Skip to content

Viktor og Þorbergur með brons á HM unglinga

  • by

Heimsmeistaramóti unglinga, sem haldið er í Szcyrk í Póllandi, lauk  í dag með keppni í 120 kg og +120 kg flokkum karla í U23. Íslensku keppendurnir þrír, Júlían J.K. Jóhannsson, Viktor Samúelsson og Þorbergur Guðmundsson áttu allir góðu gengi að fagna. Allir náðu þeir verðlaunasætum; Viktor með brons í -120 kg fl., Þorbergur með brons í +120 kg fl. og Júlían með gull og heimsmeistaratitilinn í +120 kg!

hmu2016viktorsamKeppni í -120 kg flokki 23 ára og yngri var hörkuspennandi. Helst voru það þrír sem bitust innbyrðis um sætin á verðlaunapallinum; Þjóðverjinn Kevin Jäger, Bandaríkjamaðurinn Jesse Burttschell og okkar eigin Viktor Samúelsson. Í hnébeygjunni opnaði Viktor á 350 kg, tók a 360 kg í annarri tilraun en klikkaði svo á 370 kg í þriðju tilraun sem hefði gefið brons í hnébeygjunni. Viktor er öflugur í bekkpressunni, en átti þó á brattann að sækja því Jäger er heimsmethafinn í opnum flokki í bekkpressu sem stök grein. Hann opnaði á 295 kg, tók 302,5 kg í annarri en tókst svo ekki að klára 310 kg í þriðju tilraun. Þjóðverjinn lauk bekknum á nýju heimsmeti í opnum, 356 kg, og varð Viktor því að láta sér nægja annað sætið í bekkpressu. Þegar komið var að réttstöðunni var ljóst að Jäger var kominn með öruggt forskot og þyrfti aðeins að ná inn gildri lyftu til að sigra. Því tók við bárátta á milli Viktors og Burttschells um silfrið. Viktor opnaði á 305 kg, tók 317,5 kg í annarri en glataði svo silfrinu þegar 330 kg lokalyftan nam staða við hné. Viktor lauk því keppni með brons í samanlögðu með 980 kg og silfur í bekkpressu og réttstöðulyftu.

hmu2016thorbergurÍ +120 flokki 23 ára og yngri voru Íslendingarnir tveir, Júlían og Þorbergur, mættir til að stilla sér upp á verðlaunapallinum. Júlían sigraði flokkinn örugglega með 1080 kg í samanlögðu. Þorbergur náði ekki alveg að raða inn sínum bestu lyftum saman á stigatöfluna, en átti engu að síður gott mót. Hann opnaði á 325 kg í hnébeygju en fékk svo 340 kg tvívegis ógilt. Í bekkpressunni tók Þorbergur út stóra persónulega bætingu. Hann opnaði á 240 kg, tók 250 kg í annarri tilraun og 22,5 kg persónulega bætingu með 262,5 kg í þeirra þriðju sem landaði honum silfri í bekkpressunni. Réttstöðulyftan gekk nokkuð brösulega hjá Þorbergi.  Hann náði aðeins inn opnunarlyftunni með 300 kg, sem er nokkuð frá hans besta árangri, en það kom ekki að sök því sú lyfta landaði honum silfrinu í réttstöðunni á eftir heimsmeistaranum og landa hans Júlíani. Fyrir samanlagðan árangur sinn, 887,5 kg, vann Þorbergur bronsverðlaun í yfirþungavigtinni.

Til hamingju með stórkostlegan árangur strákar!