Bikarmót KRAFT 2012

Bikarmót KRAFT fór fram á heimavelli Ármanns sl laugardag.
Bikarmeistarar urðu Hildur Sesselja Aðalsteinsdóttir og Aron Lee Du Teitsson, bæði úr Gróttu.

Hnébeygjubikarana unnu Hildur Sesselja og Halldór Eyþórsson, Breiðablik.
Bekkpressubikarana unnu Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir, Grótta og Sigfús Fossdal, KFA.
Sterkust í réttstöðu voru Jónína Sveinbjarnardóttir, Breiðablik og Aron Lee.
Stigahæsta félagið var Breiðablik sem sigraði í 7 þyngdarflokkum karla og kvenna.
HEILDARÚRSLIT

Mörg Íslandsmet féllu á mótinu ekki síst í yngri flokkum. Massadrengirnir notuðu tækifærið til að skilja eftir sig drengjamet fyrir áramót og lagði Daði Már undir sig heila blaðsíðu í metaskránni. Gróttustelpurnar í léttara flokkunum halda áfram að bæta metin og er 140,0 kg hnébeygja Hildar í -52 kg flokki besta dæmið um það. Jónína Sveinbjarnadóttir, Breiðablik, átti glæsilega innkomu og bætti bæði beygju- og réttstöðumetið í -72,0 kg flokki á sínu fyrsta móti.
Sigfús Fossdal hóf endurkomu sína á keppnispallinn með því að setja íslandsmet í bekkpressu single lift með 300 kg. Hann lyfti fyrir KFA en er búinn að stofa Kraftlyftingafélag Ísafjarðar og bíður eftir afgreiðslu laganefndar ÍSÍ til að hljóta fulla löggildingu. Félagið hefur þegar tekið að sér að halda Íslandsmótið í réttstöðu 2013.

Skráðir keppendur voru 41 og mættu misvel undirbúnir undir keppni. Töluvert brottfall, eða 37,5%, varð í karlaflokkum þar sem mönnum mistókst að lyfta samkvæmt reglum og hafði það í för með sér óvænt úrslit, t.d. í -120 kg flokki þar sem hinn 15 ára gamli Guðfinnur Snær Magnússon stóð uppi sem sigurvegari með góðum og gildum lyftum. Konunum tókst betur til og hlutu allar náð fyrir augum dómaranna sem voru Helgi Hauksson, Hörður Magnússon, María Guðsteinsdóttir, Fannar Dagbjartsson, Guðjón Hafliðason og Sturlaugur Agnar Gunnarsson.
Míkið mæddi á þeim og öðrum starfsmönnum á mótinu. Ekki síst á stangarmönnum sem þurftu stundum að grípa inn og bjarga málum og stóðu sig með mikilli prýði.
Þulir á mótinu voru Sigurjón Pétursson og Júlían J.K. Jóhannsson.

Alvarlegt óhapp átti sér stað baksviðs og setti nokkuð mark sitt á mótið.
Fyrir hönd allra sendum við Erlu Kristínu góðar batakveðjur og Ármenningum kærar þakkir fyrir skemmtilegan dag og góðar vöfflur.
Í framhaldinu af mótinu var efnt til veislu og tókst hún vel.

María með þrjú ný Íslandsmet

María Guðsteinsdóttir, Ármanni, keppti í dag á sínu 6.heimsmeistaramóti í kraftlyftingum, en mótið stendur nú yfir í Puerto Rico. María vigtaði 62,8 kg í fjölmennum hópi kvenna í -63,0 kg flokki.

Hún byrjaði í 160 kg í hnébeygju mjög örugglega. Nýtt Íslandsmet, 167,5 kg fór upp í annarri tilraun, en svo virtist sem María hafi ekki hitt nógu vel á lyftuna og þurfti að berjast af hörku. Í þriðju tilraun bættu hún um betur og lyfti 172,5 kg.

Á bekknum kláraði María 97.5 kg í fyrstu tilraun, en mistókst því miður með 102,5 kg í næstu tveimur tilraunum, sem voru ákveðin vonbrigði.

Í réttstöðulyftu byrjaði María auðveldlega í 160,0 kg. Hún hélt áfram með 172,5 kg og sýndi tilþrif með 180 kg í þriðju og átti inni. Þetta er nýtt Íslandsmet í flokknum, og samanlagður árangur  450,0 kg er besti árangur Marí um árabil og einnig nýtt Íslandsmet.

Larysa Soloviova, Úkraína, sigraði í flokknum á nýju heimsmeti, 633,0 kg, en María endaði í 11.sæti. HEILDARÚRSLIT
Við óskum henni til hamingju með árangurinn og metin.

Réttstöðumótsmet

Arnhildur Anna Árnadóttir, María Guðsteinsdóttir, Dagfinnur Ari Normann og Aron Lee Du Teitsson settu íslandsmet  á Íslandsmeistarmótinu í réttstöðu í gær. Það eru svokölluð réttstöðumótsmet, single lift met. Þau verða gjarnan hærri  en almenn met í réttstöðu sem eru skráð á kraftlyftingamótum þar sem menn hafa áður tekið bæði hnébeygjur og bekkpressur.

IPF gerir ekki ráð fyrir sérstökum mótum og metum í réttstöðu, þar er bekkpressan eina greinin sem keppt er í sérstaklega, og er það ástæða þess að hið alþjóðlega tölvukerfi á mótinu í gær hélt að verið væri að keppa í “bench press”.
Á Íslandi hefur hins vegar réttstöðulyftan alltaf verið í miklu uppáhaldi og í þeirri grein hafa íslenskir keppendur gjarnan náð lengst á alþjóðavettvangi. Skemmst er að minnast þess að Júlían Jóhannsson vann gull í greininni á HM unglinga í ágúst sl.

KRAFT hefur þess vegna sett sér-íslenskar reglur um slík mót og met, og fer framkvæmdin fram í samræmi við reglur IPF um bekkpressumót.

Silfurverðlaun á EM og nýtt heimsmet.

Auðunn Jónsson, Breiðablik, keppti á EM í dag og vann þar silfurverðlaun í réttstöðulyftu eftir harðri atlögu að gullinu. Auðunn gerði seríuna 407,5 – 275 -357,5 = 1040,0 kg, og hafnaði í 5 sæti í flokknum. Auðunn vigtaði 137,4 kg og náði með þessu besta árangur sinn á stigum í mörg ár.
Auðunn vann silfurverðlaun í réttstöðulyftu og setti í leiðinni heimsmet í samanlögðu í flokki öldunga M1 með glæsilegu 1040,0 kg.
Beygjan og samanlagður árangur eru ný Íslandsmet.

Við fögnum þessu og óskum Auðun til hamingju með silfrið, metin og flottan árangur.

Í hnébeygju fengum við að sjá keppni aldarinnar þar sem meirihluti tilrauna voru 400+. Auðunn opnaði létt í 375,0 kg, fékk 395,0 ógilt en lét það ekki á sig fá og kláraði 407,5 kg af öryggi í þríðju umferð og setti um leið nýtt Íslandsmet.
Beygjukeppnin endaði svo með því að Carl Yngvar Christensen tók menn í kennslustund og setti nýtt heimsmet með 445,0 kg.

Á bekknum féllu margir úr keppni. Auðunn opnaði létt í 267,5 kg. Hann fékk síðan því miður ógilt 275,0 í annarri tilraun vegna tæknimistaka og endurtók þá þyngd í þriðju tilraun. Kenneth Sandvik, Finnlandi, sigraði ekki óvænt með 327,5 kg.

Í réttstöðu opnaði Auðunn létt með 332,5 kg og bað svo um 357,5 sem gaf lokatöluna 1040,0 og nýtt heimsmet í aldursflokknum.
Auðunn hafði forustu  í réttstöðulyftu fyrir síðustu umferð. Hann reyndi við 367,5 sem hefði dugað í gullið, en varð að játa sig sigraðan á síðustu centimetrunum.

Evrópumeistari í flokknum varð Carl Yngvar Christensen sem kom, lyfti og sigraði á sínu fyrsta fullorðinsmóti á nýju heimsmeti samanlagt 1135,0 kg.

María barðist um verðlaun i réttstöðu

María Guðsteinsdóttir, Ármanni, hefur lokið keppni á EM í Úkraínu. Hún vigtaðist 62,8 kg í -63,0 kg flokki.
María tók seríuna 162,0 – 100 – 177,5 = 440 kg. Réttstöðulyftan og samanlagur árangur eru ný Íslandsmet og þetta er besti árangur Maríu á stigum í langan tíma. Við óskum henni til hamingju með árangurinn og nýju metin.

Í réttstöðu lenti María í 4.sæti. Í þriðju tilraun hækkaði hún sig úr 182,5 í 185,0 í tilraun til að komast á verðlaunapallinn.  Það mistókst í dag, en það er gaman að sjá að verðlaunasæti í þessari grein er innan seilingar fyrir Maríu.

Eftir harða baráttu við Orsini frá Ítalíu sigraði Dubenskaya frá Rússlandi í flokknum. Hún lyfti 542,5 kg.

Íslandsmeistaramót í bekkpressu – úrslit

Vöðvamassastuðullinn á Akranesi hækkaði svo um munaði í dag þegar kraftlyftingamenn og -konur af öllu landinu komu þar saman til að þinga og keppa um íslandsmeistaratitlana í bekkpressu.
Hið fámenna kraftlyftingafélag Akraness var gestgjafi og var framkvæmd mótsins og umgjörð þeim til míkils sóma.
Stigaverðlaunin unnu þau María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Auðunn Jónsson, Breiðablik og við óskum þeim til hamingju. Það er ekki í fyrsta sinn sem þau hampa þessum bikurum, en í þetta skiptið  þurftu þau bæði að hafa fyrir sigurinn og landaði honum í síðustu tilraunum sínum.
HÉR MÁ SJÁ HEILDARÚRSLIT – við óskum öllum nýkrýndum Íslandsmeisturum til hamingju með árangurinn.

Mjög jafn var á mununum í nokkrum flokkum, en hvergi þó eins jafn og í slagnum um þriðja sætið í -74,0 kg flokki karla. Tveir keppendur Dýri og Finnur Freyr lyftu 132,5 kg og báðir vigtuðu 71,85 kg. Nákvæmlega. Þess vegna þurfti að beita e-lið í fyrsta grein keppnisreglna og vann Finnur Freyr þriðja sætið þar sem hann hafði lægra rásnúmer. (Forritið okkar gerir ekki ráð fyrir svona tilfellum, svo röðin er ekki rétt eins og hún er nú á listanum. Það verður lagfært.)

Hin nýstofnaða kraftlyftingadeild Gróttu vann liðabikarinn og gátu farið með hann á þorrablót Gróttu í kvöld, sigri hrósandi.
Nokkur íslandsmet féllu á mótinu, bæði í opnum og aldurstengdum flokkum.

Míkil þátttaka var að þessu sinni og mættu bæði þaulreyndir og lítt reyndir keppendur. Margir bættu sig verulega, aðrir ætluðu sér um of eða mistókst af öðrum ástæðum.
Í -105 kg flokki karla var hörkukeppni um sæti og íslandsmet, en heimamaðurinn Einar Örn Guðnason stóð á endanum uppi með pálmann í höndunum og nýtt Íslandsmet í vasanum.

Ástæða er til að nefna sérstaklega unga konu úr Gróttu, Fanney Hauksdóttur, sem keppti í -57,0 kg flokki kvenna. Fanney er í unglingaflokki ennþá, en hún lyfti 95,0 kg og átti tilraun við 98,0 kg. Fanney hefur áður keppt í fimleikum, en við sjáum sífellt oftar að kraftlyftingafélögin fá til sín iðkendur úr öðrum íþróttagreinum.

Í tengslum við mótið voru afhent nokkrar viðurkenningar fyrir árangur á síðasta keppnistímabili. Kraftlyftingamenn ársins, María Guðsteinsdóttur og Fannar Dagbjartsson, fengu heiðursskjöld frá Kraft og Kraftlyftingafélag ársins 2011, Massi, fékk loksins í hendurnar bikarinn góða sem þeir unnu til  í fyrra og fékk kraftlyftingaheimurinn þar tækifæri til að hylla þessu fyrirmyndarfólki með öflugu lófataki.

Við óskum enn og aftur öllum sigurvegurum og nýjum methöfum til hamingju.
Kraftlyftingafélag Akraness er þakkað fyrir öll handtökin við framkvæmd þessa Íslandsmót.