María setti nýtt íslandsmet í samanlögðum árangri.

María Guðsteinsdóttir, Ármanni, keppti í dag á HM í kraftlyftingum í Stavanger í Noregi. Hún keppti í -72,0 kg flokki og lenti þar í 10.sæti á nýju íslandsmeti 472,5 kg.

Hún byrjaði á 170 örugglega í beygju, fór svo of grunnt með 180 kg í annarri en kláraði þeirri þyngd í þriðju tilraun. Það er 2,5 kg frá hennar besta árangri. Á bekknum tók hún fyrst 107,5 kg mjög létt, fór svo upp með 112,5 í annarri en fékk ógilt. Hún tók þessa þyngd svo mjög laglega í þriðju tilraun og virtist eiga inni.

Í réttstöðu lyfti hún 172,5 og 180, en 185 reyndist of þungt. Samanlagt endaði hún í 472,5 kg sem er 7,5 kg bæting á hennar eigin íslandsmeti.

Við óskum henni til hamingju með árangurinn og enn eitt metið!

 

ÍM í réttstöðulyftu – úrslit

Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu fór fram á Ísafirði á laugardag. Þetta var fyrsta mót Kraftlyftingafélagsins Víkings og fór það vel fram. Veitt voru vegleg verðlaun og vefútsending var frá mótinu, en það er bæði skemmtilegt og gagnlegt fyrir keppendur og áhorfendur og verður vonandi framhald á því á sem flestum mótum.
María Guðsteinsdóttir, Ármanni, varð stigameistari kvenna á nýju Íslandsmeti 190 kg í -72 kg flokki. Í öðru sæti var Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir, Grótta og í þriðja sæti Solveig Sigurðardóttir, Grótta.
Aron Teitsson, Grótta, vann stigabikar karla með 295,0 kg í -93,0 flokki sem einnig er nýtt íslandsmet. Í öðru sæti var Viktor Samúelsson, KFA og í þriðja sæti Júlían J.K. Jóhannsson, Ármanni.
Stigahæsta liðið var Grótta.
HEILDARÚRSLIT
Viðurkenningar voru veittar fyrir flest stig í aldursflokkum. Emelía Rut Hólmarsdóttir Olsen, Massi, var hæst í stúlknaflokki. Viktor Ben, Breiðablik, var hæstur í drengjaflokki. Í unglingaflokkum kvenna og karl hlutu viðurkenningar Arnhildur Anna Árnadóttir, Grótta og Viktor Samúelsson, KFA. Í öldungaflokkum María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Bjarki Þór Sigurðsson, Breiðablik.

Við óskum öllum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn og þökkum mótshaldara fyrir vel heppnað mót.
Þórður Kr. Sigurðsson, Súðavík tók þessar myndir frá mótinu:

Góður árangur unglingalandsliðsins

hopurHM unglinga er nú lokið. Íslenska unglingalandsliðið gerði góða hluti á þessu móti undir stjórn þjálfara síns. Grétars Hrafnssonar.
Allir kláruðu mótið með góðum persónulegum bætingum. Arnhildur, Viktor og Júlían lentu öll í 6.sæti í sínum flokkum. Viktor Ben vann brons í sínum.
Uppskeran er bronsverðlaun samanlagt, tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun í einstökum greinum, 1 drengjamet, 7 unglingamet og 2 Islandsmet í opnum flokki.
Þetta er mjög góð niðurstaða þó að allir ítrustu draumar hafi ekki ræst.
Við óskum Arnhildi, Viktori Ben, Viktori Samúelssyni, Júlíani, Grétari og liðsstjóranum Borghildi Erlingsdóttur til hamingju og góða ferð heim.

Viktor hafnaði í 6.sæti á nýju Íslandsmeti

Viktor Samúelsson, KFA, hefur lokið keppni í -105,0 kg flokki unglinga á HM. Hann hafnaði í 6. sæti  á nýju Íslandsmeti í opnum flokki og flokki unglinga,
Viktor opnaði með 290 kg í vel útfærðri hnébeygju. Hann kláraði 300 kg í annari af harðfylgi, en það er nýtt Íslandsmet í flokki unglinga og opnum flokki. Hann átti svo góða tilraun við 305 kg en missti jafnvægið og varð að játa sig sigraðan.
Á bekknum opnaði Viktor mjög örugglega með 225 kg. Hann reyndi svo tvisvar við persónulegt met 232,5 kg og var mjög nálægt í þriðju tilraun en náði ekki að klára.
Í réttstöðu opnaði hann á 280 kg létt. Tók síðan 292,5 og setti þar með nýtt Íslandsmet í samanlögðu með 817,5 kg. en það er bæting um 10 kg. Hann lyfti svo 297,5 kg í þriðju tilraun, en kláraði hana ekki nógu vel að mati dómaranna og fékk hana ógilda.
Við óskum Viktori til hamingju með bætingar og ný met í safnið.

Sigurvegari í flokknum var Rússinn Yuri Belkin með 980,0 kg.

Sigfús með nýtt Íslandsmet

Evrópumeistaramótið í bekkpressu lauk í dag með keppni í þyngstu flokkum karla. Hörð keppni var í +120,0 kg og voru Norðurlandabúar áberandi í baráttunni. Fredrik Svensson, Svíþjóð, stóð að lokum uppi sem sigurvegari með 340,0 kg.
ÚRSLIT

Sigfús Fossdal, Ísafirði, keppti fyrir Ísland og lenti í 8.sæti í flokknum. Hann opnaði á nýju Íslandsmeti, 310,0 kg og kláraði það örugglega. Önnur tilraunin, 320,0 kg, misheppnaðist og þá ákvað Sigfús að reyna við 327,5 kg í þriðju og stefna á 5-6.sæti. Miðað við æfingartölur og væntingar fyrir mótið var það ekki óraunhæf melding. Lyftan var á góðri leið þegar hann missti hana út úr ferli og náði því miður ekki að klára.
Sigfús er nú á heimleið, óneitanlega svekktur yfir að hafa ekki náð lengra, en ánægður með nýtt Íslandsmet og innkomu á alþjóðakeppnisvöllinn. Og með ný verkefni og markmið að vinna að.

Við óskum honum til hamingju með mótið og metið.

Góður árangur hjá Aroni

Aron Teitsson, Gróttu, lauk fyrir stundu keppni á HM í klassískum kraftlyftingum í Suzdal í Rússlandi. Hann vigtaði 82,35kg í -83,0 kg  flokki.
Ekki verður annað sagt en að Aron hafi staðið sig mjög vel á sínu fyrsta alþjóðamóti. Hann lyfti af miklu öryggi og fór í gegn með 8 lyftur gildar og endaði í 640 kg samanlagt sem dugði í 7.sætið.

Aron byrjaði mjög létt og örugglega með 210 og 220 í hnébeygju. Hann þurfti að berjast við 230 í þriðju og hafði sigur. Aron er sterkur í bekknum og lyfti þar 160 – 167,5 mjög örugglega og endaði í 4.sæti í greininni. 170 kg í þriðju tilraun reyndist of þungt.
Í réttstöðu lyfti hann 225 – 235 – 242,5 kg og fékk s.s. samtals 640,0 kg.
Sigurvegari í flokknum var rússinn Alexey Kuzmin með 760 kg.

Við óskum Aroni til hamingju með vel heppnað mót og góðan árangur!

Ingimundur með nýtt Íslandsmet

Ingimundur Björgvinsson, Gróttu, keppti í dag á HM í bekkpressu. Hann vigtaði 103,3 kg í -105 kg flokki og endaði í 12. sæti í flokknum sem var fjölmennur og sterkur, og þurfti 300 kg til að ná 6.sætinu.

Ingimundur opnaði á nýju Íslandsmeti 250,0 kg. Hann reyndi síðan við 260 kg í næstu tilraun og svo 265 kg án árangurs og endaði þannig með 250,0 kg.
Ingimundur hafði ætlað sér stærri hluti, en það koma dagar eftir þennan dag.
Hann kemur heim með nýtt Íslandsmet og dýrmæta reynslu og við óskum honum til hamingju með það.

Eftir spennandi lokasprett sigraði Vitaliy Kireev frá Rússlandi með 312,5 kg á undan Petri Kuosma frá Finlandi og Mikael Lundin frá Svíþjóð.
http://goodlift.info/scoresheets/scoresheet_m.htm

Fanney í 4.sæti

Spennandi keppni í -63,0 kg flokki unglinga á HM í bekkpressu lauk í þessu með sigri Yaragina frá Kazakstan. Hún lyfti 132,5 kg.

Fanney Hauksdóttir keppti og vigtaði 58,0 kg inn í flokkinn. Hún gerði ógilt í fyrstu lyftu, en kláraði svo 110 kg í annarri og jafnaði sínu persónulega meti með 115,0 kg í þriðju. Þá tók við bið milli vonar og ótta en raunhæfur möguleiki var að þetta myndi duga í verðlaunasæti. Svo varð þó ekki á endanum, tveir keppinautar skutust fram hjá henni með 117,5 kg og Fanney hafnaði í 4.sæti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.
Við óskum til hamingju með árangurinn.

Auðunn vann til bronsverðlauna á EM

Auðunn Jónsson, Breiðablik, háði harða baráttu um gullið í +120,0 kg flokki á EM í Tékklandi í dag. Hann reyndi við 372,5 í síðustu lyftu, en það hefði dugað í fyrsta sætið samanlagt. Það gekk ekki, en 352,5,0 kg í réttstöðu dugði í gullverðlaun í greininni og bronsverðlaun samanlagt. Sigurvegari var finninn Kenneth Sandvik.
Auðunn lyfti 405 – 282,5 – 352,5 = 1040,0 kg
Hann fékk silfur í beygju, brons í bekkpressu og gull í réttstöðu, og s.s. bronsverðlaun samanlagt.
Við óskum honum til hamingju með frábæran árangur.
Heildarúrslit

photo (2)

María í 6.sæti með tvö ný íslandsmet

1825María Guðsteinsdóttir, Ármanni, keppti á Evrópumeistaramótinu í Tékklandi í dag. Hún lenti í 6. sæti í -72,0 flokki þar sem hún vigtaðist 68,44 kg.
María byrjaði af krafti og átti mjög góða beygjuseríu: 170 – 177,5 – 182,5 sem er 17,5 kg bæting á hennar eigin íslandsmeti í flokknum. Á bekknum endaði hún í 110,0 kg eftir að hafa misst 112,5 í síðustu tilraun. Í réttstöðunni þurfti hún tvær tilraunir með byrjunarþyngd en kláraði svo 172,5 kg í þriðju tilraun.
Samanlagt gerir það 465,0 kg sem er nýtt íslandsmet og 7,5 kg persónuleg bæting í flokknum.
Við óskum Maríu til hamingju með metin og bætingarnar.

Sigurvegari í flokknum var hin danska Annette Pedersen.