Skip to content

Bikarmót KRAFT 2012

  • by

Bikarmót KRAFT fór fram á heimavelli Ármanns sl laugardag.
Bikarmeistarar urðu Hildur Sesselja Aðalsteinsdóttir og Aron Lee Du Teitsson, bæði úr Gróttu.

Hnébeygjubikarana unnu Hildur Sesselja og Halldór Eyþórsson, Breiðablik.
Bekkpressubikarana unnu Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir, Grótta og Sigfús Fossdal, KFA.
Sterkust í réttstöðu voru Jónína Sveinbjarnardóttir, Breiðablik og Aron Lee.
Stigahæsta félagið var Breiðablik sem sigraði í 7 þyngdarflokkum karla og kvenna.
HEILDARÚRSLIT

Mörg Íslandsmet féllu á mótinu ekki síst í yngri flokkum. Massadrengirnir notuðu tækifærið til að skilja eftir sig drengjamet fyrir áramót og lagði Daði Már undir sig heila blaðsíðu í metaskránni. Gróttustelpurnar í léttara flokkunum halda áfram að bæta metin og er 140,0 kg hnébeygja Hildar í -52 kg flokki besta dæmið um það. Jónína Sveinbjarnadóttir, Breiðablik, átti glæsilega innkomu og bætti bæði beygju- og réttstöðumetið í -72,0 kg flokki á sínu fyrsta móti.
Sigfús Fossdal hóf endurkomu sína á keppnispallinn með því að setja íslandsmet í bekkpressu single lift með 300 kg. Hann lyfti fyrir KFA en er búinn að stofa Kraftlyftingafélag Ísafjarðar og bíður eftir afgreiðslu laganefndar ÍSÍ til að hljóta fulla löggildingu. Félagið hefur þegar tekið að sér að halda Íslandsmótið í réttstöðu 2013.

Skráðir keppendur voru 41 og mættu misvel undirbúnir undir keppni. Töluvert brottfall, eða 37,5%, varð í karlaflokkum þar sem mönnum mistókst að lyfta samkvæmt reglum og hafði það í för með sér óvænt úrslit, t.d. í -120 kg flokki þar sem hinn 15 ára gamli Guðfinnur Snær Magnússon stóð uppi sem sigurvegari með góðum og gildum lyftum. Konunum tókst betur til og hlutu allar náð fyrir augum dómaranna sem voru Helgi Hauksson, Hörður Magnússon, María Guðsteinsdóttir, Fannar Dagbjartsson, Guðjón Hafliðason og Sturlaugur Agnar Gunnarsson.
Míkið mæddi á þeim og öðrum starfsmönnum á mótinu. Ekki síst á stangarmönnum sem þurftu stundum að grípa inn og bjarga málum og stóðu sig með mikilli prýði.
Þulir á mótinu voru Sigurjón Pétursson og Júlían J.K. Jóhannsson.

Alvarlegt óhapp átti sér stað baksviðs og setti nokkuð mark sitt á mótið.
Fyrir hönd allra sendum við Erlu Kristínu góðar batakveðjur og Ármenningum kærar þakkir fyrir skemmtilegan dag og góðar vöfflur.
Í framhaldinu af mótinu var efnt til veislu og tókst hún vel.