HM í bekkpressu

Heimsmeistaramótið í bekkpressu í opnum og aldurstengdum flokkum hefst á morgun í Sundsvall, heimabæ Fredrik Svensson og fleiri frægra bekkpressara, en áhuginn á þessari íþrótt er mikill í bænum og búast má við flottu og vel sóttu móti.
HEIMASÍÐA MÓTSINS 

Tveir íslenski keppendur eru í unglingaflokki. Fanney Hauksdóttir í -63 kg flokki kvenna og Viktor Ben Gestsson í +120 kg flokk karla.

Fanney, sem er á síðasta ári í unglingaflokki, hefur titil að verja, en í fyrra varð hún heimsmeistari unglinga í greininni og átti tilraun við nýtt heimsmet. Hver veit hvað hún gerir í ár, með heilt viðbótarár af æfingum að baki.

Þau keppa bæði á föstudaginn nk og hægt verður að fylgjast með hér:
http://goodlift.info/live.php

 

EM unglinga hefst á morgun

EM unglinga í kraftlyftingum fer fram í Ungverjalandi dagana 7 – 11 april. 128 keppendur frá 18 löndum taka þátt, meðal þeirra eru fjórir íslendingar:
Arnhildur Anna Árnadóttir, Grótta, Júlían J. K. Jóhannsson, Ármanni, Viktor Samuelsson, KFA og Þorbergur Guðmundsson, KDH
Bein útsending frá mótinu verður á netinu: https://www.youtube.com/watch?v=tCL8WhS25Dg  

Arnhildur keppir á fimmtudag, en strákarnir allir á laugardag.
Við óskum þeim öllum góðs gengis.

ÍM unglinga og öldunga

Laugardaginn 21.mars nk verður haldið Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum unglinga og öldunga og fer mótið fram að Hvaleyrarbraut 41, Hafnarfirði, í húsnæði Lyftingafélags Hafnarfjarðar. Framkvæmdi er í höndum hins nystofnaða kraftlyftingadeildar félagsins.
Mótið hefst kl. 11.00. Aðgangseyrir er 500kr fyrir fullorðna, frítt fyrir börn 12 ára og yngri.

Skráðir keppendur eru 23 talsins.
Vigtun hefst kl. 9.00 og keppni kl. 11.00
Að öllu óbreyttu verður keppt í 3 hollum:
Holl1: allar konur
Holl2: karlar 74-93
Holl3: karlar 105-120+

Norðurlandamót unglinga á næsta leiti

Norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum með og án búnaðar fara fram í Portainen, Finnlandi 20 – 21 febrúar nk.
Matthildur Óskarsdóttir, Grótta og Dagfinnur Ari Normann, Stjarnan keppa fyrir Íslands hönd án búnaðar. Í kraftlyftingum með búnaði keppa Blikarnir Guðfinnur Snær Magnússon og Daníel Geir Einarsson og Sindri Freyr Arnarson, Massi

Hér má finna upplýsingar um keppendur og tímaplan.https://npfpower.wordpress.com/

ÍM unglinga á laugardag

Fyrsta Íslandsmeistaramót drengja/stúlkna og unglinga í klassískum kraftlyftingum fer fram á Akureyri á laugardag í umsjón KFA.
19 ungmenni eru skráð til leiks: KEPPENDUR

Mótið hefst kl. 13.00, vigtun kl. 11.00
Allar nánari upplýsingar veitir Grétar Skúli Gunnarsson 848 4460

 

Arnhildur hefur lokið keppni

Arnhildur Anna Árnadóttir átti ekki góðan dag á HM unglinga í dag þar sem hún keppti í -72 kg flokki. Hún náði ekki að klára mótið, fékk 3 gildar lyftur af 9 og féll úr í bekkpressu.
Arnhildur opnaði á 190 kg í hnébeygju og átti tvær góðar tilraunir við bætingu í 197,5 kg en það reyndist of þungt.
Í bekkpressu gekk ekkert upp, hún átti þrjár misheppnaðar tilraunir við 105 kg og féll með því úr keppni.
Hún hélt áfram og tók 165 – 172,5 í réttstöðu og sá smugu til að komast í verðlaunasæti í greininni með 187,5 kg. Hún reyndi við þyngdina, en það hafðist ekki.

Svíar gjörsigruðu flokkinn. Heimsmeistari varð Marie Tunroth með 552,5 kg á undan löndu sinni Elina Rønnquist.

Næstur á keppnispall fyrir Ísland er Einar Örn Guðnason. Hann keppir á morgun, föstudag, í -93 kg flokki unglinga og hefst keppnin 14.30 að staðartíma.

 

Camilla hefur lokið keppni

Camilla Thomsen keppti í dag á HM unglinga í Ungverjalandi.
Henni tókst ekki ætlunarverk sitt, að bæta heildarárangur sinn og var það helst bekkurinn sem eyðilagði fyrir henni.
Hún byrjaði á nýju Íslandsmeti unglinga í beygju og kláraði 150 kg i fyrstu tilraun. Tvær tilraunir við 157,5 voru of grunnar.
Á bekknum setti hún öryggið í fyrirrúmi og lyfti fyrst 55 kg, en þegar hún fór í slopp
og reyndi við 80 kg mistókst henni í báðum tilraunum.
Í réttstöðu lyfti hún 145 kg í fyrstu tilraun en mistókst tvisvar með tilraun til bætingu 157,5 kg. Camilla endaði því í 10.sæti með 350 kg og 3 gildar lyftur.
Miðað við markmið verður það að teljast ákveðin vonbrigði. Sárabótin er nýtt Íslandsmet
unglinga í hnébeygju og stórt innlegg í reynslubankann.
Sigurvegari í flokknum var Olga Adamovich frá Rússlandi sem lyfti 537,5 kg

Á morgun keppir Arnhildur Anna Árnadóttir í -72 kg flokki..

ÍM unglinga í klassískum kraftlyftingum – breytt dagsetning

KFA hefur í samráði við mótanefnd KRAFT ákveðið að breyta dagsetningu á ÍM unglinga í klassískum kraftlyftingum. Mótið fer fram á Akureyri dagana 20.og 21.september nk.

Keppnin verður tvískipt. Annarsvegar íslandsmeistaramót drengja og stúlkna flokki (14-18 ára) á laugardeginum og hinsvegar unglingaflokki kvenna og karla (19-23 ára) á sunnudeginum.

Dagfinnur setti þrjú ný Íslandsmet

Dagfinnur Ari Normann, Stjarnan, keppti í dag á HM unglinga í klassískum kraftlyftingum í Suður-Afríku. Hann keppti í -74 kg flokki.
Dagfinnur byrjaði mjög örugglega á nýju íslandsmeti unglinga í hnébeygju, 195 kg og bætti um betur með 202,5 kg í annarri tilraun. Hann reyndi svo við 207,5 kg í þriðju en það tókst ekki i þetta sinn.
Á bekknum byrjaði Dagfinnur með 135 kg sem einnig er nýtt unglingamet.Hann átti svo tvær ógildar tilraunir við 142,5 kg.
Í réttstöðu tók hann 210 –  220 – 225 kg
Þar með endaði hann í  562,5 kg sem er persónuleg bæting og bæting á íslandsmeti unglinga um 15 kg.
Það dugði í 6. sæti. Við óskum Dagfinni til hamingju með bætingarnar.

Sigurvegarinn í flokknum var kanadamaðurinn Josh Hancott með nýtt heimsmet unglinga 681,5 kg

Á morgun lyftir Elín Melgar. Keppnin hefst kl. 7.00 að íslenskum tíma.

Einar Örn á pallinn á EM

Einar Örn Guðnason frá Kraftlyftingafélagi Akraness átti góðan dag á EM unglinga í dag. Hann vigtaði 92,45 kg í -93 kg flokki.
Einar lét ekki slaka stangarmenn slá sér út af laginu og opnaði létt á nýju Íslandsmeti unglinga í hnébeygju, 280 kg.Hann bætti síðan metið og persónulegan árangur sinn með 20 kg þegar hann lyfti 290 kg mjög örugglega í næstu tilraun. Einar átti svo mjög góða tilraun við 300 kg, en munaði hársbreidd og þriðja lyftan var dæmd ógild.
Bekkurinn er sérgrein Einars, en þar opnaði hann á 200 kg sem er jöfnun á Íslandsmeti í flokknum. Hann setti síðan nýtt unglingamet með 207,5 kg í annarri.
Í þriðju tilraun gerði hann sér lítið fyrir og lyfti 212,5 kg glæsilega, en það dugði honum til verðskuldaðra bronsverðlauna í greininni.
Í réttstöðu opnaði hann frekar klaufalega á að láta dæma 250 kg ógilt hjá sér en kláraði svo 255 kg í annari tilraun. Hann reyndi svo við 272,5 kg í síðustu en mistókst.
Einar endaði því í 6.sæti með 757,5 kg í samanlögðu. Það er nýtt Íslandsmet unglinga og persónuleg bæting um 37,5 kg og geri aðrir betur.
Sigurvegari í flokknum var Julian Lysvand frá Noregi með 825 kg

Við óskum Einari til hamingju með góða frammístöðu, ný íslandsmet og bronsverðlaun í bekkpressu.

Á morgun, sunnudag, keppir Júlían Jóhannsson og hefst keppnin kl. 8.00 á íslenskum tíma.

einarorn