Skip to content

Öllum takmörkunum aflétt

  • by

Nú hefur öllum sóttvarnartakmörkunum verið aflétt á Íslandi.
Framkvæmdastjóri ÍSÍ sendir okkur að því tilefni þessa kveðju:

Heil og sæl öll!!

Þær ánægjulegu fréttir voru að berast að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að frá og með 26. júní næstkomandi falli úr gildi allar takmarkanir á samkomum innanlands. Í þessu felst meðal annars fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana. Ákvörðun um afléttingu allra samkomutakmarkana er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þann 1. júlí taka einnig gildi breyttar reglur varðandi sýnatökur á landamærum.

Þetta eru sannarlega stór tíðindi fyrir alla á Íslandi og íþróttahreyfinguna þar með. Síðastliðið ár hefur fært okkur miklar áskoranir og hindranir en með sameiginlegu átaki hefur tekist að komast fyrir vind.

Hér má lesa kvót frá heilbrigðisráðherra og forseta ÍSÍ í tilefni fréttanna:

Svandís Svavarsdóttir: „Í raun erum við að endurheimta á ný það samfélag sem okkur er eðlilegt að búa í og sem við höfum þráð, allt frá því að heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur voru virkjaðar vegna heimsfaraldurs fyrir rúmu ári, þann 16. mars 2020.“

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ: „Þó framtíðin geti borið með sér sambærilegar nýjar áskoranir þá er gott að geta fagnað þessum stóra áfanga núna og notið þess að geta á ný haldið úti sama kröftuga íþróttastarfinu í landinu, án takmarkana. Ég er afar þakklátur fyrir það mikla starf sem leiðtogar, starfsfólk og sjálfboðaliðar í hreyfingunni hafa lagt á sig til að halda úti íþróttastarfsemi í landinu undir krefjandi skilyrðum vegna kórónuveirufaraldursins og ekki síður er ég þakklátur heilbrigðis- og sóttvarnayfirvöldum fyrir frábæra stjórn á aðstæðum allan tímann sem þetta ástand hefur varað. Eins hefur verið ómetanlegur skilningur stjórnvalda á aðstæðum íþróttahreyfingarinnar og eru við afar þakklát fyrir þann mikla fjárhagslega stuðning sem yfirvöld hafa veitt til hreyfingarinnar. Samstarf íþróttahreyfingarinnar, almannavarna og heilbrigðis- og sóttvarnayfirvalda hefur verið afar náið og gott í gegnum allt þetta ferli og fyrir það erum við einnig þakklát. Nú skulum við öll njóta þess frelsis sem afléttingarnar gefa okkur en þó með viðeigandi varkárni í ljósi þess að við vitum öll að veiran er á kreiki og getur enn gert okkur lífið leitt þó við vonum öll og trúum að það versta sé vel að baki. Nú getum við sett endurnýjaða orku í að efla íþróttastarfið enn frekar og endurheimta þá stöðu sem íþróttahreyfingin var komin í fyrir faraldurinn. Ég er mjög bjartsýnn á að það takist enda leitun að öðrum eins eldhugum og þeim sem knýja áfram íþróttastarfið í landinu.“

Hér er tengill inn á heimsíðu heilbrigðisráðherra þar sem finna má minnisblöð varðandi afléttingar innanlands og um reglur á landamærum:

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/06/25/COVID-19-Afletting-allra-samkomutakmarkana-26.-juni/

Við þökkum ykkur öllum fyrir frábært samstarf á þessum krefjandi tímum sem vonandi eru að baki nú.

Kærar kveðjur og góða helgi!

ÍÞRÓTTA- OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS

Líney Rut Halldórsdóttir

framkvæmdastjóri