Skip to content

EM í Pilsen lokað á silfri

  • by

Síðasti keppnisdagur á evrópumótinu í kraftlyftingum var í dag og mættu þar tveir Íslendingar til keppni. Það voru þeir Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson.

Viktor Samúelsson var í fyrra hollinu en hann keppir í -120kg flokki karla. Viktor lyfti 365kg í hnébeygjunni. Í bekkpressunni lyfti hann 287,5kg af miklu öryggi. Í réttstöðulyftunni lyfti hann 315kg en í þriðju tilraun reyndi hann við 335kg sem flugu upp en lyftan var dæmd af vegna tæknigalla. Með þeirri lyfti hefði Viktor tryggt sér bronsverðlaun í samanlögðu. Hann lauk því mótinu í 4. sæti með 967,5kg í samanlögðu. Flottur árangur þar.

Viktor með örugga 315kg réttstöðulyftu

Júlían JK Jóhannsson var svo í +120kg flokki karla sem lyftu á móti -120kg hollinu. Júlían náði ekki gildri í lyftu í 2 fyrstu hnébeygjunum og var því þriðja lyftan æsispennandi þar sem þurfti að ná henni til að halda sér inn í keppninni. Júlían lyfti þá örugglega 385kg og fékk fyrir lyftuna 3 hvít ljós. Í bekkpressunni átti hann góðan dag og lyfti hann þar 315kg sem er 5kg bæting á íslandsmetinu og dugði til bronsverðlauna í bekkpressu. Í réttstöðulyftunni opnaði hann “létt” í 355kg. Hann fór þá í 385kg sem flaug upp en hann missti því miður takið efst í lyftunni. Þá var lítið annað að gera en að taka hana aftur og gulltryggja þar með gullverðlaunin í réttstöðulyftunni. Þetta gaf honum 2. sætið í samanlögðu með 1085kg og því silfurverðlaun í hús. Óskar kraftlyftingasamband Íslands honum innilega til hamingju með árangurinn!

Júlían með verðlaunapeninga á stærð við lóðaplötur framan á sér!

Þar með lýkur EM í kraftlyftingum í Pilsen. Íslenskir keppendur stóðu sig mjög vel og koma þeir heim með 5 gullverðlaun, 4 silfurverðlaun og 4 bronsverðlaun af mótinu. Ekki slæmur árangur þar!

Hér fyrir neðan má svo sjá mynd af næstum því öllum íslenska hópnum sem var úti.

Hrikalega hrikaleg!