureyri laugardaginn 22.nóvember nk og er skráning hafin. Fyrri skráningarfrestur er til miðnættis 31.oktober, en seinni til miðnættis 7.nóvember. Mótið er síðasta stóra mót ársins og mun skera úr um hvaða lið verður stigahæst á árinu.
Fundur stjórnar sambandsins með formönnum félaga fer fram kvöldið fyrir mót.

Akureyrarmótið í kraftlyftingum hefur farið fram á hverju ári síðan 1974 og verður það haldið í ár jafnhliða bikarmótinu með þeim hætti að innbyrðiskeppni verður milli heimamanna um titilinn Akureyrarmeistari.

Til stendur að halda veglegt lokahóf þar sem um leið verður fagnað tímamótum hjá KFA, en það félag var stofnað 1975 og verður því 40 ára á næsta ári.
Bikarmótið markar upphaf afmælisdagskrár félagsins.
Við hvetjum menn til að taka þátt  og fagna með þeim, en skráning í veisluna fer fram um leið og skráning á mótið sjálft og kostar 5000 krónur.

SKRÁNING: bikarmot14

ÍM unglinga á laugardag

Fyrsta Íslandsmeistaramót drengja/stúlkna og unglinga í klassískum kraftlyftingum fer fram á Akureyri á laugardag í umsjón KFA.
19 ungmenni eru skráð til leiks: KEPPENDUR

Mótið hefst kl. 13.00, vigtun kl. 11.00
Allar nánari upplýsingar veitir Grétar Skúli Gunnarsson 848 4460

 

Arnhildur hefur lokið keppni

Arnhildur Anna Árnadóttir átti ekki góðan dag á HM unglinga í dag þar sem hún keppti í -72 kg flokki. Hún náði ekki að klára mótið, fékk 3 gildar lyftur af 9 og féll úr í bekkpressu.
Arnhildur opnaði á 190 kg í hnébeygju og átti tvær góðar tilraunir við bætingu í 197,5 kg en það reyndist of þungt.
Í bekkpressu gekk ekkert upp, hún átti þrjár misheppnaðar tilraunir við 105 kg og féll með því úr keppni.
Hún hélt áfram og tók 165 – 172,5 í réttstöðu og sá smugu til að komast í verðlaunasæti í greininni með 187,5 kg. Hún reyndi við þyngdina, en það hafðist ekki.

Svíar gjörsigruðu flokkinn. Heimsmeistari varð Marie Tunroth með 552,5 kg á undan löndu sinni Elina Rønnquist.

Næstur á keppnispall fyrir Ísland er Einar Örn Guðnason. Hann keppir á morgun, föstudag, í -93 kg flokki unglinga og hefst keppnin 14.30 að staðartíma.

 

Camilla hefur lokið keppni

Camilla Thomsen keppti í dag á HM unglinga í Ungverjalandi.
Henni tókst ekki ætlunarverk sitt, að bæta heildarárangur sinn og var það helst bekkurinn sem eyðilagði fyrir henni.
Hún byrjaði á nýju Íslandsmeti unglinga í beygju og kláraði 150 kg i fyrstu tilraun. Tvær tilraunir við 157,5 voru of grunnar.
Á bekknum setti hún öryggið í fyrirrúmi og lyfti fyrst 55 kg, en þegar hún fór í slopp
og reyndi við 80 kg mistókst henni í báðum tilraunum.
Í réttstöðu lyfti hún 145 kg í fyrstu tilraun en mistókst tvisvar með tilraun til bætingu 157,5 kg. Camilla endaði því í 10.sæti með 350 kg og 3 gildar lyftur.
Miðað við markmið verður það að teljast ákveðin vonbrigði. Sárabótin er nýtt Íslandsmet
unglinga í hnébeygju og stórt innlegg í reynslubankann.
Sigurvegari í flokknum var Olga Adamovich frá Rússlandi sem lyfti 537,5 kg

Á morgun keppir Arnhildur Anna Árnadóttir í -72 kg flokki..

ÍM unglinga í klassískum kraftlyftingum – breytt dagsetning

KFA hefur í samráði við mótanefnd KRAFT ákveðið að breyta dagsetningu á ÍM unglinga í klassískum kraftlyftingum. Mótið fer fram á Akureyri dagana 20.og 21.september nk.

Keppnin verður tvískipt. Annarsvegar íslandsmeistaramót drengja og stúlkna flokki (14-18 ára) á laugardeginum og hinsvegar unglingaflokki kvenna og karla (19-23 ára) á sunnudeginum.

Aron á pall á HM

Aron Teitsson, Grótta, keppti í dag á HM í klassiskum kraftlyftingum og átti góðan dag. Hann er orðinn reyndur keppnismaður og sýndi það í yfirveguðum og vel útfærðum lyftum. Hann kemur heim með verðlaun, þrjú ný Islandsmet og góðar bætingar í farteskinu.
Hann viktaði 91,25 kg og var með léttari mönnum í -93 kg flokknum.

Aron fékk ógilt í fyrstu tilraun í hnébeygju, en lyfti síðan 230 og 242.5 og setti þar með nýtt Íslandsmet í greininni.

Á bekknum opnaði Aron á nýju islandsmeti 180 kg og tók síðan 190 kg örugglega. Hann kláraði svo 195 með stæl í síðustu tilraun og vann með því til bronsverðlauna í greininni og bætti  Islandsmetið um 20 kg á einu bretti.

Í réttstöðu lyfti Aron fyrst 270 auðveldlega, tók svo 285 jafn örugglega. Hann reyndi við 295 í þriðju, en það var of þungt í þetta sinn.

Aron endaði þar með á nýju Íslandsmeti samanlagt 722,5 kg, 30 kg persónuleg bæting, en það gaf honum 9 sætið í  flokknum.
Baráttan um gullið var hörð og vannst á líkamsþyngd, en sigurvegari var Krzysztof Wierzbicki frá Póllandi með 847,5 kg.

Við óskum Aroni til hamingju með glæsilegan árangur.

Dagfinnur setti þrjú ný Íslandsmet

Dagfinnur Ari Normann, Stjarnan, keppti í dag á HM unglinga í klassískum kraftlyftingum í Suður-Afríku. Hann keppti í -74 kg flokki.
Dagfinnur byrjaði mjög örugglega á nýju íslandsmeti unglinga í hnébeygju, 195 kg og bætti um betur með 202,5 kg í annarri tilraun. Hann reyndi svo við 207,5 kg í þriðju en það tókst ekki i þetta sinn.
Á bekknum byrjaði Dagfinnur með 135 kg sem einnig er nýtt unglingamet.Hann átti svo tvær ógildar tilraunir við 142,5 kg.
Í réttstöðu tók hann 210 –  220 – 225 kg
Þar með endaði hann í  562,5 kg sem er persónuleg bæting og bæting á íslandsmeti unglinga um 15 kg.
Það dugði í 6. sæti. Við óskum Dagfinni til hamingju með bætingarnar.

Sigurvegarinn í flokknum var kanadamaðurinn Josh Hancott með nýtt heimsmet unglinga 681,5 kg

Á morgun lyftir Elín Melgar. Keppnin hefst kl. 7.00 að íslenskum tíma.

HM í klassískum kraftlyftingum hafið

Heimsmeistaramótin í klassískum kraftlyftingum karla og kvenna í opnum og aldurstengdum flokkum eru hafin í Potchefstroom í Suður-Afríku og standa til 8.júni.

Þrír keppendur frá Íslandi taka þátt.
Aron Teitsson, Grótta, keppir á laugardag í opnum flokki karla – 93 kg. Keppnin hefst kl. 11.00 að íslenskum tíma.
Dagfinnur Ari Normann, Stjarnan, keppir á miðvikudag Í unglingaflokki karla -74 kg.
Elín Melgar, Grótta, keppir á fimmtudag í unglingaflokki kvenna -63 kg.
Keppni hjá þeim hefst kl. 7.00 að íslenskum tíma.

Bein útsending og upplýsingar: http://www.powerlifting-ipf.com/  

Við óskum þeim góðs gengis!