Skip to content

Ráðherra heiðrar kraftlyftingamenn

  • by

Ráðherra mennta- og menningarmála, Katrín Jakobsdóttir, bauð stjórn og afreksmönnum KRAFT til móttöku í ráðherrabústaðnum í fyrradag. Tilefnið var velgengni Auðuns og Júlíans á árinu og meðal annara gesta voru Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ, Líney R. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og aðrir fulltrúar íþróttahreyfingarinnar.
Ráðherra óskaði Auðunni og Júlían til hamingju með þeirra afrek. “Við erum fámenn þjóð og þess vegna ekki sjálfgefið að meðal okkar skulu vera íþróttamenn í fremstu röð á heimsvísu eins og Auðunn og Júlían og því er það þeim mun ánægjulegra þegar menn ná slíkum árangri og af því getum við verið ákaflega stolt. Afreksfólk verður ekki til á einum degi þó svo að lyfturnar góðu á þessu heimsmeistaramóti hafi tekið einn dag; margra ára vinna liggur að baki svona árangri og vil ég óska ykkur innilega til hamingju“, sagði hún.  
Sigurjón Péturson, formaður KRAFT, tók til máls og þakkaði fyrir. Hann sagði það hafa verið forgangsverkefni stjórnar KRAFT að hefja íþróttina til þeirrar virðingar sem hún á skilið, og móttaka ráðherra sýna að það hafi tekist.
Án þess að gera upp á milli manna verður að segja það sérstaklega ánægjulegt að Auðunn Jónsson og fjölskylda hans skuli hafa fengið tækifæri til að gleðjast yfir afrekum hans við svo hátíðlegt tækifæri.

http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/7258