Skip to content

Sóley og Júlían kraftlyftingafólk ársins 2020

  • by

Keppnisárið 2020 er senn á enda og stendur varla undir nafni þar sem keppnishald hefur verið mjög takmarkað og fá tækifæri gefist fyrir afreksmenn að sýna sig. Af þeim sökum velti stjórnin fyrir sér hvort nægur grundvöllur væri til að útnefna kraftlyftingafólk ársins eins og venjan er á þessum tíma árs. Nokkur mót voru þó haldin og árangur þar eftirtektarverður. Þrátt fyrir miklar takmarkanir er ljóst að mörgum afreksmönnum tókst að ná bætingum á árinu. 
Stjórnin hefur því ákveðið að réttlætanlegt og nauðsynlegt er að viðurkenna þann árangur með tilnefningu. 
Sérstök reglugerð gildir um hvernig það val á að fara fram, en sú aðferð dugar ekki í ár þar sem forsendur hafa brostið. Því ákvað stjórn á fundi sinum 9.desember sl  að leggja stigaranking til grundvallar í þetta sinn.
Samkvæmt ákvörðun þingsins 2020 var DOTS stigataflan látin gilda.

Kraftlyftingakona ársins 2020 er Sóley Margrét Jónsdóttir, Breiðablik, með 531,98 DOTS stig
Kraftlyftingakarl ársins 2020 er Júlían J K Jóhannsson, Ármann, með 594,32 DOTS stig

Sóley er fædd 2001 og keppir fyrir Breiðablik.
Sóley var á árinu íslandsmeistari í kraftlyftingum og í réttstöðulyftu í +84 flokki kvenna.
Hún setti íslandsmet í bekkpressu og bekkpressu/single lift með 180 kg, í réttstöðulyftu og réttstöðulyftu/single lift með 220 kg og samanlagt með 665 kg. Það er mesti þyngd sem íslensk kona hefur tekið og er ekki nema 10 kg frá Evrópumetinu í hennar aldurs- og þyngdarflokki.
Sóley setti á árinu Norðurlandamet í hnébeygju, bekkpressu, bekkpressu/single lift og samanlögðu í +84 kg flokki unglinga.

Júlían er fæddur 1993 og keppir fyrir Ármann.
Júlían varð á árinu íslandsmeistari í kraftlyftingum og í réttstöðulyftu í +120 kg flokki karla.
Hann setti íslandsmet í hnébeygju með 415 kg, í bekkpressu og bekkpressu/single lift með 330,5 kg og í réttstöðulyftu/single lift með 409 kg.