Skip to content

Þrír íslenskir keppendur á EM í kraftlyftingum með búnaði.

Evrópumeistaramótið í kraftlyftingum með búnaði fer fram í Hamm í Luxemburg, dagana 7.–12. maí.
Íslensku keppendurnir eru í góðu formi og eru mættir á keppnisstað ásamt þjálfurum sínum.
Fyrir hönd Íslands keppa þrír öflugir keppendur, þau Alex Cambrey Orrason, Sóley Margrét Jónsdóttir og Guðfinnur Snær Magnússon. Beint streymi er frá mótinu: https://www.youtube.com/@europeanpowerlifting/streams.

Keppnisdagskrá íslenska hópsins:

Alex Cambray Orrason keppir í -93 kg flokki og er að mæta á sitt fimmta Evrópumeistaramót en á síðasta ári náði hann fimmta sætinu á EM. Alex keppir laugardaginn 11. maí kl. 12:30 að íslenskum tíma.

Sóley Margrét Jónsdóttir, sem keppir í +84 kg flokki, á nokkur alþjóðamót að baki. Hún náði þeim frábæra árangri að verða Evrópumeistari á síðasta ári og mun án efa gera harða atlögu að titlinum í ár. Sóley keppir sunnudaginn 12. maí kl. 08:00.

Guðfinnur Snær Magnússon, sem keppir í +120 kg flokki, er að keppa á sínu þriðja EM í opnum flokki en hann varð Vestur-Evrópumeistari í kraftlyftingum árið 2023. Guðfinnur keppir laugardaginn 12. maí kl. 12:30.