Skip to content

Viktor með brons og miklar bætingar á HM

  • by

Viktor Ben Gestsson, Breiðablik, keppti í dag á HM í Texas. Hann vigtaði 136,5 kg í +120,0 flokki drengja, en hann er fæddur 1996.
Ungir strákar sem æfa markvisst undir góðri handleiðslu geta bætt sig mikið á skömmum tíma, en það fara ekki allir í spor Viktors sem hér bætti árangur sinn um lítil 97,5 kg frá EM í apríl.
Það mót var fyrst og fremst ætlað til að gefa keppnisreynslu og hvatning fyrir áframhaldið og það má segja að það hafi skilað sér.
Viktor sýndi mikið öryggi í beygjum, fékk 8 hvít ljós á seríuna 262,5 – 277,5 – 287,5 og virtist eiga nóg inni. Á bekknum byrjaði hann í 215 kg, setti svo Íslandsmet drengja með 217,5 kg öruggt í annari, en lyfti höfðinu í þriðju og fékk ógilt á 220 kg.
Í réttstöðu lyfti Viktor 265 – 275  létt, en mistókst með 280. Samanlagt gerir það 780,0 kg og bronsverðlaun. Sigurvegari í flokknum var Rússinn Egor Rezepof með 872,5 kg.

Brons í beygju, silfur á bekknum, silfur í réttstöðu, brons samanlagt. Nýtt Íslandsmet drengja. Persónuleg bæting um tæp 100 kg. Það má segja að Viktor hafi gert góða ferð á HM.
Við óskum honum til hamingju og hlökkum til að fylgjast með þessum efnilega strák áfram.