Skip to content

Lucie Stefaniková og Friðbjörn Bragi Hlynsson sigruðu á RIG.

Í dag fór fram keppni í klassískum kraftlyftingum á RIG þar sem keppt var á IPF-GL stigum í karla- og kvennaflokki.

Í kvennaflokki sigraði Lucie Stefaniková með yfirburðum en hún hlaut 100.291 GL stig en í næstu sætum komu Drífa Ríkarðsdóttir með 91.810 stig og Kristrún Sveinsdóttir sem náði 85.504 stigum.

Hjá körlunum var það Friðbjörn Bragi Hlynsson sem sigraði en hann hlaut 96.236 stig. Næstir komu Máni Freyr Helgason með 92.449 stig og Hilmar Símonarson hafnaði í þriðja sæti með 86.839 stig.

Mörg Íslandsmet féllu á mótinu:
Kristrún Sveinsdóttir þríbætti Íslandsmetið í hnébeygju í -52 kg flokki en hún lyfti mest 120 kg. Hún þríbætti einnig bekkpressumetið og endaði þar með 77.5 kg, auk þess sem hún bætti Íslandsmetið í samanlögðum árangri.
Drífa Ríkarðsdóttir bætti Íslandsmetið í hnébeygju í -57 kg flokki með 135 kg lyftu, í réttstöðu með 172,5 kg og í samanlögðum árangri.
Í karlaflokki tvíbætti Hilmar Símonarson Íslandsmetið í hnébeygju í -74 kg flokki en hann lyfti mest 220 kg og setti einnig Íslandsmet í samanlögðum árangri.
Þá setti Máni Freyr Helgason Íslandsmet unglinga í samanlögðum árangri með 665 kg.

Nánari úrslit má sjá HÉR.

Að móti loknu fór fram athöfn þar sem undirritaður var samningur um heimsmeistaramótið í kraftlyftingum, en mótið fer fram á Íslandi í nóvember á þessu ári. Gaston Parage forseti IPF og Hinrik Pálsson formaður KRAFT undirrituðu samninginn að viðstöddum Ellerti Birni Ómarssyni mótsstjóra.

Við óskum sigurvegurum til hamingju og þökkum öllum sem hjálpuðu til á mótinu og við undirbúning þess.