Bikarmót – skráning hafin

Bikarmót Kraftlyftingasambands Íslands í kraftlyftingum karla og kvenna fer fram í íþróttamiðstöð Glerárskóla á Akureyri laugardaginn 22.nóvember nk og er skráning hafin. Fyrri skráningarfrestur er til miðnættis 31.oktober, en seinni til miðnættis 7.nóvember. Mótið er síðasta stóra mót ársins og mun skera úr um hvaða lið verður stigahæst á árinu.
Fundur stjórnar sambandsins með formönnum félaga fer fram kvöldið fyrir mót.

Akureyrarmótið í kraftlyftingum hefur farið fram á hverju ári síðan 1974 og verður það haldið í ár jafnhliða bikarmótinu með þeim hætti að innbyrðiskeppni verður milli heimamanna um titilinn Akureyrarmeistari.

Til stendur að halda veglegt lokahóf þar sem um leið verður fagnað tímamótum hjá KFA, en það félag var stofnað 1975 og verður því 40 ára á næsta ári.
Bikarmótið markar upphaf afmælisdagskrár félagsins.
Við hvetjum menn til að taka þátt  og fagna með þeim, en skráning í veisluna fer fram um leið og skráning á mótið sjálft og kostar 5000 krónur.

SKRÁNING: bikarmot14

ÍM unglinga á laugardag

Fyrsta Íslandsmeistaramót drengja/stúlkna og unglinga í klassískum kraftlyftingum fer fram á Akureyri á laugardag í umsjón KFA.
19 ungmenni eru skráð til leiks: KEPPENDUR

Mótið hefst kl. 13.00, vigtun kl. 11.00
Allar nánari upplýsingar veitir Grétar Skúli Gunnarsson 848 4460

 

ÍM unglinga í klassískum kraftlyftingum – breytt dagsetning

KFA hefur í samráði við mótanefnd KRAFT ákveðið að breyta dagsetningu á ÍM unglinga í klassískum kraftlyftingum. Mótið fer fram á Akureyri dagana 20.og 21.september nk.

Keppnin verður tvískipt. Annarsvegar íslandsmeistaramót drengja og stúlkna flokki (14-18 ára) á laugardeginum og hinsvegar unglingaflokki kvenna og karla (19-23 ára) á sunnudeginum.

Grettismót 25.júlí

Kraftlyftingafélag Akureyrar mun endurvekja kraftlyftingamótið „Grétarsmótið“ tileinkað Grétari Kjartansyni – en Grétar Kjartanson tileinkaði sér lyftingar og kraftlyftingar – og varð fyrsti Akureyríski Íslandsmeistarinn vorið 1974 en dó því miður af slysförum í nóvember sama ár. Vinir og fjölskylda létu verða að því að stofna lyftingaráðið í janúar 1975 og héldu mót í fjölmörg ár tileinkað Grétari – er nefndist „grétarsmótið“. Mótið var fyrst haldið árið 1975 og var haldið samfleytt til ársins 1989. Í tilefni 40 ára afmælis félagsins á næsta ári og 40 ára afmæli mótsins ætlar KFA að endurvekja mótið í nafni Grettis „sterka“ Ásmundarson árinu áður og með því leggja línurnar hvað varðar afmælismótið á næsta ári.

Upplýsingar: GRETTISMÓT

Akureyri vs. Stavanger

Laugardaginn 19.oktober nk verður efnt til bæjarliðakeppni milli Akureyrar og Stavanger. Keppnin fer fram á heimavelli KFA á Akureyri og HÉR má sjá lista yfir keppendur. Þessi skemmtilega nýjung í mótaflórunni er endurtekning á móti sem var haldið 1989 í Noregi.
Nokkrir íslendingar eru í liði Stavanger, m.a. Freyr Aðalsteinsson sem er Akureyringur en hefur búið lengi í Noregi. Freyr hefur haldið góðum tengslum við kraftlyftingafélaga sína hér heima alla tíð og fer nú fyrir nýju félaginu sínu í heimsókn til hins gamla.

Víð óskum KFA og Stavanger til hamingju með þetta frábæra framtak og keppendum góðs gengis. Keppnin hefst kl. 12.00 og verður án efa hin besta skemmtun.

HEIMASÍÐA KFA

Norðurlandamót í ólympískum lyftingum á Akureyri

Um helgina fór fram Norðurlandamót í ólympískum lyftingum á Akureyri í umsjón KFA og tókst mótið mjög vel. Lesa má fréttir af mótinu á heimasíðu KFA og Lyftingasambandsins.
Innan KFA er lagt stund bæði á kraftlyftingar og lyftingar og hjálpast menn að þegar á þarf að halda, eins og í þessu tilfelli, en mikil sjálfboðavinna er að baki slíku stórmóti.
Við óskum KFA til hamingju með flott mót sem eflaust skilur eftir sér mikla reynslu og mikinn hvatning hjá öllum sem tóku þátt.
Óskum um leið íslenskum keppendum til hamingju með verðlaun og ný met.

Rífandi gangur á Akureyri

kfaMikil uppbygging hefur átt sér stað hjá Kraftlyftingafélagi Akureyrar undanfarið og nú hefur félagið flutt í nýja og glæsilega æfingaraðstöðu að Sunnuhlíð 12 eins og sjá má á facebooksíðu félagsins.
Skipulögð æfingartafla hefur tekið gildi og er lögð sérstök áhersla á að taka vel á móti ungum byrjendum sem fá þjálfun og aðstoð við hæfi af reyndum meðlimum félagsins.
Með þessu stendur félagið heldur betur undir nafnbótinni Fyrirmyndarfélag.

Við óskum norðanmönnum til hamingju með þetta góða starf. Verið er að kynna íþróttina okkar fyrir nýja kynslóð og er það framtak til eftirbreytni. Sterkir kraftlyftingafmenn hafa löngum komið frá Akureyri og hér stefnir allt í að svo verði áfram.

Nú er mál fyrir KFA-menn að mæta á staðinn og taka á því. Og fyrir meðlimi annara félaga að leggja leið sína norður í sumar og taka æfingu við fyrsta flokks aðstæður.

 

Vegna kraftlyftingamóta á Akureyri

Að gefnu tilefni vegna fyrirspurna sem stjórn KRAFT hafa borist svo og til að koma í veg fyrir allan misskilning vill stjórn KRAFT árétta eftirfarandi:

Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA) hefur auglýst að félagið hyggist halda Íslandsmeistaramót unglinga (19-23) og yngri unglinga (14-18) í kraftlyftingum (án búnaðar) helgina 13 – 14 apríl 2013. Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands (KRAFT) hefur ekki samþykkt framangreint mót og mótið er ekki á mótaskrá KRAFT. Aðeins KRAFT eða félög sem stjórn KRAFT hefur samþykkt sem mótshaldara viðkomandi móts geta haldið Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum. Mótið er því ekki Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum og  þar sem mótið er ekki á mótaskrá mun enginn árangur eða titill verða færður í skrár KRAFT.

KFA hlýtur viðurkenningu

Fulltrúi ÍSÍ afhenti formanni Kraftlyftingafélags Akureyrar viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á bikarmóti KRAFT um helginga.
KFA verður þar með annað aðildarfélag KRAFT sem nær því markmiði. Áður hafði Heiðrún, Kraftlyftingafélag Garðabæjar, fengið þessa viðurkenningu.
Við óskum Akureyringum til hamingju með þessa nafnbót og hvetjum önnur félög til að huga að þessu líka.

Frá mótanefnd

Þar sem fullgild mótaskýrsla frá Akureyrarmótinu í kraftlyftingum í sumar hefur ekki borist hefur mótanefnd og stjórn KRAFT úrskurðað að líta verður á mótið sem innanfélagsmót.
Úrslit mótsins verða því varðveitt hjá mótshaldara en ekki í gagnabanka KRAFT.