Vegleg gjöf

Kraftlyftingadeild Massa gerði það ekki endasleppt á byrjendamótinu sem fór fram í Njarðvíkum í dag. Að loknu dómaraprófi og byrjendamóti var öllum boðið í kaffi og tertu þar sem þátttakendaviðurkenningar voru afhentar og nýfengin dómararéttindi handsöluð. Síðan kvaddi Herbert Eyjólfsson, formaður Massa, sér hljóðs og afhenti Kraftlyftingasambandi Íslands veglega gjöf. Það voru glæný keppnisljós frá Eleiko. Sigurjón Pétursson, formaður Kraft, tók við gjöfinni og þakkaði fyrir.
Ljósin koma að góðum notum og nýtast öllum mótshöldurum. Enn eitt skrefið hefur verið tekið í áttina að því að gera mótin okkar eins og best gerist erlendis.

Byrjendamót á laugardag

Byrjendamót í kraftlyftingum fer fram í íþróttahúsinu í Njarðvíkum laugardaginn 28.maí í umsjón Massa.
Íþróttahúsið er við  Norðurstíg 4.
Vigtun er klukkan 9.00 og mótið hefst kl. 11.00

Skráðir keppendur eru:
Hulda Waage (72) – Breiðablik
Daði Már Jónsson (66) – Massi
Dagfinnur Ari Normann (74) – Kraftlyftingafélag Garðabæjar – Heiðrún
Davíð Birgisson (74) – Massi
Steinar Freyr Hafsteinsson (74) – Massi
Páll Matthíasson (83) – Ármann
Ari Elberg Jónsson (83) – Breiðablik
Ellert Björn Ómarsson (83) – Massi
Jón Sævar Brynjólfsson (-83) – Kraftlyftingafélag Garðabæjar – Heiðrún
Þórarinn Jónmundsson (105) – Kraftlyftingafélag Seltjarnarness – Zetorar
Tómas Dan Jónsson (105) – Kraftlyftingafélag Garðabæjar – Heiðrún
Daníel Geir Einarsson (120) – Selfoss

Unglingasamstarf

Samstarf er að hefjast milli Kraftlyftingasambands Íslands og Noregs og félags í Bretlandi um mótahald á unglingastigi. Norðmenn og Bretar hafa í nokkur ár boðið hvort öðru til keppnis árlega og nú er Íslendingum í fyrsta sinn boðið að vera með. Í ár fer mótið fram í Noregi, á næsta ári í Bretlandi og svo er stefnan að bjóða til Íslands 2013. Í ár verða Bretarnir að vísu ekki með, þar sem félagið heldur Evrópumót unglinga um svipað leyti.

Að þessu sinni fara frá Íslandi fjórir drengir úr UMFN – Massa, þeir Ellert Björn, Davíð, Daði Már og Steinar Freyr. Þjálfari þeirra, Sturla Ólafsson, verður með í för ásamt Gunnlaug Olsen og Gry Ek. Mótið fer fram í Brummunddal, í umsjón kraftlyftingafélags staðarins 18. júni.

Aðaltilgangur mótsins er að gefa ungum kraftlyftingardrengjum og -stúlkum tækifæri til að hittast og reyna með sér, fá keppnisreynslu og skemmta sér saman. Eftir keppninni sjálfri verður boðið upp á fræðslu og samveru.

Íslandsmeistaramót 2011

Massi, lyftingardeild UMFN bauð til sannkallaðrar veislu í íþróttahúsi Njarðvíkur á laugardaginn, þar sem fram fór Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum í opnum og aldurstengdum flokkum. Metnaðarfullur og góður undirbúningur skilaði sér og búið er að setja nýjan standard fyrir mótahald framtíðarinnar.

30 keppendur frá sjö félögum mættu til leiks.
Stigahæst kvenna varð María Guðsteinsdóttir, Ármanni, sem lyfti 422,5 kg í -72,0 kg flokki. Í karlaflokki var stigahæstur Fannar Dagbjartsson, Breiðablik, sem lyfti 835,0 kg í -120,0 kg flokki. Stigahæsta félagið var Ármann og tóku þeir þar með afgerandi forustu í stigakeppni liða.
Mörg Íslandsmet voru sett í hinum ýmsum þyngdar- og aldursflokkum, enda var keppt í nýjum þyngdarflokkum í fyrsta skipti. Heildarúrslit má finna á http://results.kraft.is/meet/islandsmeistaramot-i-kraftlyftingum-2011. Þar er líka að finna yfirlit yfir allar metalyftur, en til að setja Íslandsmet í nýju þyngdarflokkunum þurftu keppendur að fara yfir þau lágmörk sem voru ákveðin af stjórn Kraft í upphafi árs.

Í kvennaflokki hefur María Guðsteinsdóttir verið ósigrandi hér heima undanfarin ár en í þetta skiptið var það önnur kona úr Ármanni sem vakti mesta eftirtekt, nefnilega Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir sem lenti í öðru sæti á stigum. Guðrún vigtaði 72,85 kg og var þess vegna mjög létt í -84,0 kg flokki sem hún keppti í. Hún lyfti 415,0 kg á sínu fyrsta móti  og verður það að teljast athyglisverður árangur – ekki síst í ljósi þess að Guðrún er ennþá í unglingaflokki. Kvennalið Ármanns er að eflast með hverju ári og hefur verið duglegt að afla stiga fyrir félagið.

Tvö önnur félög áttu keppendur í kvennaflokki. Hulda Waage, Breiðablik og Rósa Birgisdóttir, Selfossi, kepptu nú báðar á sínu fyrsta móti í öllum greinum en hafa báðar keppt í réttstöðu áður. Þær kláruðu mótið vel. Rósa bætti sig áberandi í réttstöðulyftu en það er grein sem virðist liggja mjög vel fyrir henni.

Í karlaflokki sigraði Fannar með nokkrum yfirburðum en hann hefur bætt árangur sinn verulega undanfarið. Hörð keppni var um næstu sæti í stigakeppninni, en Halldór Eyþórsson líka úr Breiðabliki hreppti annað sætið og efnilegur nýr keppandi frá KFA, Viktor Samúelsson það þriðja. Margir, ef ekki flestir keppendur sýndu góðar bætingar og athyglisverðan árangur sem yrði langt mál að telja upp.
Við óskum öllum nýbökuðum Íslandsmeisturum og methöfum til hamingju með árangurinn.

Þess má geta að þrír félagar úr kraftlyftingadeild Breiðabliks komu alla leið frá Noregi til að taka þátt í mótinu og höfðu með sér reyndan aðstoðarmann,  þjálfara norska bekkpressulandsliðsins Helge Sviland.

Í lok mótsins var Stefán Sturla Svavarsson, aka Spjóti, kallaður fram. Spjóti á langa og góða sögu að baki í kraftlyftingum og hélt upp á fimmtugsafmælið sitt  eins og slíkum manni sæmir, með því að taka þátt í Íslandsmóti á heimavelli. Stjórn Kraft, fyrir hönd allra vina Spjóta innan sambandins, afhenti honum heiðursskjal og blómvönd í tilefni afmælisins og áhorfendur tóku undir í afmælissönginum honum til heiðurs.

Dómarar á mótinu voru Guðrún Bjarnadóttir, Geir Þórólfsson, Guðjón Hafliðason, Hörður Magnússon, Herbert Eyjólfsson og Klaus Jensen. Þulur var Sigurjón Pétursson. Á borðinu unnu Gunnlaug Olsen, Kári Rafn Karlsson, Haukur Guðmundsson og Gry Ek og Ármann yfirstangamaður stjórnaði sveit vaskra manna á pallinum. Ótal aðrir sjálfboðaliðar lögðu hönd á plóg og eiga þakkir skildar.

Liðakeppnin 2010 – úrslit

Úrslit liggja nú fyrir í keppninni um titilinn Kraftlyftingafélag ársins 2010. 

http://kraftis.azurewebsites.net/felog/stada/

Massi hefur öruggan sigur með 282 stig. Ármann er í öðru sæti með 226.
Síðan fylgja Breiðablik, Selfoss (sem tók stórt skref upp listann eftir mótið á heimavelli í dag), Sindri, Akranes og Mosfellsbær.
Kraftlyftingafélag Akureyrar hefur beðist undan þátttöku í liðakeppninni.

Við óskum suðurnesjamönnum til hamingju með verðskuldaðan sigur. Það er gaman að sjá hvernig liðsandinn hefur eflst hjá félögunum á þessu keppnisári og við óskum öllum félögum til hamingju með það.
Verðlaunin verða formlega afhent sigurvegurum með viðhöfn í tengslum við kraftlyftingaþingið í janúar.