Skip to content

Ragnheiður og Júlían í viðtali

  • by

Júlían J. K. Jóhannsson og Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir voru valin kraftlyftingamaður og kraftlyftingakona ársins 2014.
Árdís Ósk tók þau tali að því tilefni:

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir

rksRagnheiður varð stigahæst kvenna á Íslandi á árinu þegar hún tók 400 kg í samanlögðu í -57 kg flokki á Norðurlandamóti í Kraftlyftingum sem haldið var í Njarðvík í ágúst og varð þar með Norðurlandameistari í sínum flokki. „Ég átti góðan dag og var mjög ánægð að ná 400,“ segir Ragnheiður en hún er einna stoltust af því móti þegar hún lítur yfir árið.

Æfingafélagarnir mikilvægir
Ragheiður þakkar helst frábærum þjálfara og skemmtilegum æfingafélögum þennan gríðarlega árangur sem hún hefur náð á stuttum tíma en Ragnheiður byrjaði fyrst að keppa fyrir tveimur árum. „Systir mín æfir með mér og hvetur mig til dáða. Rannveig og Ása hvetja mig einnig vel áfram á æfingum.“

Tekur skóna og beltið með sér í frí
Næsta mót hjá Ragnheiði er Evrópumeistaramóti í maí á næsta ári. „Ég stefni alla vega á meira en 400 þar,“ segir Ragnheiður en þó að langt sé í næsta mót er ekker lát á æfingum. „Ég nýt þess núna að vera bara að æfa án þess að keppa eða keyra upp fyrir mót,“ en Ragnheiður segist lítið hrifin af því að taka sér pásur frá æfingum því það sé leiðinlegt að missa úr og þurfa að vinna upp. „Ég tek alltaf með mér belti og skó þegar við förum til útlanda og í sumarfríinu var ég úti á landi en keyrði fjórum sinnum í viku í Kirkjubæjarklaustur að æfa, það er ágætis gym þar.

Júlían J. K. Jóhannsson

jjkjÉg er ánægðastur með heimsmeistaramót unglinga og sérstaklega bætingarnar í hnébeygju á mótinu. Ég er líka búinn að vera að ná fleiri gildum réttstöðulyftum undanfarið en áður,“ segir Júlían um árangur ársins. Á heimsmeistaramóti unglinga nældi Júlían sér í silfur í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 337,5 kg og þar lyfti hann líka 375 kg í hnébeygju og 267,5 kg í bekkpressu og náði þannig þriðja sæti í samanlögðu með 980 kg. Sá árangur skilaði honum 12. sæti á heimslista þetta árið.

Setur markið hærra á næsta ári
Júlían æfir allt árið um kring og segist ekki taka sér hlé. Hann æfir létt með litlu álagi fyrstu vikurnar eftir mót. „Til að ná árángri í íþróttinni er mikilvægast að æfa vel og vera einbeittur,“ segir Júlían. Næsta mót hjá honum er Evrópumót unglinga í apríl „mig langar til að standa mig vel á unglingamótunum bæði Evrópumótinu og Heimsmeistarmótinu. Ég vil standa mig betur á næsta ári en á þessu og ná lágmarki fyrir heimsmeistaramót í opnum flokki.“ Júlían á enn tvö ár eftir í unglingaflokki og er því rétt að byrja.
Júlían segir fjölskylduna styðja vel við bakið á sér og svarar því að það sé mamma hans sem er spenntust að fylgjast með og setur sig vel inn í hvað er að gerast.