Skip to content

Úrslit frá ÍM í klassískum kraftlyftingum

Fjölmenni var í Íþróttahúsi Seltjarnarness í dag þar sem fram fór Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum. Slegin voru fjölmörg Íslandsmet og reyndu sumir við Norðulandamet.

Stigahæst kvenna var Helga Guðmundsdóttir (LFH) með 408,2 Wilks-stig. Helga vigtaðist létt í 72 kg flokkinn, 65,2 kg. Hún lyfti 135 kg í hnebéygju (Íslandsmet öldunga 1), 95 kg í bekkpressu (Íslandsmet í opnum fl.) og 160 í réttstöðulyftu (Íslandsmet öldunga 1). Samanlagður árangur hennar, 390 kg, landaði henni bronsi í 72 kg flokki.

Stigahæstur karla var Viktor Samúelsson (KFA) með 442,8 Wilks-stig. Viktor sigraði sinn flokk, 120 kg fl., nokkuð öruggt með 770 kg samanlagt. Hann lyfti 275 kg í hnébeygju, 200 kg í bekkpressu og 295 kg í réttstöðulyftu. Í bekkpressu gerði Viktor tilraun við Norðulandamet unglinga í klassískri bekkpressu með 214 kg.

Hnébeygjubikar kvenna hlaut Birgit Rós Becker (Breiðablik), sem keppti í 72 kg fl. og beygði 165 kg (163,5 Wilks-stig), sem er nýtt Íslandsmet.

Hnébeygjubikar karla hlaut Einar Örn Guðnason (Akranes), sem keppti í 105 kg fl. og beygði 275 kg (164,2 Wilks-Stig), sem er nýtt Íslandsmet.

Bekkpressubikar kvenna hlaut Fanney Hauksdóttir (Gróttu), sem keppti í 63 kg fl. og bætti eigið Íslandsmet með 108 kg (116,7 Wilks-stig).

Bekkpressubikar karla hlaut Dagfinnur Ari Normann (Stjörnunni), sem keppti í 83 kg fl. og sló eigið Íslandsmet með 170 kg lyftu (115,9 Wilks-stig).

Réttstöðulyftubikar kvenna hlaut Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir (Gróttu), sem keppti í 57 kg fl. og setti nýtt Íslandsmet með 151,5 kg (177,1 Wilks-stig).

Réttstöðulyftubikar karla hlaut Ingvi Örn Friðriksson (KFA), sem keppti í 105 kg fl. og lyfti 290,5 kg (175,6 Wilks-stig) sem er nýtt Íslandsmet.

Liðabikar kvenna hlaut sveit Gróttu.

Kraftlyftingafélagi Akureyrar var fyrir mistök veittur liðabikar karla, en Stjarnan fékk tveimur fleiri stigum og hlýtur því réttilega liðabikar karla. Honum verður komið í réttar hendur.

Heildarúrslit