– Skýrslur

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 12.KRAFTLYFTINGAÞINGI 26.FEBRÚAR 2022
Ársskýrsla_21

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 11.KRAFTLYFTINGAÞINGI 20.MARS 2021
Ársskýrsla_20

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 10.KRAFTLYFTINGAÞINGI 29.FEBRÚAR 2020
Ársskýrsla_ 19

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 9.KRAFTLYFTINGAÞINGI 23.FEBRÚAR 2019
Ársskýrsla_18

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 8.KRAFTLYFTINGAÞINGI 18.FEBRÚAR 2018
Ársskýrsla_17

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 7.KRAFTLYFTINGAÞINGI 26.FEBRÚAR 2017
arskyrsla_16

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 6.KRAFTLYFTINGAÞINGI 12.MARS 2016
Ársskyrsla15

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 5.KRAFTLYFTINGAÞINGI 17.JANÚAR 2015
skyrsla_2014

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 4.KRAFTLYFTINGAÞINGI 18.JANÚAR 2014
skyrsla_2013

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 3.KRAFTLYFTINGAÞINGI 19.JANÚAR 2013
skyrsla_2012

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 2. KRAFTLYFTINGAÞINGI 28. JANÚAR 2012
skyrsla_2011

SKÝRSLA STJÓRNAR FLUTT Á 1. KRAFTLYFTINGAÞINGI 29. JANÚAR 2011

Ágæta kraftlyftingafólk, velkomin til þessa fyrsta ársþings Kraftlyftingasambands Íslands eftir að það var stofnað á nýjan leik innan vébanda Íþrótta –og Olympíusambands Íslands fyrir um ári síðan.
Aðeins til upprifjunar þá var það í desember 2008 sem við samþykktum að ganga í ÍSÍ og fyrsta skrefið var stofnun undirbúningsnefndar kraftlyftingasambands innan vébanda ÍSÍ. Sú nefnd var stofnuð á vormánuðum 2009. Í kjölfar þess var síðan á Íþróttaþingi vorið 2009 samþykkt heimild til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að stofna Kraftlyftingasamband Íslands þá þegar komin væru á legg kraftlyftingafélög í 5 héraðssamböndum hið fæsta.
Kraftlyftinganefndin hófst því handa um að koma á legg kraftlyftingafélögum. Hinn 15. desember 2009 ritaði nefndin framkvæmdastjórn ÍSÍ bréf þar sem hún beindi þeim tilmælum til framkvæmdastjórnarinnar að nýta sér heimild Íþróttaþings til stofnunar kraftlyftingasambands þar sem skilyrðum um lágmarksfjölda héraðssambanda hafði þá þegar verið fullnægt. Félögin voru þá orðin 8. Þau voru:
Kraftlyftingadeild Breiðabliks UMSK Kraftlyftingadeild Ármanns ÍBR Kraftlyftingadeild UMF Selfossi UMS Kraftlyftingadeild UMF Sindra Höfn UMF Sindri Kraftlyftingadeild UMF Njarðvíkur UMFN Kraftlyftingafélag Mosfellsbæjar UMSK Kraftlyftingafélag Akureyrar ÍBA Kraftlyftingafélag Akraness ÍA
Framkvæmdastjórn ÍSÍ fór að tilmælum okkar og þann 15. apríl 2010 var Kraftlyftingasamband Íslands stofnað.
Nú í janúar var síðan stofnað 9. félagið, Kraftlyftingafélag Seltjarnarness Zetorar UMSK og vil ég að við bjóðum þá innilega velkomna með lófaklappi.
Rétt er einnig að geta þess að á morgun sunnudag þ. 30. janúar verður stofnað nýtt kraftlyftingafélag í Garðabæ Kraftlyftingafélag Garðabæjar Heiðrún.
Á stofnfundi Kraftlyftingsambands Íslands voru eftirfarandi kosin í stjórn sambandsins:
Sigurjón Pétursson formaður Guðjón Hafliðason varaformaður Gry Ek Gunnarsson ritari
Kári Rafn Kárason gjaldkeri Birgir Viðarsson meðstjórnandi
Varamenn voru kjörnir þeir Auðunn Jónsson, Hjalti Úrsus Árnason og Einar Már Ríkarðsson.
Stjórnin hefur haldið 9 bókaða stjórnarfundi og einn formannafund. Auk þess hafa eins og gengur og gerist verið haldnir margir minni vinnufundir, fundir með ýmsum félagasamtökum og opinberum aðilum s.s. menntamálaráðherra, formannafundur sérsambanda ÍSÍ svo og náttúrlega fjöldinn allur af símtölum og snúningum. GSM kostnaður stjórnarmanna er verulegur. Áður en lengra er haldið vil ég þakka stjórnarmönnum hið mikla, óeigingjarna og góða framlag þeirra. Þetta er búið að vera frábært ár með frábærri áhöfn.
Mér þykir rétt að rifja upp hvert er hlutverk og tilgangur KRAFT. Í lögunum segir að KRAFT eigi að vera æðsti aðili kraftlyftinga á Íslandi og er hlutverk þess í meginatriðum:
a. að hafa yfirumsjón allra íslenskra kraftlyftingamála
b. að vinna að eflingu kraftlyftinga í landinu
c. að vinna að stofnun nýrra aðildarfélaga
d. að setja íslenskum kraftlyftingum nauðsynleg lög og reglur og sjá til þess að þeim sé fylgt
e. að löggilda dómara, þjálfa menn til dómarastarfa og veita þeim réttindi
f. að standa að menntun kraftlyftingaþjálfara og veita þeim tilskilin réttindi
f. að standa fyrir og úthluta kraftlyftingamótum
g. að standa vörð um uppeldislegt gildi kraftlyftinga á Íslandi
h. að tefla fram landsliðum og keppendum í alþjóðlegri keppni
i. að koma fram erlendis fyrir hönd kraftlyftinga á Íslandi
j. að vinna að öðrum þeim málum er varða kraftlyftingar á Íslandi
KRAFT er aðili að:
a. Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, (ÍSÍ)
b. Alþjóða kraftlyftingasambandinu, (IPF)
c. Kraftlyftingasambandi Evrópu (EPF)
d. Kraftlyftingasambandi Norðurlanda (NPF)
Félagsfánar og merki. Guðjón Hafliðason endurhannaði merki KRAFT í upphafi ársins og í tengslum við stofnun sambandsins voru útbúnir tveir nýjir sambandsfánar. Guðjóni eru þökkuð störf hans við þetta verkefni sem var vel af hendi leyst.
Mótahald svo og að rækta félögin og vinna að stofnun nýrra er miklvægur þáttur í eflingu kraftlyftinga í landinu. Haldin hafa verið mörg mót bæði á vegum KRAFT svo og
innanfélagamót. Mótahald allt hefur farið mjög vel fram og er í föstum skorðum. Félögin sjá um mótahaldið alfarið og er það stefna stjórnar KRAFT að sambandið sjálft sé ekki mótshaldari einstakra móta heldur eigi stjórnin að einbeita sínum kröftum að öðrum þáttum. Félögin hafa staðið sig mjög vel í þessu mótahaldi. Allri skráning keppenda hefur verið komið í fastari skorður en áður.
Á mótaskrá sambandsins eru 12 innanlandsmót þetta árið og 11 erlend mót. Það er því mikil gróska í mótamálum. Á árinu áttum við þátttakendur á 5 erlendum mótum. 3 kepptu fyrir hönd Íslands á EM í Svíþjóð þau María Guðsteinsdóttir, Auðunn Jónsson og Árni Freyr Stefánsson. 3 kepptu á NM í Bergen þau Lára Bogey Finnbogadóttir og María Guðsteinsdóttir og Auðunn Jónsson. Lára og Auðunn fengu silfur og María gull. Tveir kepptu á HM í Suður Afríku þau María Guðsteinsdóttir og Auðunn Jónsson. Á heimsmeistarmótinu í bekkpressu sem fram fór í Texas áttum við einn keppanda Telmu Ólafsdóttur. Og Fannar Gauti Dagbjartsson keppti síðan á EM öldunga sem fram fór í Tékklandi. María Guðsteinsdóttir varð Norðurlandameistari á mótinu í Bergen og bárust okkur eftirfarandi kveðjur í því tilefni:
„Sælir félagar, Vil óska ykkur til hamingju með glæsilegan árangur á nýafstöðnu Norðurlandamóti. Bið ykkur aðkoma hamingjuóskum á framfæri við stjórn Kraftlyftingasambands Íslands, sem og viðkomandi keppendur.
Með bestu kveðju, Ólafur E. Rafnsson forseti ÍSÍ“
Framkoma keppenda á mótum hefur verið til fyrirmyndar að undanteknum tveimur tilfellum þar sem menn hafa látið vonbrigði sín með sinn eigin árangur koma fram í framkomu sinni. Slíkt er ekki íþróttamannslegt og hvet ég alla til að sýna af sér sanna íþróttamanns framkomu. Eins og ég sagði þá hefur framkoma nánast allra verið til mikillar fyrirmyndar.
Nokkuð hefur verið unnið í að rækta félögin og sambandið milli sambandsins og félaganna. Þannig höfum við formaður og varaformaður heimsótt nokkur félög á árinu og nú nýlega var síðan stofnað nýtt félag sem nefnist Kraftlyftingafélag Seltjarnarness Zetorar og á morgun verður stofnað nýtt félag í Garðabæ eins og fyrr er getið. Gaman væri að við gætum stofnað tvö ný félög á árinu sem er að hefjast.
Eitt af því sem er mikilvægt til að efla kraftlyftingarnar er að allt upplýsingastreymi sé í góðum farvegi. Heimasíða sambandsins gegnir hér lykilhlutverki. Ný heimasíða var tekin í notkun á árinu og vil ég nota tækifærið og þakka Klaus Lagefoged Jensen fyrir hans mikla og óeigingjarna framlag við þá vinnu alla. En það er ekki nóg að vera með gott kerfi og útlit. Það þarf líka að vera sífellt að setja inn fréttir, fundarboð, fundargerðir, tilkynningar um mót ofl. ofl. Ritari sambandsins Gry Ek Gunnarsson hefur lyft grettistaki í þessu sambandi. Má sem dæmi nefna að aðeins nú í janúar eru komnar 27 fréttir og færslur á heimasíðuna og á 10 sl. mánuðum eru komnar yri 130 færslur. Hún er því sannarlega lifandi síða. Gefum Gry gott klapp.
Goodlift tölvukerfið var keypt á árinu. Kerfið er til að halda utan um allt sem gerist á mótum og var tekið í notkun á Reykjavík International Games um síðustu helgi og var einnig notað nú í dag hér á Akranesi á bekkpressumótinu. Forritið og birtingarmöguleikar sem það býður upp á fyrir keppendur, áhorfendur og starfsmenn gjörbreyta öllu upplýsingaflæði og keppnir ganga hraðar og markvissar fyrir sig. Félög þau sem mynda KRAFT lögðu saman í sjóð til að kaupa hugbúnaðinn í tilefni 60 ára afmælis þess sem hér stendur þann 22. júní sl. Ég vil því
nota tækifærið til að þakka þessa frábæru gjöf, þann heiður sem mér var sýndur og veit að hún mun verða mjög gagnleg fyrir sambandið. Þökk sé ykkur öllum.
Félagakerfi ÍSÍ og UMFI Felix leikur lykihlutverk í allri starfsemi sambandanna. Lögð hefur verið mikil áhersla á að allir sem iðka kraftlyftingar séu skráðir í Felix og hefur náðst góður árangur. Nú eru um 400 iðkendur kraftlyftinga skráðir í Felix. Ég hvet félögin til að vera dugleg við þessa skráningu. Felixskráningin er notuð sem grundvöllur fyrir úthlutun Lottótekna svo eitthvað sé nefnt og þegar greinin er metin í hlutfalli við aðrar íþróttagreinar t.d. við úthlutun styrkja og stuðnings þá eru Felix tölurnar lagðar til grundvallar. Gerum því okkar grein gott með góðri skráningu í Felix.
Íþróttamaður og kona ársins. María Guðsteinsdóttir var kjörin kraftlyftingakona ársins og Auðunn Jónsson kraftlyftingamaður ársins. María varð t.d. Norðurlandameistari á NM í Noregi í ágúst og Auðunn er nú í 8. sæti á heimslistanum í kraftlyftingum.
Styrkjamál. Afreksmannasjóður úthlutaði styrkjum upp á kr. 500.000 til KRAFT v. Auðuns Jónssonar á árinu og kr. 200.000 til Maríu Guðsteinsdóttur. Olympíufjölskyldan úthlutaði sambandinu kr. 220.000 til þátttöku í mótum á árinu og hefur þannig verið mögulegt að greiða móta -og lyfjaprófunargjöld fyrir þá sem taka þátt í mótum erlendis á vegum sambandsins. Kristján Gunnarsson og Gry Ek Gunnarsson styrktu sambandið um kr. 200.000 svo María Guðsteinsdóttir gæti tekið þátt í HM í Suður Afríku í nóvember og nú hefur sambandinu borist ferðastyrkur vegna þátttöku Auðuns Jónssonar í Arnold Classic í boði IPF sem fer fram í mars. Enn fremur bárust sambandinu tveir ferðastyrkir í formi farmiða til London fyrir þau Auðunn og Maríu v. HM í Suður Afríku og ÍSÍ styrkti enn fremur sambandið með tveimur farmiðum v. heimsókna til félaga hér innanlands. Heildar tekjur v. styrkja nema því vel á aðra milljón. Þetta eru nýjir fjármunir inn í greinina sem bárust okkur ekki áður þá þegar sambandið stóð utan ÍSÍ og eitt af því sem áþreifanlegt er sem árangur af inngöngu okkar í ÍSÍ.
Í tengslum við EM í Svíþjóð var haldið ársþing EPF og sótti undirritaður þingið. Nokkuð er síðan Ísland sendi fulltrúa á þingið og voru móttökurnar sem ég fékk þar frábærar og við boðin hjartanlega velkomin á nýjan leik. Eitt af því sem rætt var á þinginu var að hleypa meiri krafti í NPF. Nýr formaður hefur tekið við og Ísland á nú fulltrúa í stjórn þess sambands sem er Gry Ek Gunnarsson og hefur hún m.a. tekið að sér vefsíðu sambandsins.
Nokkur vinna hefur verið leyst af hendi hvað varðar mótareglur og litu nýjar reglur dagsins ljós nú í haust. Einnig hafa verið settar reglur um félagaskipti. Uppfærð hefur verið íslensk þýðing á IPF Technical Rules . Á næstunni þarf að endurskoða og semja reglur í ýmsum málaflokkum. Ég vil þakka þeim Helga Haukssyni og Herði Magnússyni dómurum fyrir þeirra framlag við þessa vinnu.
Landsliðsmál. Málefni landsliðs Íslands í kraftlyftingum hefur verið til umfjöllunnar í stjórn sambandsins. Sú breyting mun verða á að efnilegir einstaklingar verða valdir í landslið KRAFT og hugmyndir eru uppi um að ráða landsliðsþjálfara sem muni halda utan um æfingar og undirbúning landsliðsmanna.
Dómaramál. Mikilvægt er fyrir félögin að eiga á að skipa góðum hópi dómara og einnig er mikilvægt fyrir okkur að hafa á að skipa alþjóðadómurum. Við eigum nú tvo aðlþjóðadómara þá Helga Hauksson og Hörð Magnússon. Þeir Helgi og Hörður endurskoðuðu og uppfærðu dómaralistann á árinu en við þurfum að fjölga bæði innlendum
og alþjóðadómurum. Í tengslum við EM í Svíþjóð var haldin vinnustofa eða námskeið fyrir alþjóðadómara og í framhaldi af því endurnýjuðu alþjóðadómarar síðan réttindi sín með prófi. Helgi Hauksson tók þátt í þessari vinnustofu og endurnýjaði síðan sín réttindi með próftöku á mótinu. Stjórnin hefur mótað þá stefnu að við þurfum að eiga í það minnsta 3 einstaklinga með alþjóðleg dómararéttindi. Helst þyrftu þeir að vera 5. Þetta er eitt af verkefnum 2011 og 2012.
Lyfjamálin hafa verið mikið í brennidepli. Eins og okkur er kunnugt voru það lyfjamálin sem einna helst ýttu þeirri þróun af stað að gamla kraftlyftingasambandið var lagt niður og nýtt stofnað. Lyfjamálin eru ekkert sérstaklega mikilvæg eða uppi á borðinu í kraftlyftingum. Langt því frá. Lyfjamálinu eru mikið áhersluatriði í nánast öllum íþróttagreinum alls staðar í íþróttaheiminum. Við höfum átt mjög gott samstarf við lyfjanefnd ÍSÍ og starfsmenn hennar. Framkvæmd hafa verið á þriðja tug prófa á kraftlyftingamönnum og hafa þau öll komið mjög vel út. Þessi mál eru í góðu standi hjá okkur og getum við verið stolt af því.
Fjölmiðlamál hafa verið nokkuð til umfjöllunnar hjá okkur í stjórninni. Mikilvægt er að auka umfjöllun um kraftlyftingar og hefur það tekist að nokkru. Áður fyrr fjölluðu fréttastofurnar lítið um kraftlyftingar en eftir að við komum í ÍSÍ er annað hljóð í strokknum. Þetta mál byggist mikið einnig á okkur. T.d. þarf að dreifa fréttatilkynningum frá félögunum þegar þau halda mót og fylgja þeim eftir með símtölum. Gangi ykkur vel í því efni.
Margt fleira mætti nefna úr starfinu á árinu sem er að líða en ég læt hér staðar numið. Nú á nýju ári förum við að komast inn í tekjustrauma ÍSÍ s.s. Lottótekjur, sambandstyrki ofl. þannig að fjárhagsstaða sambandsins ætti að geta styrkst til muna.
Áður en ég lýk máli mínu vil ég þakka fyrir allan þann stuðning og traust sem ég sem formaður og stjórnin hefur fengið að njóta af ykkar hálfu. Árið hefur verið mjög skemmtilegt og við erum að byggja upp gott samband. Ég hef setið í mörgun góðum stjórnum og ráðum í gegn um tíðina en sá hópur sem skipar núverandi stjórn KRAFT er einn sá besti. Einstaklingarnir eru ólíkir og koma úr ýmsum áttum en mynda mjög sterka og einhuga heild þar sem hver og einn kemur með sína sérþekkingu og styrkleika að borðinu. Eitt er sameiginlegt og það er áhugi á framgangi kraftlyftinga. Það er málið. Ég vil þakka stjórnarmönnum allt þeirra mikla framlag og góða samstarf. Ykkur þingfulltrúum þakka ég traustið.

Sigurjón Pétursson, formaður KRAFT