EM hefst á morgun

eo-2013Opna Evrópumótið í kraftlyftingum hefst á morgun 7.maí í Pilzen í Tékklandi og stendur til 11.maí. 162 keppendur frá 23 löndum eru skráðir til leiks, 100 í karlaflokki og 62 konur.
Meðal þeirra eru María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Auðunn Jónsson, Breiðablik.
María keppir í -72,0 kg flokki á miðvikudag en Auðunn í +120,0 kg flokki á laugardag. Samkvæmt Grétari Hrafnssyni landsliðsþjálfara eru þau bæði í góðu formi og mjög vel undirbúin.
Helgi Hauksson og Klaus Jensen munu dæma á mótinu og Sigurjón Pétursson situr þing EPF fyrir hönd KRAFT.
Hægt verður að fylgjast með á netinu: http://goodlift.info/live.php

Við óskum þeim öllu góðs gengis.

Góður árangur unglingalandsliðsins

Landsliðshópurinn er nú allur kominn heim frá EM unglinga í Prag og er ástæða til að fagna frammístöðu keppenda og óska þeim, þjálfurum þeirra, aðstoðarmönnum og landsliðsþjálfara til hamingju með mótið:
Í heildinni vann Ísland einn titil, 4.sæti, 5 sæti, 7. sæti, 10.sæti og 14.sæti, og fékk tvenn gull- og tvenn silfurverðlaun í greinunum. Allir keppendurnir kláruðu mótið og allir bættu árangur sinn, nema einn sem jafnaði sínu besta. Tólf Íslandsmet voru sett í unglingaflokkum og þrjú í opnum flokki.
Það mun kosta vinnu að toppa þetta, en undirbúningur er þegar hafinn.

Arnhildur bætti sig og setti íslandsmet

Arnhildur Anna Árnadóttir úr Gróttu keppti í dag á EM unglinga. Hún lenti í 5.sæti í -72 kg flokki með seríuna 165 – 90 – 160 = 415 kg og bætti sig um 5 kg frá Norðurlandamótinu í febrúar.
Markmiðið hafði verið sett ennþá hærra, en hún má vel við una að hafa klárað þetta mót vel, bætt sig og sýnt mikinn karakter þegar hún klikkaði tvisvar á bekknum með 87,5 kg og tók svo 90 kg örugglega í þriðju. Hún átti líka góða tilraun við 167,5 kg í réttstöðulyftu sem hefði dugað í verðlaunasæti. Það kemur næst.

Beygjan er Íslandsmet unglinga í þessum flokki.

Til hamingju Arnhildur!
photo

Sindri Freyr lyftir á morgun

Sindri Freyr Arnarson, Massamaður, stígur á svið á EM unglinga á morgun kl. 17.00 á íslenskum tíma.
Hægt er að fylgjast með í beinni útsendingu á vefnum: http://goodlift.info/live.php

Sindri lyftir í -66,0 kg flokki unglinga, en hann er fæddur 1992. Sindri á best 502,5 kg og mætir mjög sterkum andstæðingum í flokknum. Markmiðið verður fyrst og fremst að halda einbeitingu og ná út öllu því sem búið er að leggja inn fyrir á löngum og ströngum æfingum í vetur. Það verður spennandi að sjá hversu langt það nær.

Við eigum von á bætingum og óskum Sindra og hans aðstoðarmönnum í Tékklandi góðs gengis.

EM unglinga hefst eftir helgi

Evrópumót unglinga í kraftlyftingum hefst í Prag eftir helgi og íslensku keppendurnir eru að pakka í töskurnar.
Sindri Freyr er fyrstur í eldlínunni, en hann keppir í -66,0 kg flokki á þriðjudag. Síðan keppir Daði Már á miðvikudag, Viktor Ben og Arnhildur Anna á fimmtudag, Viktor Samúelsson á föstudag og Júlían á laugardag. Aðstoðarmenn eru Grétar Hrafnsson, landsliðsþjálfari, Sturla Ólafsson og Gunnlaug Olsen.

Nánari upplýsingar og bein vefútsending er að finna á heimasíðu EPF. 

Góður árangur unglingalandsliðsins á Norðurlandamóti í kraftlyftingum

Island eignaðist í gær þrjá Norðurlandameistara í kraftlyftingum í unglingaflokkum.

Fanney Hauksdóttir frá Gróttu sigraði í -57 kg flokki kvenna með 310 kg. Fanney er sérstaklega sterk í bekkpressu. Hún lyfti 107,5 kg í gær og átti tilraun við nýtt íslandsmet 112,5 kg. Það er stutt frá Norðurlandametinu í greininni og vakti bekkpressur hennar athygli hinna Norðurlandaþjóðanna sem sáu þar konu sem þau þurfa að reikna með á næstu árum.

Arnhildur Anna Árnadóttir, líka úr Gróttu, náði bronsverðlaun í -72,0 kg flokki kvenna með 410 kg og uppskar laun erfiðisins undanfarið með frábærum bætingum. Hún var fjórða stigahæsta konan á mótinu.

Alexandra Guðlaugsdóttir, KFA, vann silfurverðlaun í -84 kg flokki með 407,5 kg og bætingum í öllu greinum.

Saman unnu stelpurnar til bronsverðlauna í liðakeppni kvenna, en það mun vera í fyrsta sinn í manna minnum að íslenskt kvennalið stígur á verðlaunapall á alþjóðamóti í kraftlyftingum.

Sindri Freyr Árnason úr Massa varð Norðurlandameistari í -66,0 kg unglingaflokki karla með 490 kg og Guðfinnur Snær Magnússon, hinn efnilegi drengur úr Breiðablik vann titilinn í -120 kg flokki drengja með 537 kg. Þeir voru báðir að keppa í fyrsta sinn á móti af þessari stærðargráðu og stóðu sig með miklum sóma.

Í -74 kg flokki unglinga vann Dagfinnur Ari Normann frá Kraftlyftingafélagi Garðabæjar  til bronsverðlauna með 592,5 kg sem er persónuleg bæting. Daði Már Jónsson, Massi, lenti í fjórða sæti með 535 kg. Daði hefur átt betri daga, en miklar og góðar æfingar undanfarið eiga eftir að skila sér þó síðar verði.

Tveir efnilegir Massa-strákar í viðbót kepptu fyrir Íslands hönd. Ólafur Hrafn Ólafsson bætti sig í öllum greinum og endaði í fjórða sæti í -93 kg flokki með 715,0 kg. Til samanburðar má geta að Ólafur tók þátt í Norðurlandamóti í fyrra og hafnaði þá í 6.sæti með 647,5 kg. Félagi hans Þórvarður Ólafsson keppti í -120 kg flokki og vann þar til bronsverðlauna með 755 kg eftir harðri atlögu að silfrinu.

Daníel Geir Einarsson, Breiðablik, átti sitt besta mót nokkru sinni og lyfti 737,5 kg í -120 kg flokki. Daníel hefur átt það til að detta úr keppni vegna tæknimistaka í ýmsum greinum, en í þetta sinn mætti hann vel undirbúinn og kláraði mótið með öruggum glæsibrag.

Einar Örn Guðnason, Akranesi og Viktor Samúelsson, KFA hafa báðir keppt á alþjóðamótum áður. Viktor jafnaði besta árangur sinn og lyfti 795 kg í -105 kg flokki. Með 295 kg í síðustu réttstöðulyftu náði hann silfrinu úr greipum norðmanna.  Einar Örn lyfti 752,5 kg sem er persónuleg bæting og það dugði í  4.sæti í þessum flokki.

Helsta von heimamanna í Ármannsheimilinu brást þegar Júlíani J.K. Jóhannssyni varð á að detta úr í hnébeygju í +120,0 kg flokki. Júlían er á leið á Evrópumót unglinga í maí og fékk þarna verkefni til að vinna úr. Hann kláraði samt lyftum í hinum greinunum, lyfti 247,5 kg á bekknum og kom svo öllum, ekki síst sjálfum sér á óvart með því að fá tvö hvít ljós á 350 kg í réttstöðulyftu og setja með því eftirminnilegan endapunkt á mótinu.

Grétar Hrafnsson, landsliðsþjálfari, var mjög ánægður með daginn og sagði hann hafa farið fram úr hans björtustu vonum. Flestir keppendur bættu sig og allir öðluðust dýrmæta reynslu sem mun flýta fyrir frekari framförum.

Það er sérstaklega ánægjuleg staðreynd að sjö íslensk kraftlyftingafélög áttu keppendur á þessu móti. Það sýnir betur en nokkuð annað að efniviðurinn finnst víða og markviss uppbygging og æfingar skila sér svo um munar.
Meðal aðstoðarmanna á mótinu voru 6 einstaklingar sem með þessu voru að ljúka þjálfara 1 námi Kraftlyftingasambandsins. Þeirra þekking og reynsla mun verða styrkur í þeirri uppbyggingu.

Við óskum öllum sem þátt tóku til hamingju með mótið.
Stjórn KRAFT getur ekki fullþakkað öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við framkvæmd mótsins.

Norðurlandamót unglinga – úrslit

Norðurlandamót unglinga var haldið í dag í Laugabóli, íþróttahús Ármenninga.

ÚRSLIT

Stigahæsti keppandi í stúlknaflokki var Krista Määttää frá Finlandi.
Stigahæsti keppandinn í drengjaflokki var Eddi Berglund frá Svíþjóð.
Stigahæsta konan í unglingaflokk var Linn Ark frá Svíþjóð.
Stigahæsti karlinn í unglingaflokki var Joachim Lindseth frá Noregi.

Norðmenn áttu sterkasta kvennaliðið en Svíar sigruðu í liðakeppni karla.

Norðurlandamót unglinga 2013

Norðurlandamót í kraftlyftingum í drengja/stúlkna og unglingaflokkum verður haldið í Laugabóli, Íþróttamiðstöð Ármenninga laugardaginn 23.febrúar nk.
Keppni í kvennaflokkum og léttari flokkum karla hefst kl. 10.00. Keppni í karlaflokkum -93kg – +120 kg hefst kl. 15.30.
KEPPENDALISTAR
Frá Íslandi mæta til leiks:
DRENGJAFLOKKUR
– 120 kg Guðfinnur Snær Magnússon, Breiðablik
UNGLINGAFLOKKUR KVENNA
– 57 kg Fanney Hauksdóttir, Grótta
– 63 kg Anna Margrét Kristinsdóttir, Breiðablik
– 72 kg Arnhildur Anna Árnadóttir, Grótta
– 84 kg Alexandra Guðlaugsdóttir, Kraftlyftingafélag Akureyrar
UNGLINGAFLOKKUR KARLA
– 66 kg Sindri Freyr Arnarson, UMFN Massi
– 74 kg Daði Már Jónsson, UMFN Massi
– 74 kg Dagfinnur Ari Normann, Kraftlyftingafélag Garðabæjar – Heiðrún
– 93 kg Ólafur Hrafn Ólafsson, UMFN Massi
– 105 kg Viktor Samúelsson, Kraftlyftingafélag Akureyrar
– 105 kg Einar Örn Guðnason, Kraftlyftingafélag Akraness
– 120 kg Þorvarður Ólafsson, UMFN Massi
– 120 kg Daníel Geir Einarsson, Breiðablik
+120 kg Júlían J.K. Jóhannsson, Ármann

Landsliðshópur valinn

Landsliðsnefnd KRAFT hefur birt nöfn þeirra sem eru í landsliðshópnum fyrir Norðurlandamót unglinga í febrúar.
Mótið fer fram á Íslandi í þetta skiptið, og ætlar nefndin að gefa sem flestum efnilegum unglingum tækifæri til að taka þátt í keppninni.
Í drengjaflokki og kvennaflokkum er ennþá pláss fyrir fleiri, og geta félög komið ábendingum um áhugsama unglinga til [email protected]

Konur – 19-23 ára
57 kg – Elín Melgar Aðalheiðardóttir – Grótta
63 kg – Anna Margrét Kristinsdóttir – Breiðablik
72 kg – Arnhildur Anna Árnadóttir – Grótta
84 kg – Alexandra Guðlaugsdóttir – KFA

Karlar – 14-18 ára
120 kg – Guðfinnur Snær Magnússon – Breiðablik

Karlar – 19-23 ára
66 kg – Sindri Freyr Arnarsson – UMFN Massi
74 kg – Daði Már Jónsson – UMFN Massi
83 kg – Dagfinnur Ari Normann – Heiðrún
93 kg – Ólafur Hrafn Ólafsson – UMFN Massi
105 kg – Einar Örn Guðnason – Akranes
105 kg – Viktor Samúelsson – KFA
120 kg – Daníel Geir Einarsson – Breiðablik
120 kg – Þorvarður Ólafsson – UMFN Massi
120+ kg – Júlían J. K. Jóhannsson – Ármann

Varamenn:
93 kg – Kristján Sindri Níelsson – Breiðablik
120 kg – Einar Hannesson – KFA