Skip to content

EM lokið – Júlían vann bronsverðlaun

  • by

EM í kraftlyftingum í Tékklandi lauk fyrir stundu með heimsmetstilraun Julians J K Jóhanssonar við 420,5 kg í réttstöðulyftu, en sú lyfta hefði fært honum gullverðlaunin samanlagt. Það tókst ekki og endaði Júlían í þriðja sæti með tölurnar 400 – 315 – 390 = 1105. Hann vann líka gullverðlaun í réttstöðulyftu.

Guðfinnur Snær Magnússon keppti líka í dag í +120kg flokknum. Hann átti slæman dag, náði ekki gildri lyftu og féll úr keppni. Þetta var fyrsta stórmót Guðfinns í opnum flokki svo hann fær vonandi mörg tækifæri á næstu árum til að bæta úr þessu.

Alex Cambray Orrason keppti á sínu fyrsta stórmóti í nýjum þyngdarflokki, -93 kg. Hann náði ágætum árangri og kláraði mótið með tölurnar 317,5 – 205 – 265 = 787,5 kg sem færði honum 6.sætið. Hnébeygjan og bekkpressan eru persónulegar bætingar.

Sóley Margret Jónsdóttir keppti í gær í +84 kg flokki kvenna en vil sennilega helst gleyma þeim degi sem fyrst. Hún varð fyrir óhappi í upphitun og meiddist nógu mikið til þess að hún náði ekki gildri lyftu og varð að draga sig úr keppninni.
Það er sem betur fer ekkert sem bendir til þess að meiðslin séu alvarleg svo vonandi jafnar hún sig fljótt.

Við óskum Júlíani til hamingju með verðlaunin! Alex með bætingarnar! Og öllum góða ferð heim!
Það er gaman að sjá menn taka á því á alþjóðavelli á ný og framundan eru fleiri mót með öflugum íslenskum keppendum meðal þátttakenda.

ÚRSLIT KVENNA
ÚRSLIT KARLA