Skip to content

WEC úrslit

  • by

Vestur-Evrópumótinu í kraftlyftingum með og án búnaðar er lokið. Fyrir íslenska liðið má segja að helgin hafi byrjað illa og endað vel.
Hilmar Símonarson keppti fyrstur í -66 kg flokki. Hann byrjaði vel með 190kg i hb og 10 kg bæting í bp – 130 kg. Siðan varð hann fyrir því óláni að meiðast í fyrstu réttstöðulyftu og náði aldrei vopnum sínum eftir það. Þrjár tilraunir við -210kg fóru í vaskinn og vonbrigðin míkil. Vonandi verður Hilmar fljótur að ná sér aftur svo hann geti sótt bætingarnar sem hann er búinn að leggja inn fyrir.
Á laugardag kepptu Arna Ösp Gunnarsdóttir í -69kg flokki og Þorbjörg Matthíasdóttir í +84kg flokki.
Arna átti ekkert sérstakan dag, endaði í 4.sæti með 395 kg sem er nokkuð frá hennar besta.
Þorbjörg, sem var að keppa í fyrsta sinn erlendis, kláraði sínu vel, bætti sig á bekknum og endaði í 5.sæti með 440kg.
Filippus Darri Björgvinsson og Jón Dan Jónsson keppti líka á laugardag, báðir í fyrsta sinn á alþjóðamóti.
Jón Dan lenti í 6.sæti í -93kg flokki með 692,5 kg, en það er bæting upp á 42,5 kg hvorki meira né minna.
Filippus lenti í 4.sæti í -120 kg flokki með 722,5 kg og bætti sin besta árangur um 2,5 kg.
Sunnudag var keppt í búnaði og þar mætti Alex Cambray Orrason vel undirbúinn til leiks í -93kg flokki. Það er skemmst frá því að segja að hann átti frábæran dag og náði öllum sínum markmiðum með seríuna 347,5 – 212,5 – 277,5 = 837,5 kg og 90.9 stig.
Það færði honum sigur í flokknum, sigur í stigakeppni karla over-all, nýtt mótsmet í hnébeygju og íslandsmet í hnébeygju og samanlögðu. Alex er búinn að koma sér vel fyrir í -93kg flokknum og náði hér A-lágmarki sem eflaust er hvatning til enn frekari dáða
Við óskum honum sérstaklega til hamingju með sigurinn og öllum til hamingju með allt sem vel gekk. Hilmari óskum við skjótan og fullan bata!

Þegar þetta er skrifað eru landsliðsmenn á leið á lokahóf mótsins. Við fáum ítarlegri frásögn af mótinu og reynslu keppenda á morgun.