Lög KRAFT

Lög Kraftlyftingasambands Íslands (KRA)
15.apríl 2010
með áorðnum breytingum

I. kafli. Almenn ákvæði og hlutverk
1. gr. Heiti og aðsetur
Kraftlyftingasamband Íslands, (KRA), er samband héraðssambanda og íþróttfélaga sem iðka, æfa og keppa í kraftlyftingum innan ÍSÍ. Aðsetur KRAFT og varnarþing skal vera í Reykjavík. Merki KRAFT sýnir lyftingamann með lóð og KRAFT skammstöfunina. Bókstafir og mynd er í svörtum litum en grunnur rauður. Fáni KRAFT er rauður með merki KRAFT í miðju.
2. gr. Hlutverk og tilgangur KRAFT
KRA er æðsti aðili kraftlyftinga á Íslandi og er hlutverk þess í meginatriðum:
a. að hafa yfirumsjón allra íslenskra kraftlyftingamála
b. að vinna að eflingu kraftlyftinga í landinu
c. að vinna að stofnun nýrra aðildarfélaga
d. að setja íslenskum kraftlyftingum nauðsynleg lög og reglur og sjá til þess að þeim sé fylgt
e. að löggilda dómara, þjálfa menn til dómarastarfa og veita þeim réttindi
f. að standa fyrir og úthluta kraftlyftingamótum
g. að standa vörð um uppeldislegt gildi kraftlyftinga á Íslandi
h. að tefla fram landsliðum og keppendum í alþjóðlegri keppni
i. að koma fram erlendis fyrir hönd kraftlyftinga á Íslandi
j. að vinna að öðrum þeim málum er varða kraftlyftingar á Íslandi
KRA starfar sjálfstætt og er hlutlaust er varðar stjórnmál og trúarbrögð. KRA skal gæta jafnréttis og jafnræðis. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum, reglugerðum og ákvörðunum KRA og nefnda á vegum KRA. Aðilar skulu njóta fullra réttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana,þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
3. gr. Aðild að samtökum
KRA er aðili að:
a. Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, (ÍSÍ)
b. Alþjóðakraftlyftingasambandinu, (IPF)
c. Kraftlyftingasambandi Evrópu (EPF)
d. Kraftlyftingasambandi Norðurlanda (NPF)
KRA skal gæta samræmis við reglur og ákvarðanir ÍSÍ og sjá um að reglur varðandi kraftlyftingar séu í samræmi við alþjóðareglur. Reglur og ákvarðanir KRA eru bindandi fyrir aðila að KRA; félög, iðkendur, keppendur, dómara, þjálfara, forystumenn og aðra þá sem eru innan vébanda aðildarfélaga KRA.

II. kafli. Aðild að KRA
4. gr. Réttur að aðild
Öll félög innan ÍSÍ er æfa, iðka og keppa í kraftlyftingum eru aðilar að KRA í gegnum viðkomandi héraðssamband/íþróttabandalag.
5. gr. Réttindi og skyldur aðildarfélaga
Öll aðildarfélög KRA hafa rétt til að taka þátt í mótum sem eru skipulögð á vegum KRA. Kraftlyftingar skulu fara fram samkvæmt lögum, reglugerðum og ákvörðunum KRA og ÍSÍ og alþjóðlegum,(IPF), keppnisreglum sem samþykktar hafa verið af KRA og ber aðildarfélögum skylda til þess að virða þær reglur.
Félagi sem tekur þátt í móti á vegum KRA ber að sjá til þess að iðkendur, keppendur, þjálfarar, dómarar, forystumenn svo og aðrir innan vébanda félagsins virði lög, reglugerðir, reglur og ákvarðanir KRA, IPF og EPF. Félagi sem tekur þátt í mótum á vegum KRA er skylt að virða ákvarðanir stjórnar KRA, nefnda KRA og dómstóla innan íþróttahreyfingarinnar. Félag sem tekur þátt í mótum á vegum KRA skal senda því ársskýrslu sína.
Héraðssamböndin og íþróttabandalögin eru milliliðir milli félaga sinna og KRA. Ársskýrslur um störf aðildarfélaga, héraðssambanda/íþróttabandalaga, skal senda stjórn KRA innan eins mánaðar frá afloknum ársfundi/aðalfundi viðkomandi félags/sambands/bandalags.
Aðildarfélög KRA skuldbinda sig til að vinna að því að koma í veg fyrir lyfjamisnotkun.
Aðildarfélög KRAFT skulu halda bókhald yfir starfsemi sína í samræmi við gildandi lög og reglur um bókhald.
Félög sem eru aðilar að KRA skuldbinda sig til þess að vera ekki aðilar að öðru kraftlyftingasambandi eða taka þátt í mótum á vegum annars kraftlyftingasambands nema með sérstöku samþykki KRA. Aðildarfélag er brýtur gegn ofangreindum skyldum skal hlíta viðurlögum þeim sem nánar eru ákvörðuð í lögum þessum, lögum um dómstóla ÍSÍ og reglugerð KRA. Keppendur aðildarfélaga skulu vera skráðir í samræmi við reglugerð KRA.
6. gr. Aðrar skyldur
Aðildarfélög, KRA, félagsmenn og aðrir innan KRA skuldbinda sig til að iðka kraftlyftingar í samræmi við ákvæði þessara laga og reglugerða KRA og í samræmi við lög og reglur IPF og EPF.

III. kafli. Skipulag KRA
7. gr. Stjórnkerfi KRA
Málefnum KRA stjórna:
a. kraftlyftingaþing sem fer með æðsta vald í málefnum KRA og setur lög sambandsins.
b. stjórn KRA sem fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli þinga.
c. fastanefndir KRA sem vinna samkvæmt lögum og reglugerðum KRA og starfsreglum sem stjórn KRA setur þeim.
d. sérstakar nefndir sem skipaðar eru af kraftlyftingaþingi eða stjórn KRA og starfa að afmörkuðum málefnum.
e. framkvæmdastjóri KRA sem ber ábyrgð á daglegum rekstri sambandsins og skrifstofu KRA sem sér um daglega umsýslu verkefna.
Dómstólar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hafa lögsögu um þau mál sem upp kunna að koma innan Kraftlyftingasambands Íslands, sbr. lög Íþrótta- og Olympíusambands Íslands.

IV. kafli. Kraftlyftingaþing
8. gr. Boðun
Kraftlyftingaþing skal haldið árlega eigi síðar en 1. mars. Stjórn KRA ákveður þingstað og skal boða það með rafrænum hætti með eins mánaðar fyrirvara Kraftlyftingaþingið er lögmætt ef löglega er til þess boðað.
9. gr. Réttur til þingsetu
Kraftlyftingaþing sitja fulltrúar frá aðildarfélögum og sambandsaðilum KRA.
Fulltrúafjöldi aðildarfélaga miðast við fjölda iðkenda á vegum KRA þannig að:
1. fyrir færri en 50 iðkendur eru tveir fulltrúar
2. fyrir 50 til 125 iðkendur eru þrír fulltrúar
3. fyrir 125 til 200 iðkendur eru fjórir fulltrúar
4 fyrir 200 iðkendur eða fleir eru fimm fulltrúar.
Hvert héraðssamband og íþróttabandalag á rétt einum fulltrúa.
Á kraftlyftingaþingi hafa aðeins þingfulltrúar atkvæðisrétt þó eingöngu fulltrúar aðildarfélaga og sambandsaðila sem eru skuldlausir við KRA.
Hver þingfulltrúi fer með eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf, sem gefin eru út af eða sambandsaðilum á þar til gerðu eyðublaði sem KRA sér þeim fyrir. Skulu þau staðfest af kjörbréfanefnd. Atkvæði eru greidd með þar til gerðum spjöldum sem kjörbréfanefnd afhendir kjörnum fulltrúum sem fara með atkvæðisrétt. Ekki er unnt að greiða atkvæði samkvæmt umboði eða bréfleiðis.
Á kraftlyftingaþingi eiga auk kjörinna fulltrúa rétt til þingsetu og hafa málfrelsi og tillögurétt:
a. stjórn KRA
b. endurskoðendur reikninga KRA
c. framkvæmdastjórn ÍSÍ
d. framkvæmdastjórar KRA og ÍSÍ
e. heiðursformenn KRA
f. allir nefndarmenn fastanefnda KRA
g. fulltrúi menntamálaráðuneytisins
h. auk þess getur stjórn KRA boðið öðrum aðilum þingetu ef hún telur ástæðu til
10. gr. Málefni
Málefni sem aðildarfélög eða sambandsaðilar óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu skulu tilkynnt stjórn KRA minnst 21 degi fyrir þingið. Skriflegt fundarboð (síðara fundarboð) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir sérsambandsþing, skal senda þeim aðilum sem eiga rétt á fulltrúa/fulltrúum á þingið með eigi minna tveggja vikna fyrirvara. Eigi síðar en viku fyrir boðað kraftlyftingaþing skal stjórn KRA jafnframt kynna aðildarfélögum og sambandsaðilum reikninga sambandsins ásamt fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
11. gr. Dagskrá
Störf kraftlyftingaþings eru:
1. þingsetning og staðfesting lögmæti þingsins í samræmi við lög þessi
2. kosning þriggja manna í kjörbréfanefnd
3. kosning þingforseta og varaþingforseta
4. kosning þingritara og varaþingritara
5. þinggerð síðasta árs lögð fram
6. ávörp gesta
7. álit kjörbréfanefndar lagt fram og samþykkt
8. kosning þriggja manna í fjárhagsnefnd, laganefnd og allsherjarnefnd þingsins
9. lögð fram skýrsla fráfarandi stjórnar
10. lagðir fram endurskoðaðir reikningar KRA
11. umræður um skýrslu stjórnar og reikninga og reikningar bornir undir atkvæði
12. stjórn KRA leggur fram fjárhagsáætlun KRA fyrir næsta starfsár
13. tillögur um breytingar á lögum teknar til afgreiðslu
14. teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál, sem hafa borist til stjórnar
15. álit þingnefnda og tillögur og atkvæðagreiðslur um þær
16. ákveða þátttökugjöld í Íslands-og bikarmótum næsta keppnistímabils
17. önnur mál
18. kosning stjórnar
19. kosning 2 endurskoðenda/skoðunarmanna og 2 til vara
20. kosning fulltrúa á íþróttaþing ÍSÍ
21. þingslit

Stjórn KRA skal birta á vef sínum fundargerð ársþings og gildandi lög og reglugerðir sambandsins í síðasta lagi 1. maí ár hvert. Verði eftir því óskað skulu eintök send framkvæmdastjórn ÍSÍ, aðildarfélögum og sambandsaðilum KRA
12. gr. Atkvæðagreiðsla
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Þingið getur með 2/3 atkvæða viðstaddra fulltrúa leyft að taka fyrir mál sem komið er fram eftir að dagskrá þingsins var send aðildarfélögum og sambandsaðilum. Þó skal óheimilt að afgreiða tillögur um breytingar á lögum þessum sem lagðar eru fram eftir að kraftlyftingaþing er hafið, nema slíkt sé nauðsynlegt vegna annarra tillagna sem samþykktar hafa verið á þinginu eða fluttar sem breytingartillögur við aðrar tillögur sem liggja fyrir þinginu.
Þingfulltrúar á kraftlyftingaþingi greiða atkvæði um mál með handauppréttingu. Ef ¼ þingfulltrúa óska eftir skriflegri atkvæðagreiðslu skal þingforseti verða við ósk þeirra. því að lyfta þar til gerðum spjöldum, sem afhent eru af kjörbréfanefnd. Ákvarðanir sem teknar eru á kraftlyftingaþingi skulu taka gildi strax nema annað sé ákveðið á þinginu.
13. gr. Aukaþing
Aukaþing má halda ef nauðsyn krefur að mati stjórnar KRA eða helmingur aðildarfélaga og sambandsaðila óskar þess. Alla boðunar- og tilkynningafresti til aukaþings má hafa helmingi styttri en til reglulegs þings.
Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulegu þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Kjósa má nýjan fulltrúa í stað þess sem er látinn, veikur, fluttur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn fimm manna, ef meirihluti kjörinnar stjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leyti gilda reglur um reglulegt kraftlyftingaþing.

V. kafli. Stjórn KRA
14.gr. Skipulag stjórnar KRA
Stjórn KRA skipa:
a. formaður
b. varaformaður
c. ritari
d. gjaldkeri
og þrír meðstjórnendur.
15.gr. Kosning stjórnar KRA
Stjórn KRA er kosin á kraftlyftingaþingi og hafa allir kjörnir þingfulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnina skipa 7 aðalmenn.
Fyrst skal kjósa beinni kosningu formann til eins árs, næst skal kjósa 3 stjórnarmenn til tveggja ára. Þeir sem flest atkvæði fá teljast rétt kjörnir.
Á kraftlyfingarþingi 2016 verða þó kosnir sex stjórnarmenn, þrír til tveggja ára og aðrir þrír til eins árs
Tilkynning um framboð til embættis formanns og stjórnar KRA skal berast skrifstofu KRA minnst 21 degi fyrir þing. Uppstillingarnefnd er þó heimilt að samþykkja framboð sem fram kemur síðar. Til þess að ná kjöri sem formaður KRA þarf meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu skal kjósa á ný, bundinni kosningu, um þá tvo menn sem flest atkvæði hlutu. Ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða.
Allar kosningar til formanns og stjórnar skulu vera skriflegar. Kosning skal vera bundin við þá sem gefa kost á sér og er atkvæði aðeins gilt ef kosnir eru jafnmargir og kjósa á. Við kosningu á milli annarra en formanns á kraftlyftingaþingi gildir sú regla að þeir sem flest atkvæði fá eru rétt kjörnir. Fái fleiri en þeir sem eru í kjöri jafnmörg atkvæði skal kjósa um þá á ný, bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.
16.gr. Verkaskipting stjórnar KRA
Formaður skal boða til stjórnarfunda og stjórna þeim. Stjórn er ályktunarbær ef minnst fjórir stjórnarmenn sækja löglega boðaðan stjórnarfund. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu máls. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Óski þrír eða fleiri stjórnarmenn eftir stjórnarfundi skal til hans boðað eigi síðar en 7 dögum eftir að ósk þar að lútandi hefur verið borin fram.
Stjórn KRA skal skipta með sér verkum að öðru leyti en ákveðið er í lögum þessum. Á fyrsta stjórnarfundi skal stjórnin skipta með sér verkum þannig að einn stjórnarmaður er varaformaður, annar er gjaldkeri og þriðji er ritari. Stjórn KRA setur framkvæmdastjóra starfslýsingu. Framkvæmdastjóri KRA fer með prókúru en allar meiriháttar skuldbindingar af hálfu KRA skulu samþykktar af meirihluta stjórnar.
17.gr. Starfssvið stjórnar KRA
Starfssvið stjórnar KRA er:
a. að sjá til þess að ákvörðunum og ályktunum kraftlyftingþings sé framfylgt og að lög og reglugerðir KRA séu haldnar
b. að setja nauðsynlegar reglur og reglugerðir um kraftlyftingar á Íslandi í samræmi við lög þessi
c. að bera ábyrgð á fjármálum KRA
d. að ráða framkvæmdastjóra til starfa samkvæmt starfslýsingu
e. að vinna að eflingu kraftlyftinga í landinu
f. að skera úr ágreiningi eða taka ákvarðanir um kraftlyftingamál, sem lög þessi og/eða reglugerðir KRA ná ekki yfir
g. að annast útgáfu á lögum þessum og reglugerðum fyrir kraftlyftingar, sem jafnan séu í samræmi við alþjóðareglur
h. að ráða landsliðsþjálfara til starfa
i. að semja um og taka ákvörðun um þátttöku íslensks íþróttafólks í kraftlyftingum í keppnum erlendis og koma fram erlendis fyrir hönd íslensra kraftlyftinga
j. að staðfesta ákvarðanir heiðursmerkjanefndar um veitingu heiðursmerkja og viðurkenninga
k. að tilnefna menn til starfa á vegum alþjóðasamtaka m.a. eftir tilnefningu fastanefnda
l. að skipa menn í nefndir KRA
m. að velja kraftlyftingakonu og -mann ársins
n. að skipuleggja daglegan rekstur sambandsins
o. að senda framkvæmdastjórn ÍSÍ lögboðnar skýrslur
p. að hafa yfirumsjón með mótum þ.m.t. íslandsmótum
q. að raða niður og ákveða stað og tíma fyrir alþjóðamót sem haldin eru á Íslandi og hafa samráð við framkvæmdastjórn ÍSÍ um ákvörðun á landsmótum og alþjóðamótum sem haldin eru hérlendis
r. að vinna að fjáröflun til að standa undir kostnaði af rekstri sambandsins
s. að skipa uppstillingarnefnd eigi síðar en 2 mánuðum fyrir ársþing KRA
t. að standa fyrir formannafundum, skv. 30. gr.
Stjórn KRA lítur eftir því að lög og reglugerðir KRA og mótareglur séu haldnar og getur hún vísað brotum aðila til aganefndar KRA til úrskurðar. Í sérstökum tilfellum þegar lög þessi eða reglugerðir KRA eru ekki fullnægjandi getur hún tekið til skoðunar sjálfstætt brot aðila og beitt þeim viðurlögum er getur í lögum þessum.
Stjórn KRA og allir þeir sem koma fram á vegum KRA skulu fara eftir þeim lögum og reglugerðum sem gilda á hverjum tíma.
Stjórn KRA, fastanefndir KRA, dómstólar ÍSÍ og starfsmenn hafa frjálsan aðgang að öllum kraftlyftingamótum sem fram fara innan vébanda KRA.
Stjórn KRAFT skal setja á heimasíðu KRAFT endurrit allra fundargerða stjórnarinnar eða útdrátt úr þeim.
18. gr. Reglugerðir og reglur
Stjórn KRA setur nauðsynlegar reglugerðir og reglur um þau málefni sem snúa að allri framkvæmd laga þessara. Nær það til allra breytinga á gildandi reglugerðum sem og setningu nýrra reglugerða og nýrra reglna.
Nýjar reglugerðir og breytingar á gildandi reglugerðum skulu kynntar aðildarfélögum með rafrænum hætti og taka þær gildi samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar KRA. Ekki þarf að birta þær með sérstökum hætti svo þær öðlist gildi heldur er nægjanlegt að þær séu kynntar með rafrænum hætti og á heimasíðu KRA.
Óski aðildarfélög eftir setningu nýrra reglugerða eða breytinga á gildandi reglugerðum skal slíkum óskum beint til stjórnar KRA.

VI. kafli. Nefndir KRA
19. gr. Fastanefndir
Stjórn KRA skal að loknu kraftlyftingaþingi skipa eftirtaldar fastanefndir:
a. búninganefnd
b. dómaranefnd
c. fræðslu- og útbreiðslunefnd
d. heiðursmerkjanefnd
e. laga- og keppnisreglnanefnd
f. landsliðsnefnd
g. Læknanefnd
h.mótanefnd
i. aganefnd
Fastanefndir starfa í umboði stjórnar KRA samkvæmt lögum og reglugerðum sambandsins. Stjórn KRA skal setja nefndum nauðsynlegar starfsreglur. Fastanefndir hafa ekki sérstakan fjárhag.
Kraftlyftingaþing getur skipað sérstakar tímabundnar nefndir sem starfa á milli kraftlyftingaþinga til að fjalla um málefni sem nánar eru ákvörðuð á þinginu.
Stjórn KRA getur skipað sérstakar nefndir til að fjalla um afmörkuð verkefni.
20.gr.Búninganefnd
Búninganefnd KRA skal sjá um alla búninga KFA, þ.e. keppnisbúnað, æfingabúnað og annan fatnað á vegum KRA svo og allar rekstrarvörur sambandsins.
21. gr. Dómaranefnd
Dómaranefnd hefur umsjón með dómaramálum KRA, ber ábyrgð á flokkun og vali dómara og eftirlitsmanna á mót á vegum sambandsins og sér um fræðslumál dómara. Nefndin annast útgáfu kraftlyftingkeppnisreglnanna á íslensku og sér um að dómarar framfylgi þeim. Dómaranefnd skal að jafnaði vera skipuð reynslumiklum fyrrverandi dómurum.
22. gr. Fræðslu-og útbreiðslunefnd
Fræðslu- og útbreiðslunefnd hefur umsjón með og skipuleggur fræðslumál KRA og annast sér í lagi menntun kraftlyftingaþjálfara og leiðtoga. Nefndin skal einnig vera vettvangur nýrra hugmynda og þróunar í íslenskum kraftlyftingum. Nefndin vinnur að eflingu kraftlyftinga og útbreiðslu með það að markmiði að sem flestir fái tækifæri til að taka þátt í leik og starfi innan vébanda kraftlyftingasambandsins.
23. gr. Heiðursmerkjanefnd
Heiðursmerkjanefnd kemur með tillögur til stjórnar KRA um veitingu heiðursmerkja á vegum KRA. Nefndin skal sjá um að halda skrá yfir viðurkenningar á vegum KRA og skal hún birt á heimasíðu sambandsins.
24. gr. Laga- og keppnisreglnanefnd
Laganefnd er stjórn KRA til ráðgjafar um lög og reglugerðir sambandsins. Nefndin skal fara yfir allar tillögur sem berast fyrir kraftlyftingaþing og metur hvort þær séu rétt fram settar og uppfylli kröfur til þinglegrar afgreiðslu. Nefndin skal fara yfir allar tillögur stjórnar KRA að reglugerðum áður en þær eru afgreiddar frá stjórn KRA til að meta hvort þær séu rétt fram settar og uppfylli lagaákvæði þessi.
25. gr. Landsliðsnefnd
Landsliðsnefnd hefur umsjón með landsliðum. Nefnd hefur umsjón með þátttöku viðkomandi liða í alþjóðakeppni, skipuleggja undirbúning þeirra og annast samskipti við starfsmenn liðanna.
26.gr. Læknanefnd
Læknanefnd skal skipuleggja og tryggja starfsemi lækna og sjúkraþjálfara með landsliðum KRA. Læknanefnd skal sjá um skipulagningu og hafa umsjón með lækningum, sjúkraþjálfun og fylgist með lyfjaprófum á alþjóðelgum mótum óg mótum sem fram fara í Íslandi.
27. gr. Mótanefnd
Mótanefnd annast yfirstjórn mótamála KRA þar með talið skipulag Íslandsmóta, niðurröðun þeirra og eftirlit með framkvæmd þeirra.
28. gr. Aganefnd
Aganefnd starfar samkvæmt lögum og reglugerðum sambandsins og setur stjórn KRA nefndinni nauðsynlegar starfsreglur. Aganefnd KRA skal skipuð 3 mönnum og jafnmörgum til vara. Skal a.m.k. einn aðalmaður vera löglærður og skal varamaður hans einnig vera löglærður.
Nefndin úrskurðar um viðurlög samkvæmt lögum þessum, reglugerðum KRA og starfsreglum aganefndar gegn aðildarfélögum, forráðamönnum, keppendum , þjálfurum, starfsmönnum, umboðsmönnum, áhorfendum og öðrum þeim sem eru innan vébanda aðildarfélaga KRA.
Aganefnd skal úrskurða um þau atriði sem fram koma í atvikaskýrslum dómara og/eða eftirlitsmanna. Nefndin fjallar um brot keppenda þjálfara, forystumanna félaga, félaga og áhorfenda. Þá fjallar nefndin um önnur mál sem berast henni og/eða hún telur ástæðu til að hafa afskipti af vegna keppna sem fara fram á Íslandi, enda fjalli ekki aðrir um þau.
Aganefnd fjallar um mál sem henni berast samkvæmt reglugerð um agamál. Nefndinni ber að taka mál fyrir sem henni berst innan tveggja vikna frá því það hefur borist með sannanlegum hætti. Úrskurð skal tilkynna málsaðila strax að loknum fundi aganefndar, með rafrænum hætti eða öðrum sannanlegum hætti. Úrskurður aganefndar skal einnig birtur á heimasíðu KRA strax að loknum fundi.
Heimilt er að skjóta til dómstóls ÍSÍ úrskurðum aganefndar sem kveða á um það að keppandi, þjálfari, starfsmaður liðs eða félag skuli sæta tímabundnu banni eða sektum að hærri fjárhæð en kr. 100.000. Í tilvikum sem þessum skal öllum aðilum máls kynnt úrskurður aganefndar. Að öðru leyti en að framan greinir eru úrskurðir aganefndar endanlegir.
29. gr. Viðurlög við brotum
Aganefnd hefur heimild til að beita viðurlögum vegna brota á lögum þessum, reglugerðum og leikreglum. Viðurlögin geta verið leikbönn, tímabundið bann, áminning, ávítur og sektir. Stjórn KRA skal setja reglugerð um viðurlög við einstökum brotum á lögum þessum, reglugerðum og leikreglum í samræmi við 1.mgr.

VII. kafli FRAMKVÆMDASTJÓRI OG SKRIFSTOFA
30. gr. Framkvæmdastjóri
Framkvæmdastjóri KRA er ráðinn af stjórn Kraftlyftingasambandsins samkvæmt ráðningarsamningi.Framkvæmdastjóri KRA stjórnar og ber ábyrgð á rekstri skrifstofu og starfsmannahaldi KRA.Framkvæmdastjóri KRA getur vísað brotum aðila á lögum KRA, reglugerðum KRA og leikreglum til aganefndar KRA til úrskurðar.
31. gr. Skrifstofa KRA
Skrifstofa annast daglega umsýslu verkefna KRA undir stjórn og ábyrgð framkvæmdastjóra.

VIII. kafli. REIKNINGAR
32. gr. Reikningsárið
Reikningsár KRA er frá 1. janúar til 31. desember. Milliuppgjör skal liggja fyrir 31. ágúst. Reikningar KRA skulu undirritaðir af formanni, gjaldkera og framkvæmdastjóra.Endurskoðendur KRA skulu vera sjálfstæðir og óháðir KRA.
Reikningar KRA skulu áritaðir af kjörnum endurskoðendum.

IX. kafli. ÝMIS ÁKVÆÐI
33. gr. Réttindi
KRA og aðildarfélög innan KRA eru eigendur alls réttar sem tengist mótahaldi KRA og/eða öðrum viðburðum skipulögðum af KRA. Þessi réttur nær m.a. til hvers kyns fjárhagslegra réttinda, upptöku og útsendingaréttinda af öllu tagi, (t.d. í sjónvarpi, útvarpi, á internetinu og í síma), markaðsréttinda, kynninga og höfundarréttar. Stjórn KRA getur sett nauðsynlegar reglur um nýtingu þessara réttinda.
34. gr. Heiðursformaður
Kraftlyftingaþing má kjósa heiðursformann Kraftlyftingasambands Íslands ef 4/5 mættra þingfulltrúa samþykkja kjörið. Heiðursformenn KRA hafa rétt til setu á fundum stjórnar sambandsins og á kraftlyftingaþingum og hafa þar málfrelsi. Heiðursformenn KRA koma fram fyrir hönd sambandsins þegar stjórn þess eða formaður kunna að óska og fela þeim það.
35. gr. Önnur atvik
Við brot á ákvæðum laga þessara hefur stjórn KRA heimild til að beita viðkomandi viðurlögum sem getið er um lögum þessum og reglugerðum sambandsins, þ.m.t. reglugerð um agamál, verði þeim ekki skotið til aganefndar eða dómstóls ÍSÍ.
Stjórn KRA hefur lokaákvörðun um öll þau málefni varðandi kraftlyftingar innan vébanda ÍSÍ sem lög þessi eða reglugerðir KRA ná ekki sérstaklega til eða þegar meiriháttar utanaðkomandi atburðir krefjast þess.
Stjórn KRA er heimilt að beita þeim viðurlögum sem getið er í lögum þessum og reglugerðum ef slík atvik koma upp er getið er í 2. mgr.
36. gr. Sambandsslit
Tillögu um að leggja KRA niður má aðeins taka fyrir á lögmætu kraftlyftingaþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu þarf minnst 3/4 hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þingskýrslunni og tillagan síðan látin ganga til reglulegs þings.
Með fulltrúakjöri sínu til þessa þings taka aðilar afstöðu til tillögunnar. Verði tillagan samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun um að leggja KRA niður. Ákveður það þing síðan hvernig ráðstafa eigi eignum KRA. Þeim má aðeins verja til eflingar kraftlyftingaíþróttarinnar í landinu.
37. gr. Lagabreytingar
Lögum þessum má breyta á reglulegu kraftlyftingaþingi og þá aðeins með a.m.k. 2/3 hlutum greiddra atkvæða. Tillögur þar um skulu hafa borist til stjórnar KRA innan lögbundins frests sbr. 10.gr.
38. gr. Gildistaka
Lög þessi öðlast gildi strax eftir samþykki þeirra á kraftlyfingarþingi 2016.

Lög Kraftlyftingasambands Íslands (KRA) – samþykkt 15. apríl 2010
með breytingum gerð 28.janúar 2012 (10.grein) og 12.mars 2016 (grein nr 8, 14, 15 og 16)