Skip to content

Ragnheiður með fjögur Íslandsmet á EM öldunga í klassískum kraftlyftingum.

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir sem keppti í -63 kg flokki M1 átti mjög góðan dag á keppnispallinum eftir fimm ára pásu frá alþjóðamótum. Í hnébeygju lyfti hún mest 132.5 kg sem var 7.5 kg bæting á hennar eigin Íslandsmeti í aldursflokknum 40-49 ára og var hún einungis hálfu kílói frá sínu allra besta í greininni. Í bekkpressu hafnaði hún í 6. sæti þar sem hún lyfti seríunni 82.5 – 85 – 87.5 og bætti sig persónulega um 2.5 kg. Árangur hennar í réttstöðulyftu var ekki síðri því þar bætti hún Íslandsmetið um 2.5 kg en samanlagt lyfti hún 372.5 kg sem er 12.5 kg bæting á Íslandsmeti Helgu Guðmundsdóttur frá árinu 2015. Þessi árangur tryggði henni 9. sætið í flokknum og er óhætt að segja að fyrsta alþjóðamótið hjá Ragnheiði í öldungaflokki lofi virkilega góðu um framhaldið.

Til hamingju Ragnheiður með flott mót og Íslandsmetin!

Á morgun er svo komið að síðustu íslensku keppendunum, þeim Benedikti Björnssyni og Hrefnu Jóhannsdóttur Sætran. Benedikt stígur á pall kl. 8:00 í fyrramálið en Hrefna byrjar keppni kl. 12:00.