Skip to content

Nýr íþróttastjóri KRAFT

  • by

Kraftlyftingasamband Íslands réð á dögunum Viðar Bjarnason í starf íþróttastjóra. Viðar er 39 ára gamall reykvíkingur og er með bakkalárgráðu í Íþróttastjórnun (Sports Management). Hann lærði við KNORTH í Kaupmannahöfn og snerist námið m.a. um stjórnun og rekstur íþróttafélaga. Viðar var nemi hjá danska blaksambandinu og í gegnum það kom hann að skipulagningu EM í blaki sem Danmörk og Pólland sáu um að halda.

Viðar Bjarnason, íþróttastjóri KRAFT

Viðar flutti aftur heim til Íslands 2012 og hóf þá störf hjá  Knattspyrnufélaginu Val sem íþróttafulltrúi. Hann sinnti því starfi til ársins 2015 og fór þá að vinna á öðrum sviðum. Hann segir þó að hugurinn hafi ávallt leitað til íþróttanna, enda hafi hann mikinn áhuga á líkamsrækt, íþróttum og almenni hreyfingu.

Með því að Kraftlyftingasambands Íslands var skilgreint sem afrekssamband innan ÍSÍ þá hefur sambandið unnið markvisst að því að bæta starfið og umgjörðina. Ráðning Viðars í starf íþróttastjóra er næsta stig í áframhaldandi starfi sambandsins. Verkefnum hefur fjölgað með fjölgun keppenda og því er mikilvægt að fá inn aðila til að halda utan um þau og sjá um samskipti við þau alþjóðasamböndin sem KRAFT er hluti af. Ber þar að nefna Kraftlyftingasamband Norðurlandana (NPF), Kraftlyftingasamband Evrópu (EPF) og Alþjóðlega Kraflyftingasambandið (IPF). Auðvitað líka ÍSÍ.

Kraftlyftingasamband Íslands býður Viðar hjartanlega velkominn til starfa.