Skip to content

Auðunn heimsmeistari í réttstöðulyftu!

  • by

Hann byrjaði í 390,0 kg í hnébeygju og hafði ekkert fyrir því. Í annari lyftu setti hann nýtt Íslandsmet með 412,5 kg álíka auðveldlega, þrjú hvít ljós. Í þriðju tilraun meldaði hann 417,5 kg og virtist eiga inni fyrir því, en lyftan mistókst og hann endaði þess vegna í 412,5 kg og 8.sæti. Hnébeygjan vannst á nýju heimsmeti: Andrey Konovalov lyfti 460,0 kg.

Á bekknum byrjaði Auðunn í 262,5 kg. Axlarmeiðsl hafa hrjáð hann undanfarið og enginn vissi hversu mikil áhrif það myndi hafa. Fyrsta lyftan 262,5 kg kláraðist öruggleg 3-0 án þess að vera verulega sannfærandi þó. Önnur lyftan, 272.5 kg mistókst, en í þriðju tilraun mætti Auðunn ákveðinn til leiks og fékk þrjú hvít ljós á 275,0 kg. Hann er þar alveg við sinn besta árangur og það dugði í 8.sæti.
Við fengum að sjá nýtt heimsmet á bekknum líka; Viktor Testsov lyfti 357,5 kg.

Auðunn fór til Puerto Rico með þann ásetning að taka gullið í réttstöðulyftu. Hann byrjaði í 335,0 kg svona upp á grínið og skildi svo keppinautana eftir í annarri tilraun með 362,5 kg sem er nýtt Íslandsmet.  Með rásnúmer 18 og meldingu upp á 375,0 kg í þriðju umferð gat Auðunn svo setið hjá, notið tónlistarinnar og fylgjst með keppinautunum berjast vonlausri baráttu. 362,5 kg dugði í gullið og viss um það gat hann farið í síðustu lyftu mótsins 375,0 kg. Þrátt fyrir hetjulegri baráttu hafði hann það ekki.
Dramaið var þar með ekki búið, því Norðmenn mótmæltu dómi hjá sínum manni í tilraun við 375,0 og fékk hann að reyna aftur. Það mistókst.
Auðunn átti gullið. Hann endaði í 8.sæti á nýju Íslandsmeti 1050,0 kg en baráttan í flokknum var gríðarlega hörð. Heimsmeistari í flokknum var Viktor Testsov á nýju heimsmeti 1147,5 kg.
HEILDARÚRSLIT

Ísland á nú tvo heimsmeistara í réttstöðulyftu karla, í opnum flokki og unglingaflokki +120,0 kg. Það er skemmtileg staðreynd.

Við óskum Auðunni innilega til hamingju með frábæran árangur.

Pages: 1 2