Skip to content

Viktor og Júlían með gull á EM

  • by

Síðasti keppnisdagurinn á EM í kraftlyftingum í Pilsen, Tékklandi var í dag. Tveir íslendingar mættu til keppni. Það voru þeir Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson sem mættu í góðum anda og í hrikalegu keppnisskapi.

Viktor var fyrstur á pallinn í hnébeygjunni og lyfti hann þar 380kg þar sem er hans þyngsta hnébeygja á alþjóðamóti. Næst var það bekkpressan og var ljóst þar að hann yrði ofarlega enda hefur hann verið með hæstu wilks stig í bekk í síðastliðin ár. Hann gerði sér því lítið fyrir og lyfti 307,5kg sem dugði honum til gullverðlauna í bekkpressu. Frábær árangur. Réttstaðan gekk einnig mjög vel og lyfti hann þar 322,5kg sem er hans besta lyfta alþjóðlega. Samanlagt endaði hann mótið í 4 sæti í heildina með 1010kg í samanlögðu sem er besti árangur sem hann hefur náð á alþjóðlegu móti.

Innilega til hamingju með árangurinn Viktor!

Viktor að toga hrikalega! /Mynd frá IPF

Þegar -120kg flokkurinn kláraði hnébeygjurnar var komið að seinna hollinu sem var +120kg flokkurinn. Júlían opnaði í 400kg hnéybeygju en því miður tókst honum ekki að fá gilda hnébeygju. Hann reyndi þrisvar við 400kg sem því miður gekk ekki og datt hann þar með út úr keppninni í samanlögðu. En hann lét það ekki á sig fá og mætti tvíefldur í bekkinn. Hann lyfti í bekkpressunni 312,5kg sem er persónulegt met. Svo var komið að réttstöðulyftunni en hann er núverandi heimsmeistari í réttstöðulyftu í +120kg og var því ljóst að hann var líklegur til stórræða þar. Júlían lokaði þar keppninni á 400kg réttstöðulyftu. Hans besta lyfta þar og einnig óopinbert heimsmet! En því miður þar sem hann náði ekki gildri lyftu í hnébeygjunni er það óopinbert. Þetta gaf honum þó gullið í réttstöðu og því fengu íslendingar í dag 2 gullverðlaun.

Innilega til hamingju með árangurinn Júlían!

Júlían með 400kg í höndunum!

Myndband af lyftunni má sjá inn á facebook síðu evrópska kraftlyftingasambandsins:

MYNDBAND AF 400KG LYFTU JÚLÍANS

 

Íslenski hópurinn á EM. F.v. Daníel Geir Einarsson, Guðfinnur Snær Magnússon, Júlían JK Jóhannsson, Viktor Samúelsson, Hulda B Waage, Grétar Skúli Gunnarsson og Auðunn Jónsson