Skip to content

Júlían á pallinn í réttstöðu

  • by

julianJúlían J.K.Jóhannsson, Ármanni, keppti á HM í dag. Hann vigtaði 153,8 kg og var yngstur í +120,0 kg flokki.
Hann átti fyrst misheppnaða tilraun við 340 kg í beygju, en bætti úr því í annarri og kláraði 355 kg í þriðju. Það er 12,5 kg bæting á Íslandsmeti unglinga.
Á bekknum lenti Júlían í erfiðleikum og virtist eiga erfitt með að ná stjórn á lyftunum. Hann missti frá sér 262,5 kg í fyrstu tilraun en kláraði það í annarri. Það er persónuleg bæting og nýtt unglingamet í flokknum. Hann reyndi við 270 kg í þriðju en missti aftur stjórninni og gat ekki klárað þó styrkurinn virtist vera til staðar.
Í réttstöðu gerði Júlían ógilt 320 kg í fyrstu tilraun en mætti heldur betur ákveðinn í annarri og kláraði þyngdina. Hann var þá búinn að tryggja nýtt unglingamet í samanlögðu, 937,5 kg.
Taktísk stríð hófst nú um verðlaunin í réttstöðu og ákvað Júlían að leggja allt undir og reyna við 350 kg. Það munaði ekki miklu, en gekk ekki, svo hann stendur eftir með 320 kg og bronsverðlaun í greininni. Gullið fór á 345 kg og silfur á 330 kg.
Samanlagt endaði Júlían í 6.sæti á nýju Íslandsmeti unglinga 937,5 kg sem er persónuleg bæting upp á 25 kg.
Bronsverðlaun í réttstöðulyftu og þrjú ný Íslandsmet er uppskeran á mótinu. Við óskum Júlían til hamingju með daginn.

Artem Litvinenko, Rússlandi, sigraði í flokknum á 995,0 kg og léttari líkamsþyngd.