Halldór vann til bronsverðlauna

Halldór Eyþórsson vann í dag bronsverðlaun á EM öldunga í kraftlyftingum.
Hann lenti í þriðja sæti í -83,0 kg flokki karla 50-60 ára með samtals 637,5 kg.
HEILDARÚRSLIT

Halldór fékk auk þess silfurverðlaun í hnébeygju með 252,5 kg. Í bekk tók Halldór 140 kg og átti tvær tilraunir við 145,0 kg en það reyndist of þungt í dag.
Í réttstöðu lyfti Halldór 245 kg. Honum mistókst við 250 kg í þriðju tilraun og hann varð þess vegna að naga neglurnar og bíða á meðan keppninautar hans gerðu harða atlögu að bronsinu.
Á endanum reyndist Halldór vera sá sterkasti og við getum  óskað honum til hamingju með bronsið, hann er vel að verðlaunum kominn.

Erik Rasmussen fra Danmörku sigraði í flokknum með 692,5 kg.

Sæmundur hefur lokið keppni

Sæmundur Guðmundsson, Breiðablik, lauk í dag keppni á EM öldunga í Tékklandi.

Sæmundur lyfti í -66,0 kg flokki karla M3.

Honum gékk því miður ekki sem skyldi á mótinu og fékk eingöngu tvær gildar lyftur í gegn. Í beygju reyndi hann þrisvar við 150,0 kg en fékk ógilt í öll skipti vegna tæknimistaka. Á bekknum lyfti hann 90,0 kg í fyrstu tilraun örugglega en mistókst svo tvisvar með 100 kg. Í réttstöðu opnaði hann í  170,0 kg en mistókst tvisvar með 182,5 kg.
Sæmundur  fékk þess vegna engan samanlagðan árangur á sínu fyrsta alþjóðamóti.

Það eru vonbrigði fyrir Sæmund að ná ekki að klára mótið eins og til stóð, en við getum óskað honum til hamingju með tvenn bronsverðlaun, í bekkpressu og réttstöðulyftu.

Það er gaman að stíga á verðlaunapall með íslenska fánann á bringunni. Vonandi verður sú reynslu bæði huggun og hvatning fyrir hann í framhaldinu.

EM öldunga

Á morgun hefst í Plzen í Tékklandi Evrópumót öldunga í kraftlyftingum. Þrír íslenskir keppendur taka þátt.

Í -120,0 kg flokki karla M1 keppir Fannar Dagbjartsson. Í flokki -83,0 kg karla M2 keppir Halldór Eyþórsson og í flokki -66,0 kg karla M3 keppir Sæmundur Guðmundsson.  Þeir eru allir félagar í Breiðablik.

Þeir eiga allir góða möguleika á verðlaunasætum, bæði í einstökum greinum og samanlögðu.
Fannar hefur æft mjög vel og ætlar sér stóra hluti á mótinu. Í fyrra vann hann til bronsverðlauna og fékk silfur og brons í greinunum – í ár er markmiðið að bæta gull í safnið.  Halldór er í góðu formi og hefur mikla reynslu sem ætti að nýtast honum í keppni sem gæti orðið mjög spennandi, en mjög jafnt virðist vera á með mönnum í hans flokki. Í fyrra vann hann til bronsverðlauna í beygju og réttstöðu en mistókst í bekk og féll úr keppni í samanlögðu. Hann ætlar að bæta úr því í ár. Sæmundur hefur létt sig niður um flokk og er óskrifað blað í -66,0 flokki. Hann býr og æfir í Noregi og að sögn hafa æfingar gefið tilefni til bjartsýnis.

Sæmundur keppir á morgun, þriðjudag, kl. 14.00 að staðartíma.
Halldór keppir á fimmtudag kl. 10.00 og Fannar á laugardag kl. 11.00.

Heimasíða mótsins: http://www.powerlifting-czech.eu/index.html
Keppendalisti: http://goodlift.info/onenomination.php?cid=232

Við óskum þeim góðs gengis á mótinu.

Halldór keppir á morgun

Evrópumót öldunga í kraftlyftingum stendur nú yfir í Tékklandi og keppa tveir Íslendingar á mótinu.
Á morgun miðvikudag keppir Halldór Eyþórsson í -83,0 kg flokki karla 50-59 ára.
Hann byrjar kl.15.00 á íslenskum tíma og er hægt að fylgjast með í beinni vefútsendingu hér: http://goodlift.info/live.php
7 keppendur eru í flokknum og ef vel gengur á Halldór góða möguleika á að vinna til verðlauna.
Við óskum honum alls hins besta.

Halldór á Kópavogsmótinu 2010
11

EM öldunga

Evrópumót öldunga í kraftlyftingum fer fram í Tékklandi dagana 5. – 9. júlí nk. Tveir keppendur frá Íslandi taka þátt, þeir Fannar Dagbjartsson og Halldór Eyþórsson, báðir úr Breiðablik. Fannar keppir í 120,0 kg flokki karla 40-49 ára og Halldór í 83,0 kg flokki karla 50 – 59 ára. Þeir eru báðir reyndir keppendur og geta vel unnið til verðlauna á góðum degi, en við munum segja fréttir af gengi þeirra hér.
Heimasíða mótsins: http://www.powerlifting-czech.eu/