Vestur Evrópumótið (Uppfært)

Nú er hópurinn allur mættur til Noregs í góðum anda.
Mótið hefst á morgun, föstudag með klassískum kraftlyftingum og mun Ragnheiður Kristín stíga fyrst Íslendinga á svið í -57kg flokki og hefur keppni klukkan 07:00 á íslenskum tíma. síðar um daginn er svo komið að Ellen Ýr í -84kg flokki og hefst keppnin hjá henni kl.17:00.

Á laugardaginn munu Ingvi Örn Friðriksson, -105 kg flokki og Viktor Samúelsson -120 kg flokki keppa fyrir Íslands hönd í klassískum kraftlyftingum. Keppni hjá drengjunum hefst klukkan 08:00 á íslenskum tíma.

Á sunnudag keppa svo þeir Íslendingar sem taka þátt í keppni í búnaði og þá munu Hulda B. Waage -84kg flokk, Alex Cambray Orrason -105kg flokki og Þorbergur Guðmundsson120+kg flokki stíga á svið. Hulda hefur keppni klukkan 08:00 á íslenskum tíma og Alex og Þorbergur ljúka svo mótinu en þeirra keppni hefst klukkan 12:30 á íslenskum.

hægt er að fylgjast með á linknum hér fyrir neðan;
https://goodlift.info/live.php

Vestur Evrópumótið í Kraftlyftingum fer fram dagana 14.-16.september í Hamar í Noregi. Sterkur hópur keppenda fer í víking frá Íslandi og verður spennandi að fylgjast með gengi þeirra.

Þau sem keppa fyrir hönd Íslands í klassískum kraftlyftingum eru; Viktor Samúelsson í -120kg flokki, Ingvi Friðriksson í -105kg flokki, Ellen Ýr Jónsdóttir -84 kg flokki og Ragnheiður Sigurðardóttir í -57kg flokki.

Í búnaði munu Þorbergur Guðmundsson 120+kg flokki, Alex Orrason -105kg flokki og Hulda Waage -84kg flokki keppa fyrir okkar hönd.

Við óskum þeim að sjálfsögðu góðs gengis.

Brons á HM unglinga

Guðfinnur Snær Magnússon vann til bronsverðlauna í sínum flokk, 120+kg á HM unglinga í Potchefsroom fyrr í dag.
Guðfinnur lyfti 380kg í hnébeygju, 275kg í bekkpressu og 290kg í réttstöðulyftu sem gera 945kg. samanlagt. Glæsilegur árangur hjá Guffa og við óskum honum að sjálfsögðu til hamingju.

Íslendingar í Afríku

HM unglinga í kraftlyftingum fer fram í Potchefsroom í Suður Afríku dagana 2.-8.september. Íslendingar eiga einn fulltrúa þar að þessu sinni og það er Guðfinnur Snær Magnússon, með honum í för er svo Auðunn Jónsson.
Strákarnir eru mættir og er létt yfir þeim, gefum Guffa orðið;

“Það er hrikalega gott hérna úti 30 stig og ekki ský á himni, er að fara taka síðustu æfingu fyrir mót núna, bara létt hreyfing. Keppi síðan kl 12:00 á íslenskum tíma á laugardaginn. Andinn er hrikalegur í Suður Afríku”

Við óskum Guffa að sjálfsögðu góðs gengis og hægt er að fylgjast með mótinu hér;

https://www.powerlifting-ipf.com/media/livestream.html

Íslandsmeistaramót í réttstöðulyftu – keppendur

Skráningu er lokið á Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu sem fram fer í Kópavogi laugardaginn 15.september nk.
16 konur og 21 karlar frá 7 félögum eru skráðir og hlutgengir á mótið: SKRÁNINGARLISTI

Um hlutgengi á Íslandsmeistaramótum segir í reglugerð 3.grein:
Til að mega keppa á mótum innan KRAFT þarf keppandi að vera skráður í aðildarfélag innan KRAFT a.m.k. mánuði fyrir mót. Ef um er að ræða Íslandsmeistaramót og bikarmót þarf viðkomandi að vera skráður a.m.k. þrjá mánuði fyrir mótið.
Það þýðir að keppendur þurfa að hafa verið skráðir í sín félög fyrir 15.júni til að vera hlutgengir á mótið.

.

Jóhanna Norðurlandameistari

Jóhanna Þórarinsdóttir, Breiðablik, varð í dag Norðurlandameistari kvenna í flokki -72,0 kg í Örebro í Svíþjóð. Jóhanna lyfti 112,5 kg.
Þetta var fyrsta alþjóðamót Jóhönnu og þurfti hún tvær tilraunir til að setja tæknina almennilega að kröfum dómara, enda var dómgæslan eins og hún á að vera: nákvæm. Í þriðju tilraun var hún búin að ná því, og negldi 112,5 kg eins og ekkert væri. Það dugði í fyrsta sætið.
Karolina Arvidson, einhver reyndasti bekkpressari Evrópu, var aðstoðarmaður Jóhönnu á mótinu.
Jóhanna átti tvö markmið fyrir mótið, að ná titlinum og að setja Íslandsmet. Hún náði öðru, Íslandsmetið kemur næst. Það var öllum ljóst að Jóhönnu skorti ekki styrk, hún á mikið að sækja í bættri tækni.
Reynslunni ríkari kemur Jóhanna heim með gullverðlaun í vasanum. Við óskum henni til hamingju með árangurinn.

Jóhanna keppir á sunnudag

Norðurlandamótin í kraftlyftingum og í bekkpressu fara fram í Örebro í Svíþjóð um helgina.
Jóhanna Þórarinsdóttir, Breiðablik, keppir á sunnudag í -72,0 kg flokki kvenna. Jóhanna hefur sérhæft sig í bekkpressu og æft stíft í sumar með það fyrir augum að setja íslandsmet í greininni og vinna þennan titil.
Við óskum Jóhönnu góðs gengis.
Heimasíða mótsins: http://orebrokk.org/NM/index.htm

Staðan í liðakeppninni

Nú eru tvö mót eftir á keppnistímabilinu sem gefa stig í liðakeppninni, Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu í september og Bikarmótið í nóvember.
Staðan í keppninni er sú að þrjú lið hafa nokkuð afgerandi forustu; Grótta, Breiðablik og Massi, en þau eru hnífjöfn. Sjá hér: http://results.kraft.is/admin/TeamCompetition
Kraftlyftingafélag Garðabæjar kemur næst, nokkuð á undan hinum.
Það er útlit fyrir að keppnin geti orðið spennandi á lokasprettinum. Kannski ráðast úrslit ekki fyrr en í +120,0 á bikarmótinu ..

Styrkir – UMSÓKNIR

ÍSÍ veitir styrki til ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna og eru það sérsamböndin sem sækja um fyrir iðkendur sem þykja uppfylla skilyrðin. Nú er tímabært fyrir einstaklinga og félög að benda á verðuga kraftlyftingamenn svo hægt verði að sækja um í næsta úthlutun.
Hafið samband við gjaldkera KRAFT til að fá frekari leiðbeiningar og aðstoð við úmsókn.
Kári Rafn Karlsson [email protected]

Sömuleiðis skulu menn huga að umsóknum úr Afrekssjóði ÍSÍ, en Kári veitir líka upplýsingar um hann.

 

Akureyrarmótið í kraftlyftingum – ÚRSLIT

Úrslit hafa nú borist frá Akureyrarmótinu í kraftlyftingum sem var haldið 15.júlí sl.
Úrslit: http://results.kraft.is/meet/akureyrarmot-i-kraftlyftingum-2012

Fjórir keppendur kláruðu mótið og sigraði Jónína Sveinbjarnardóttir, Breiðablik í kvennaflokki og Sigfús Fossdal, KFA í karlaflokki.
Við óskum þeim til hamingju með árangurinn.

Mjög hefur dregist að birta þessi úrslit og viljum við ítreka við alla mótshaldara að mótaskýrslum ber að skila strax að loknu móti.