Skip to content

María heimsmeistari!

María Guðsteinsdóttir var í dag að tryggja sér heimsmeistaratitilinn í sínum flokk í kraftlyftingum! María keppti í master 1, -57kg flokki og háði mikla baráttu við Jodi Funk.

María vann sinn flokk með minnsta mögulega mun, 2.5kg eftir að dedda 160. (142.5-77.5-160=380).

Eftir bekkinn var Funk með 5kg forskot (140-85) en virtist á pappírnum vera með miklu lakara dedd, opnaði á 130 á móti 150 Maríu. En ekki er allt sem sýnist. Funk tók 130-142.5 og meldaði 150 í 3. tilraun. María tók 150-157.5 og meldaði 170 í þriðju.

En þá gerðist ýmislegt. Funk áttaði sig á því að ef hún tæki 152.5 og María klikkaði á 170 mundi hún vinna á léttari líkamsþyngd! Allt í einu breyttist hennar melding í 152.5 og hún tók það! Þarna fraus svo stigastaflan!

Auðvitað hefur María oft tekið 170 en hún er léttari en áður og kannski var það tæpt? Loksins lifnaði aftur yfir stigatöflunni og María hafði breytt lokadeddinu í 160 sem gæfi öruggan sigur.

Því miður fraus útsendingin akkúrat á meðan en María tók 160 örugglega og vann!

Heimsmeistari í öldungaflokki kvenna -57kg!!!

Og að auki stigahæst í sínum aldursflokki 40-49 ára

Við skulum gefa Maríu orðið,

”þetta var nokkuð erfitt mót í beygju og bekk. Lenti í vandræðum með sloppinn því ermarnar voru enn of þröngar og ég var hálf tilfinningalaus í öðrum handleggnum. Þannig að ég varð að fara úr honum eftir tvær lyftur en á greinilega meira þar inni. Deddið spiluðum við bara öruggt. Reyndar átti lokaþyngdin að vera byrjunarvigt en að hafa þetta bara öruggt þegar titill er í húfi.”

Til hamingju María Guðsteinsdóttir.