Skip to content

Gull í réttstöðu, silfur í bekkpressu, ógilt í beygju.

  • by

Júlían J.K. Jóhannsson lauk í dag keppni í +120,0 kg flokki á HM drengja í Canada, en draumur hans um sæti á verðlaunapalli rættist því miður ekki.
Júlían náði ekki dýpt í beygjunum og féll úr heildarkeppninni með þrjár ógildar tilraunir við 285,0 kg. Hann deildi þar örlög með þremur öðrum drengjum í flokknum, og ljóst var eftir fyrstu grein hverjir myndu skipta með sér góðmálmana.

Eftir þessari óskemmtilegu lífsreynslu tók Júlían sig saman í andlitinu og kláraði 195,0 kg örugglega á bekknum, en það er 5 kg yfir hans besta árangur til þessa og íslandsmet drengja í bekkpressu “single lift”. Þessi lyfta dugði honum til silfurs í greininni. Vonin um gull lifði reyndar lengi, þar sem hinn ógurlegi Norbert Mikula frá Ungverjalandi þurfti þrjár tilraunir í 285,0 kg, nýtt heimsmet drengja.

Réttstaðalyftan er sterkasta grein Júlíans og þar skildi hann keppinauta sína eftir strax í fyrstu umferð. Hann kláraði 287,5 og 300 kg mjög örugglega og vann gullverðlaun þar með. Síðasta lyftan hans var 310,0 kg og fór upp mjög örugglega, en ekki eins fallega niður. Hann missti hana úr höndunum á síðustu sekúndu og fékk hana ógilda.

Heimsmeistari varð Norbert Mikula, Ungverjalandi, með 860,0 kg.

Júlían kemur heim reynslunni ríkari. Að falla úr keppni er reynsla sem keppandi helst vill vera án en sem hægt er að læra af. Beygjutækni verður eflaust ofarlega á verkefnalista Júlíans á næstunni – en í þetta sinn var það hún sem eyðilagði fyrir hann.

Við óskum honum til hamingju með góðan árangur í hinum greinunum og verðskulduð verðlaun í þeim.

Tags:

Leave a Reply