Úthlutun úr afrekssjóði ÍSÍ

Í dag var úthlutað úr afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2015, samtals rúmlega 122 milljónir króna og féll verulegur skerfur í hlut Kraftlyftingasambands Íslands, eða 5.420.000 krónur vegna verkefna landsliðsins og 8 einstaklinga.
Auðunn Jónsson hlaut A-styrk aftur í ár, Júlían J. K. Jóhansson hlaut C-styrk og hlaut sambandið eingreiðslustyrk vegna verkefna 6 annarra landsliðsmanna. .
YFIRLIT YFIR STYRKVEITINGAR

Kostnaðaráætlun þeirra verkefna sem sótt var um styrk til úr sjóðnum alls var upp á 1.034 m. krónu, svo þessi úthlutun dugar skammt, dekkar 11.8% af þeim kostnaði sem sérsamböndin telja sig þurfa að leggja í vegna verkefna sinna afreksmanna.

Fyrir KRAFT kemur styrkurinn sér mjög vel og er viðurkenning á markvissu og öflugu starfi sambandsins að afreksmálum undanfarin ár og hvatning til áframhaldandi dáða.Sambandinu og einstaklingunum sem í hlut eiga er með þess sýnt traust.

Framundan er spennandi keppnistímabil, en fyrsta landsliðsverkefnið er Norðurlandamót unglinga sem fer fram í Finnlandi í lok febrúar

Auðunn í kjöri íþróttamanns ársins

Samtök íþróttafréttamanna birtu í dag nöfn þeirra 10 afreksmanna sem eru í kjöri á íþróttamanni ársins 2013. Á þeim lista er Auðunn Jónsson, Breiðablik, annað árið í röð.
Við óskum honum til hamingju með þeirri viðurkenningu sem í þessu felst og krossum fingur fyrir Auðun, en kjöri á íþróttamanni ársins verður lýst í beinni útsendingu í sjónvarpi 28.desember nk.

http://www.mbl.is/sport/frettir/2013/12/23/tiu_efstu_i_kjorinu_a_ithrottamanni_arsins/

Íþróttamenn ársins 2013

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands hefur valið Auðunn Jónsson, Breiðablik, kraftlyftingamann ársins 2013 og Fanney Hauksdóttir, Gróttu, kraftlyftingakonu ársins 2013.

Auðunn Jónsson, Breiðablik, hefur verið í flokki bestu kraftlyftingamanna heims um árabil. Hann er í 9.sæti á afrekslista IPF í sínum flokki.
Helstu afrek 2013:
Evrópumót +120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun samanlagt.
Evrópumót +120,0 kg flokki: 2.sæti og silfurverðlaun í hnébeygju.
Evrópumót +120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun í bekkpressu.
Evrópumót +120,0 kg flokki: 1.sæti og gullverðlaun í réttstöðulyftu.

Fanney Hauksdóttir, Grótta, er fædd 1992 og keppir enn i unglingaflokki. Hún hefur samt náð frábærum árangri á árinu, sérstaklega í bekkpressu sem er hennar sérgrein. Hún er í 16.sæti á afrekslista IPF í bekkpressu í opnum flokki -57,0 kg, þó hún sé ennþá unglingur.
Helstu afrek 2013:
HM unglinga í bekkpressu -57,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun
Norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum -57,0 kg flokki: 1.sæti og gullverðlaun
Íslandsmeistaramót í bekkpressu: 1.sæti á stigum og gullverðlaun
Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum -63,0 kg flokki: 1. sæti og gullverðlaun
Fanney setti íslandsmet í bekkpressu á árinu með 115,0 kg í -63,0 kg flokki, en
það er met bæði í unglingaflokki og opnum flokki.

Við óskum þeim til hamingju með þennan heiður sem þau eru bæði vel að komin,

Auðunn lyftir á morgun

Auðunn Jónsson, Breiðablik, keppir í  +120 kg flokki  á HM í kraftlyftingum á morgun, laugardaginn 9. nóv, klukkan 13.30 að íslenskum tíma.
Auðunn lyfti eftirminnilega 412,2 – 275 – 362,5 = 1050 kg á HM í fyrra og vann þá gullið í réttstöðu. Hann ætlar sér bætingar á morgun. Við óskum honum alls góðs.

Keppendalisti: http://goodlift.info/onenomination.php?cid=276
Live streaming: http://wcstavanger2013.com/live-streaming-2/

Arnold Classic Europe

Í oktober nk verður haldið Arnold Classic Europe í Madrid á Spáni, en Arnold Sports festival hefur verið haldinn í Columbus, Ohio frá 1989. Meðal keppnisgreina að þessu sinni eru kraftlyftingar í umsjón Spænska kraftlyftingasambandins og EPF.
Sterkustu menn og konur Evrópu eru á boðslistanum og meðal þeirra er okkar eigin Auðunn Jónsson í +120,0 kg flokki.

Auðunn vann til bronsverðlauna á EM

Auðunn Jónsson, Breiðablik, háði harða baráttu um gullið í +120,0 kg flokki á EM í Tékklandi í dag. Hann reyndi við 372,5 í síðustu lyftu, en það hefði dugað í fyrsta sætið samanlagt. Það gekk ekki, en 352,5,0 kg í réttstöðu dugði í gullverðlaun í greininni og bronsverðlaun samanlagt. Sigurvegari var finninn Kenneth Sandvik.
Auðunn lyfti 405 – 282,5 – 352,5 = 1040,0 kg
Hann fékk silfur í beygju, brons í bekkpressu og gull í réttstöðu, og s.s. bronsverðlaun samanlagt.
Við óskum honum til hamingju með frábæran árangur.
Heildarúrslit

photo (2)

Auðunn lyftir á morgun

Auðunn Jónsson, Breiðablik, keppir á Evrópumótinu í kraftlyftingum á morgun, laugardag. Auðunn keppir í +120,0 kg flokki og hefst keppnin kl. 9.00 á íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með á netinu: http://goodlift.info/live.php

Auðunn verður í baráttunni um verðlaun og er í góðu formi samkvæmt nýjustu fréttum. Góðar framfarir á bekknum eykur á bjartsýni manna, en miðað við skráningartölur má búast við að helstu keppinautar Auðuns verði góðkunningar hans frá Norðurlöndum, finninn Sandvik og norðmaðurinn Bårtvedt.

Við sendum kraftakveðjur til íslenska liðsins!

EM hefst á morgun

eo-2013Opna Evrópumótið í kraftlyftingum hefst á morgun 7.maí í Pilzen í Tékklandi og stendur til 11.maí. 162 keppendur frá 23 löndum eru skráðir til leiks, 100 í karlaflokki og 62 konur.
Meðal þeirra eru María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Auðunn Jónsson, Breiðablik.
María keppir í -72,0 kg flokki á miðvikudag en Auðunn í +120,0 kg flokki á laugardag. Samkvæmt Grétari Hrafnssyni landsliðsþjálfara eru þau bæði í góðu formi og mjög vel undirbúin.
Helgi Hauksson og Klaus Jensen munu dæma á mótinu og Sigurjón Pétursson situr þing EPF fyrir hönd KRAFT.
Hægt verður að fylgjast með á netinu: http://goodlift.info/live.php

Við óskum þeim öllu góðs gengis.

Auðunn Jónsson afreksmaður UMSK

Á ársþingi UMSK fyrir skemmstu hlaut Auðunn Jónsson, Breiðablik, viðurkenningu sem afreksmaður UMSK 2012.
Varla þarf að tíunda afrek Auðuns á árinu fyrir lesendur þessarar síðu og er hann vel að heiðrinum kominn. Við óskum honum til hamingju með viðurkenninguna.

MYNDIR

Þrír kraftlyftingamenn fá afreksstyrki

Í dag var úthlutað úr afrekssjóði ÍSÍ með breyttum áherslum frá því sem verið hefur undanfarin ár.
Auðunn Jónsson, Breiðablik, fær A-styrk úr sjóðnum 2013.
María Guðsteinsdóttir og Júlían J.K. Jóhannsson, Ármanni, fá C-styrk í ár.
Auk þess var úthlutað til sambandsins vegna skilgreindra verkefna landsliðsins á árinu.

Þetta er fagnaðarefni og hvetur bæði afreksmönnum og sambandinu til dáða við að ná markmiðum afreksstefnu sinni.

Frétt ÍSÍ má lesa hér