Skip to content

HM í klassískum kraftlyftingum – Tveir frá Íslandi á pallinum

Ísland átti tvo fulltrúa á pallinum dag. Það voru Alexander Örn Kárason og Harrison Asena sem báðir kepptu í -93 kg flokki, Alexander í B grúppu og Harrison í C grúppu. 

Í hnébeygju opnaði Harrison með léttum 242,5 kg á stönginni. Hækkaði um 15 kg í annarri umferð, 257,5 kg hreyfðust jafnvel og fyrsta lyfta. Sama má segja um þriðju lyftu þar sem voru 270 kg á stönginni. Fyrsta lyfta í bekkpressu með 165 kg hreyfðust vel en vegna tæknivillu snéri kviðdómur lyftunni við. Harrison bætti fyrir í annarri með flottri 172,5 kg lyftu. Í þriðju umferð hækkaði Harrison um heil 12,5 kg eða 185 kg sem yrðu 5 kg persónuleg bæting. Það gekk svo sannarlega eftir. Fyrsta lyfta í réttstöðulyftu hreyfðist vel með 275 kg á stönginni. Önnur lyfta með 290 kg á stönginni var jafn örugg. Í lokaumferð reif Harrison 305 kg upp af öryggi og þar með 5 kg persónuleg bæting. Samanlagður árangur er 760 kg sem er persónuleg bæting um 2,5 kg. Innilega til hamingju með mótið og allar bætingarnar, Harrison !

Alexander opnaði í hnébeygju með léttum 260 kg. Því miður breytti kviðdómurinn lyftunni í ógilda lyftu vegna dýptar. Hann lét það ekki slá sig út af laginu og næsta lyfta með 275 kg á bakinu var vel djúp og þrjú hvít ljós. Í þriðju umferð reyndi Alexander við að bæta eigið Íslandsmet um 5 kg með 285 kg á stönginni en því miður vildu þau ekki fara upp í dag.  Alexander opnaði í bekkpressu með léttum 187,5 kg. Í annarri umferð lyfti Alexander örugglega 195 kg sem og 200 kg í þriðju umferð. Síðasta bekkpressan var jöfnun á hans eigin Íslandsmeti. Í réttstöðulyftu opnaði Alexander með öruggum 285 kg á stönginni. Hækkaði um heil 20 kg í annarri umferð og 305 kg hreyfðust vel. Í lokaumferð reyndi Alexander að bæta eigið Íslandsmet með 315 kg á stönginni. Því miður náði hann ekki læsa í lokin. Samanlagður árangur varð 780 kg. Innilega til hamingju með flott mót, Alexander !