Skip to content

Tæknireglur IPF 2024.

Alþjóðakraftlyftingasambandið hefur uppfært tæknireglur sínar og hefur bæði íslenska og enska útgáfan verið uppfærð á heimasíðu KRAFT. Mikilvægt er að keppendur, þjálfarar og dómarar kynni sér allar breytingar. Fyrir keppendur bendum við sérstaklega á að það eru breytingar á reglum um keppnisbúninga án stuðnings og stuttermaboli.

ÍSLENSKA ÚTGÁFAN
ENSKA ÚTGÁFAN

Helstu breytingarnar snúa að eftirfarandi atriðum:

Aldurstakmörk keppenda á opnum mótum – Nú þurfa keppendur að vera komnir á 19. aldursár til að mega keppa á opnum mótum. Þá geta keppendur í öldungaflokkum M3 og M4 ekki keppt í opnum flokki.

Keppnisbúningar án stuðnings – Núna er sérstaklega tilgreint í reglunum að keppendur verða að nota sama keppnisbúninginn í öllum greinum út allt mótið og að ermar stuttermabols þurfi að falla ,,þétt“ að handleggjum. Einnig eru komnar reglur um notkun höfuðfata og svitabanda.

Notkun hnéhlífa – Dómarar eiga nú einnig að hafna hnéhlífum sem keppandi hefur fengið aðstoð við að setja á sig.

Vigtun – Þjálfari eða fararstjóri sem fylgir keppanda í vigtun þarf að vera af sama kyni.

Fjöldi þjálfara – Nú hafa verið settar ítarlegri reglur um þann fjölda þjálfara sem mega vera með keppanda á upphitunar- og undirbúningssvæði. Einungis einn þjálfari má fylgja keppenda að keppnispalli. Þá er tekið fram að þjálfara sé ekki heimilt að taka myndir eða myndbandsupptökur af keppanda á keppnispallinum.