Skip to content

Arna og Friðbjörn hafa lokið keppni

  • by

EM í klassískum kraftlyftingum er í fullum gangi í Kaunas, Litháen. Tveir Íslendingar kepptu í dag, þau Arna Ösp Gunnarsdóttir og Friðbjörn Bragi Hlynsson.

Arna Ösp Gunnarsdóttir

Arna Ösp keppti í -63kg flokki kvenna. Það var hörð samkeppni og voru 22 keppendur skráðir í flokkinn. Arna fékk ógilda fyrstu hnébeygjuna 132,5kg þannig að hún tók aftur sömu þyngd og lyfti því af miklu öryggi. Þá fór hún í 140kg sem var tilraun við nýtt íslandsmet og sigldi hún því örugglega í höfn. Þá var komið að bekkpressunni og opnaði hún þar í 77,5kg, gott og gilt. Í annarri lyftu bað hún um 82,5kg á stöngina sem hún lyfti og var það persónuleg bæting. Í þriðju tilraun reyndi hún við 85kg sem því miður tókst ekki í dag. Í réttstöðulyftunni er Arna á heimavelli og opnaði hún þar í 165kg sem fóru upp með hvítum ljósum. Þá bað hún um 177,5kg á stöngina og freistaði þar með að setja nýtt íslandsmet í réttstöðulyftu. Lyftan fór upp góð og gild. Í síðustu tilraun ákvað hún að reyna við 182,5kg en það tókst því miður ekki. Þetta gaf henni 400kg í samanlögðu sem er einnig nýtt íslandsmet, 3. íslandsmet í höfn og 13. sætið í flokknum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með árangurinn!

Friðbjörn Bragi Hlynsson

Friðbjörn Bragi hefur komið sterkur inn í íþróttina á þessu ári og tók hann í dag þátt á sínu fyrsta EM. Hann keppti í -83kg flokki karla. Hann opnaði í 225kg í hnébeygjunni sem var ógild og tók hann því lyftuna aftur í annarri tilraun og fékk hann hana gilda þar. Þá var beðið um 240kg á stöngina og farið í tilraun við íslandsmet sem hann lyfti af miklu öryggi og var lyftan dæmd gild, nýtt íslandsmet í hús. Í bekkpressunni opnaði Friðbjörn í 150kg örugglega. Í annarri var það eins og lyfti hann 155kg þar. Í þriðju tilraun lyfti hann svo 160kg og kláraði því með þrjár gildar af þrem í bekknum. Í réttstöðulyftunni opnaði hann í 265kg sem var gild. Þá reyndi hann tvisvar við 277,5kg sem hefði verið nýtt íslandsmet en því miður missti hann stöngina í annarri tilraun og í þeirri þriðju þótti hún ekki vera nógu vel læst. Þetta gaf honum þó 665kg í samanlögðu sem er jöfnun á íslandsmetinu hans og kláraði hann í 16. sæti.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum til hamingju með árangurinn!

Friðbjörn Bragi (t.v.), Hannes Hólm og Arna Ösp í góðum gír fyrir mót.

Kraftlyftingasambandið hvetur svo alla til að fylgjast með Ingva og Birgit keppa á morgun. Tímasetningar og hlekki á beina útsendingu má sjá í fréttinni sem var birt í fyrradag.