Í dag kepptu Elsa Pálsdóttir og Sæmundur Guðmundsson í kraftlyftingum með búnaði. Elsa keppti í -76 kg M3 flokki og Sæmundur í -83 kg M4 flokki.
Sæmundur var fyrstur á pallinn. Í hnébeygju opnaði hann örugglega á 150 kg og önnur hnébeygjan jafnörugg með 160 kg. Þriðja hnébeygju með 172,5 kg á stönginni var tilraun til Íslandsmets en því miður vildi hún ekki upp að þessu sinni. Í bekkpressu opnaði Sæmundur á þægilegum 100 kg. Hækkaði í annarri upp í 110 kg sem fór hratt upp. Í þriðju bekkpressu reyndi Sæmundur við 120 kg og að bæta eigið Íslandsmet. Það vantaði aðeins herslumuninn að hann náði að klára hana. Sæmundur opnaði í réttstöðulyftu á 175 kg sem flugu upp. Sama gilti um lyftu tvö með 185 kg. Í lokalyftunni hækkaði hann í 200 kg sem var tilraun til Íslandsmets en því miður náði hann ekki að klára lyftuna. Samanlagður árangur varð 455 kg en sá árangur tryggði Sæmundi gull og heimsmeistaratitili ! Innilega til hamingju með flott mót og heimsmeistaratitilinn, Sæmundur !
Elsa mætti á pallinn eftir Sæmundi. Í hnébeygju opnaði hún á þægilegum 140 kg og í annarri kláraði hún örugglega 160 kg lyftu. Í þriðju hnébeygju voru 170.5 kg sett á stöngina, tilraun til heimsmets ! Elsa sýndi þar hvað hún er gerð úr og kláraði beygjuna glæsilega. Heimsmet og nýtt Íslandsmet í hús. Í bekkpressu opnaði Elsa á 65 kg sem flugu upp. Í annarri lyfti hún 72,5 kg sem fór jafnvel upp og fyrsta. Í þriðju bekkpressunni hækkaði Elsa upp í 80 kg sem hún kláraði glæsilega. Í réttstöðulyftu opnaði Elsa á flottum 160 kg. Í annarri réttstöðu hækkaði hún í 175 kg sem hún kláraði vel. Í lokalyftunni voru 183 kg sett á stöngina, tilraun til að bæta eigið heimsmet, en því miður þá náði Elsa ekki að klára lyftuna. Samanlagður árangur varð 425,5 kg sem er jöfnun á hennar besta en þessi kíló tryggðu Elsu gull og heimsmeistaratitil ! Innilega til hamingju með glæsilegt mót, heimsmetið og heimsmeistaratitilinn, Elsa !


