Auðunn Jónsson keppti á Norðurlandamótinu í kraftlyftingum í dag og kemur heim með silfurverðlaun í +125,0 flokki karla.
Í hnébeygju lyfti Auðunn best 380 kg í fallegri lyftu og hann átti mjög góða tilraun við 395, en fékk ógilt 1-2 vegna dýptar.
Í bekkpressu endaði hann á byrjunarþyngdinni 255,0 kg. Hann reyndi við Íslandsmet í síðustu lyftunni með 272,5 kg en mistókst naumlega. Lyftan var létt, en tæknilega ekki nógu góð.
Í réttstöðu endaði hann í 320,0 kg og átti tvær tilraunir við 340,0 kg þar sem hann náði að rétta úr en missti gripið. Samtals gerði þetta 955 kg og silfur í flokknum. Sigurvegari var Kenneth Sandvik, Finnlandi, með 1030 kg.
Auðunn er í undirbúningi fyrir HM í nóvember og var ekki búinn að undirbúa þetta mót sérstaklega. Það verður því að segja að styrkurinn á þessu móti lofar mjög góðu.