Ragnheiður og Sigfús bikarmeistarar

Bikarmót KRAFT fór fram í íþróttahúsi Breiðabliks í dag að viðstöddu fjölmenni.

Bikarmeistari í kvennaflokki varð Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir, Grótta, sem hlaut 465,7 stig, en í karlaflokki sigraði Sigfús Fossdal, KFV, með 536,1 stig.
Liðabikarinn fór til Gróttu. Við óskum þeim öllum til hamingju.
HEILDARÚRSLIT.
MYNDIR 

Á mótinu var kraftlyftingadeild Breiðabliks sæmd heitinu fyrirmyndarfélag ÍSÍ, en það er þriðja kraftlyftingafélagið sem nær þeim áfanga.

Bikarmót KRAFT

Bikarmót Kraftlyftingasambands Íslands verður haldið í íþróttahúsi Breiðabliks, Dalsmára 5 laugardaginn 23.nóvember. Mótið hefst kl. 10.00 með keppni í kvennaflokkum. Karlaflokkar byrja að lyfta kl. 13.30.
Aðgangur 500 krónur.

Vefútsending verður frá mótinu: http://www.ustream.tv/channel/kraftlyftingadeild-brei%C3%B0abliks

14 konur og 26 karlar eru skráðir til leiks.
KEPPENDUR

Auðunn lyftir á morgun

Auðunn Jónsson, Breiðablik, keppir í  +120 kg flokki  á HM í kraftlyftingum á morgun, laugardaginn 9. nóv, klukkan 13.30 að íslenskum tíma.
Auðunn lyfti eftirminnilega 412,2 – 275 – 362,5 = 1050 kg á HM í fyrra og vann þá gullið í réttstöðu. Hann ætlar sér bætingar á morgun. Við óskum honum alls góðs.

Keppendalisti: http://goodlift.info/onenomination.php?cid=276
Live streaming: http://wcstavanger2013.com/live-streaming-2/

María setti nýtt íslandsmet í samanlögðum árangri.

María Guðsteinsdóttir, Ármanni, keppti í dag á HM í kraftlyftingum í Stavanger í Noregi. Hún keppti í -72,0 kg flokki og lenti þar í 10.sæti á nýju íslandsmeti 472,5 kg.

Hún byrjaði á 170 örugglega í beygju, fór svo of grunnt með 180 kg í annarri en kláraði þeirri þyngd í þriðju tilraun. Það er 2,5 kg frá hennar besta árangri. Á bekknum tók hún fyrst 107,5 kg mjög létt, fór svo upp með 112,5 í annarri en fékk ógilt. Hún tók þessa þyngd svo mjög laglega í þriðju tilraun og virtist eiga inni.

Í réttstöðu lyfti hún 172,5 og 180, en 185 reyndist of þungt. Samanlagt endaði hún í 472,5 kg sem er 7,5 kg bæting á hennar eigin íslandsmeti.

Við óskum henni til hamingju með árangurinn og enn eitt metið!

 

Bikarmót KRAFT – skráning hafin

Skráning er hafin á Bikarmót KRAFT 2013 sem fram fer laugardaginn 23.nóvember nk. í íþróttahúsi Breiðabliks í Smáranum.
SKRÁNINGAREYÐUBLAÐ
Skráning skal senda á [email protected] fyrir miðnætti 2.nóvember. Frestur til að breyta skráningu og greiða keppnisgjald er til miðnættis 9.nóvember.
Athugið að skrá líka aðstoðarmenn og starfsmenn/dómara samkvæmt MÓTAREGLUM 19.grein. 

ÍM í réttstöðulyftu – úrslit

Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu fór fram á Ísafirði á laugardag. Þetta var fyrsta mót Kraftlyftingafélagsins Víkings og fór það vel fram. Veitt voru vegleg verðlaun og vefútsending var frá mótinu, en það er bæði skemmtilegt og gagnlegt fyrir keppendur og áhorfendur og verður vonandi framhald á því á sem flestum mótum.
María Guðsteinsdóttir, Ármanni, varð stigameistari kvenna á nýju Íslandsmeti 190 kg í -72 kg flokki. Í öðru sæti var Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir, Grótta og í þriðja sæti Solveig Sigurðardóttir, Grótta.
Aron Teitsson, Grótta, vann stigabikar karla með 295,0 kg í -93,0 flokki sem einnig er nýtt íslandsmet. Í öðru sæti var Viktor Samúelsson, KFA og í þriðja sæti Júlían J.K. Jóhannsson, Ármanni.
Stigahæsta liðið var Grótta.
HEILDARÚRSLIT
Viðurkenningar voru veittar fyrir flest stig í aldursflokkum. Emelía Rut Hólmarsdóttir Olsen, Massi, var hæst í stúlknaflokki. Viktor Ben, Breiðablik, var hæstur í drengjaflokki. Í unglingaflokkum kvenna og karl hlutu viðurkenningar Arnhildur Anna Árnadóttir, Grótta og Viktor Samúelsson, KFA. Í öldungaflokkum María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Bjarki Þór Sigurðsson, Breiðablik.

Við óskum öllum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn og þökkum mótshaldara fyrir vel heppnað mót.
Þórður Kr. Sigurðsson, Súðavík tók þessar myndir frá mótinu:

Góður árangur unglingalandsliðsins

hopurHM unglinga er nú lokið. Íslenska unglingalandsliðið gerði góða hluti á þessu móti undir stjórn þjálfara síns. Grétars Hrafnssonar.
Allir kláruðu mótið með góðum persónulegum bætingum. Arnhildur, Viktor og Júlían lentu öll í 6.sæti í sínum flokkum. Viktor Ben vann brons í sínum.
Uppskeran er bronsverðlaun samanlagt, tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun í einstökum greinum, 1 drengjamet, 7 unglingamet og 2 Islandsmet í opnum flokki.
Þetta er mjög góð niðurstaða þó að allir ítrustu draumar hafi ekki ræst.
Við óskum Arnhildi, Viktori Ben, Viktori Samúelssyni, Júlíani, Grétari og liðsstjóranum Borghildi Erlingsdóttur til hamingju og góða ferð heim.

Viktor hafnaði í 6.sæti á nýju Íslandsmeti

Viktor Samúelsson, KFA, hefur lokið keppni í -105,0 kg flokki unglinga á HM. Hann hafnaði í 6. sæti  á nýju Íslandsmeti í opnum flokki og flokki unglinga,
Viktor opnaði með 290 kg í vel útfærðri hnébeygju. Hann kláraði 300 kg í annari af harðfylgi, en það er nýtt Íslandsmet í flokki unglinga og opnum flokki. Hann átti svo góða tilraun við 305 kg en missti jafnvægið og varð að játa sig sigraðan.
Á bekknum opnaði Viktor mjög örugglega með 225 kg. Hann reyndi svo tvisvar við persónulegt met 232,5 kg og var mjög nálægt í þriðju tilraun en náði ekki að klára.
Í réttstöðu opnaði hann á 280 kg létt. Tók síðan 292,5 og setti þar með nýtt Íslandsmet í samanlögðu með 817,5 kg. en það er bæting um 10 kg. Hann lyfti svo 297,5 kg í þriðju tilraun, en kláraði hana ekki nógu vel að mati dómaranna og fékk hana ógilda.
Við óskum Viktori til hamingju með bætingar og ný met í safnið.

Sigurvegari í flokknum var Rússinn Yuri Belkin með 980,0 kg.

Aron með brons í bekkpressu á HM í klassískum kraftlyftingum.

Aron Teitsson keppti á HM í klassískum kraftlyftingum í Suzdal í Rússlandi fyrr í sumar og lenti þar í 4.sæti í bekkpressu.
Eftir að búið er að vísa frá þá keppendur sem reyndu að svindla sér til verðlauna er ljóst að Aron hækkar um sæti og fær þess vegna bronsverðlaun í greininni í -83,0 kg flokki með 167,5 kg.
Við óskum honum til hamingju með þetta – og vildum að hann hefði getað fengið þessa viðurkenningu strax!

Fanney Hauksdóttir vinnur brons á HM í bekkpressu!

Fanney Hauksdóttir, Grótta, lenti í 4.sæti á HM unglinga í bekkpressu í Litháen í vor.
Eins og ljóst hefur orðið féll sigurvegarinn í flokknum á lyfjaprófi og Fanney færist þess vegna upp um sæti.
Fanney Hauksdóttir er þess vegna bronsverðlaunahafi í sínum flokki og fær auk þess bronsverðlaun á stigum fyrir sín 115,0 kg í -63,0 kg flokki.
http://goodlift.info/onecompetition_bp.php?lid=0&cid=257
Við óskum Fanneyju innilega til hamingju með hennar fyrstu verðlaun á alþjóðavettvangi!

Hörmum um leið að hún skyldi ekki fá að njóta þess að stíga á pallinn og taka við verðlaunum á staðnum. Notkun á ólöglegum efnum eyðileggur mjög fyrir þá sem eru með sitt á hreinu.