Skip to content

Íslandsmeistaramót í bekkpressu – úrslit

  • by

Vöðvamassastuðullinn á Akranesi hækkaði svo um munaði í dag þegar kraftlyftingamenn og -konur af öllu landinu komu þar saman til að þinga og keppa um íslandsmeistaratitlana í bekkpressu.
Hið fámenna kraftlyftingafélag Akraness var gestgjafi og var framkvæmd mótsins og umgjörð þeim til míkils sóma.
Stigaverðlaunin unnu þau María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Auðunn Jónsson, Breiðablik og við óskum þeim til hamingju. Það er ekki í fyrsta sinn sem þau hampa þessum bikurum, en í þetta skiptið  þurftu þau bæði að hafa fyrir sigurinn og landaði honum í síðustu tilraunum sínum.
HÉR MÁ SJÁ HEILDARÚRSLIT – við óskum öllum nýkrýndum Íslandsmeisturum til hamingju með árangurinn.

Mjög jafn var á mununum í nokkrum flokkum, en hvergi þó eins jafn og í slagnum um þriðja sætið í -74,0 kg flokki karla. Tveir keppendur Dýri og Finnur Freyr lyftu 132,5 kg og báðir vigtuðu 71,85 kg. Nákvæmlega. Þess vegna þurfti að beita e-lið í fyrsta grein keppnisreglna og vann Finnur Freyr þriðja sætið þar sem hann hafði lægra rásnúmer. (Forritið okkar gerir ekki ráð fyrir svona tilfellum, svo röðin er ekki rétt eins og hún er nú á listanum. Það verður lagfært.)

Hin nýstofnaða kraftlyftingadeild Gróttu vann liðabikarinn og gátu farið með hann á þorrablót Gróttu í kvöld, sigri hrósandi.
Nokkur íslandsmet féllu á mótinu, bæði í opnum og aldurstengdum flokkum.

Míkil þátttaka var að þessu sinni og mættu bæði þaulreyndir og lítt reyndir keppendur. Margir bættu sig verulega, aðrir ætluðu sér um of eða mistókst af öðrum ástæðum.
Í -105 kg flokki karla var hörkukeppni um sæti og íslandsmet, en heimamaðurinn Einar Örn Guðnason stóð á endanum uppi með pálmann í höndunum og nýtt Íslandsmet í vasanum.

Ástæða er til að nefna sérstaklega unga konu úr Gróttu, Fanney Hauksdóttur, sem keppti í -57,0 kg flokki kvenna. Fanney er í unglingaflokki ennþá, en hún lyfti 95,0 kg og átti tilraun við 98,0 kg. Fanney hefur áður keppt í fimleikum, en við sjáum sífellt oftar að kraftlyftingafélögin fá til sín iðkendur úr öðrum íþróttagreinum.

Í tengslum við mótið voru afhent nokkrar viðurkenningar fyrir árangur á síðasta keppnistímabili. Kraftlyftingamenn ársins, María Guðsteinsdóttur og Fannar Dagbjartsson, fengu heiðursskjöld frá Kraft og Kraftlyftingafélag ársins 2011, Massi, fékk loksins í hendurnar bikarinn góða sem þeir unnu til  í fyrra og fékk kraftlyftingaheimurinn þar tækifæri til að hylla þessu fyrirmyndarfólki með öflugu lófataki.

Við óskum enn og aftur öllum sigurvegurum og nýjum methöfum til hamingju.
Kraftlyftingafélag Akraness er þakkað fyrir öll handtökin við framkvæmd þessa Íslandsmót.

Tags:

Leave a Reply