Ísland leiðir NPF

Þing NPF, Norðurlandasambandið í kraftlyftingum, fór fram í Svíþjóð um helgina. Nokkrar veigamiklar ákvarðanir voru teknar á þinginu og verður fundargerðin birt þegar hún liggur fyrir samþykkt.
Meðal annars var samþykkt að láta formennska í sambandinu ganga hringinn milli aðildarþjóðanna til skiptis. Ísland ríður á vaðið og leiðir sambandið næstu tvö árin. Sigurjón Pétursson hefur tekið við formennsku í NPF og Gry Ek hefur tekið starf ritara.

Jóhanna Norðurlandameistari

Jóhanna Þórarinsdóttir, Breiðablik, varð í dag Norðurlandameistari kvenna í flokki -72,0 kg í Örebro í Svíþjóð. Jóhanna lyfti 112,5 kg.
Þetta var fyrsta alþjóðamót Jóhönnu og þurfti hún tvær tilraunir til að setja tæknina almennilega að kröfum dómara, enda var dómgæslan eins og hún á að vera: nákvæm. Í þriðju tilraun var hún búin að ná því, og negldi 112,5 kg eins og ekkert væri. Það dugði í fyrsta sætið.
Karolina Arvidson, einhver reyndasti bekkpressari Evrópu, var aðstoðarmaður Jóhönnu á mótinu.
Jóhanna átti tvö markmið fyrir mótið, að ná titlinum og að setja Íslandsmet. Hún náði öðru, Íslandsmetið kemur næst. Það var öllum ljóst að Jóhönnu skorti ekki styrk, hún á mikið að sækja í bættri tækni.
Reynslunni ríkari kemur Jóhanna heim með gullverðlaun í vasanum. Við óskum henni til hamingju með árangurinn.

Jóhanna keppir á sunnudag

Norðurlandamótin í kraftlyftingum og í bekkpressu fara fram í Örebro í Svíþjóð um helgina.
Jóhanna Þórarinsdóttir, Breiðablik, keppir á sunnudag í -72,0 kg flokki kvenna. Jóhanna hefur sérhæft sig í bekkpressu og æft stíft í sumar með það fyrir augum að setja íslandsmet í greininni og vinna þennan titil.
Við óskum Jóhönnu góðs gengis.
Heimasíða mótsins: http://orebrokk.org/NM/index.htm

Landslið unglinga

Landsliðsnefndin auglýsir eftir ungum kraftlyftingakonum og -mönnum sem eiga erindi á Norðurlandamót unglinga 2013. Mótið verður haldið á Íslandi helgina 23 – 24 febrúar.
Landsliðsnefndin vill gefa sem flestum tækifæri til að vera með, enda gefur þátttaka á sterku alþjóðamóti ómetanlega reynslu.
Æfingar fyrir mótið eru að hefjast, enda ekki seinna vænna.
Strákar og stelpur á aldrinum 14 – 23 ára sem hafa áhuga skulu hafa samband við Grétar Hrafnsson strax. [email protected]

Unglingalandslið 2013

Norðurlandamót drengja/stúlkna (14 – 18 ára) og unglinga (19 – 23 ára) verður haldið á Íslandi 23 – 24 febrúar nk.

Kraftlyftingasambandið vill nota þetta tækifæri til að vekja athygli á íþróttina og gefa ungum kraftlyftingamönnum hvatningu til bætinga. Það er  stefna landsliðsnefndar að gefa sem flestum ungum íslenskum kraftlyftingamönnum tækifæri til að vera með og keppa á heimavelli, en 11 strákar og 10 stúlkur mega taka þátt frá hverju landi.

Landsliðnefndin hefur beðið félögin um aðstoð við að finna efnileg ungmenni sem eiga erindi í keppnina. Þeir sem hafa áhuga á að spreyta sig og vilja komast í hópinn ættu að hafa samband við sitt félag sem allra fyrst.

Lika er hægt að hafa beint samband við Guðjón,  861 4419, Kára 695 3348 eða Grétar [email protected] til að koma sér á framfæri.

 

Árangur Guðrúnar og Ólafs á Norðurlandamóti unglinga

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir og Ólafur Hrafn Ólafsson hafa lokið keppni á Norðurlandamóti unglinga sem fram fór í Noregi í dag. Þau koma heim á morgun, án verðlauna en reynslunni miklu ríkari.

Guðrún Gróa tók 150 kg í hnébeygju og fór tvisvar upp með 167,5 of grunnt og fékk ógilt í bæði skiptin. Á bekknum gekk allt á afturfótunum og henni mistókst þrisvar með 110,0 vegna tæknilegra mistaka.  Í réttstöðulyftu tók hún 162,5 kg vel og reyndi við 170 kg í þriðju tilraun en rétt missti henni.
Guðrúnu tókst s.s. ekki að ná sínum markmiðum og ljúka keppni. Það er ekki skemmtileg reynsla, en vonandi stappa vonbrigðin stálið í Guðrúnu frekar en að draga úr henni máttinn.  Nú veit hún hvað þarf að laga.

Ólafur lyfti 250 kg í hnébeygju í annari tilraun. Á bekknum lyfti hann 145,0 kg og mistókst tvisvar með 165,0 kg. Í réttstöðulyftu setti hann nýtt íslandsmet unglinga með 252,5 kg í annari tilraun. Samtals lyfti hann því 647,5 kg. Hann var ekki ánægður með beygjurnar og bekkinn, enda lyfti hann meira á Íslandsmótinu í mars.

Mótið var sterkt og dómgæsla vönduð og nákvæm.
Íslensku keppendurnir náðu ekki sínum markmiðum í þetta skiptið. Að mæta sér sterkari og reyndari andstæðingum á erlendum vettvangi er meira en að segja það og reynsla sem getur dugað menn í góðar bætingar. Þau hafa fengið verkefni til að takast á við og munu örugglega koma sterkari tilbaka næst.

Heildarúrslit verða birt um leið og þau berast.