Árnað heilla

Helgi Hauksson, kraftlyftingadómari með meiru, er sextugur í dag.

Helgi hefur réttindi alþjóðadómara í kraftlyftingum og hefur borið hitann og þungann af dómaramálum hjá KRAFT um árabil, bæði í dómgæslu og dómaramenntun. Framlag hans í þessum málum verður varla ofmetið.

Á þessum tímamótum vill stjórn Kraftlyftingasambands Íslands þakka honum fyrir hans mikla framlag í þágu íþróttarinnar. Við vonum að við fáum áfram að njóta góðs af reynslu hans, þekkingu og innsæi.

Stjórn KRAFT sendir honum innilegar hamingjuóskir með afmælið og veit að allur kraftlyftingaheimurinn tekur undir.

Hátíðarkveðja

Kraftlyftingasamband Íslands óskar félögum sínum og landsmönnum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.

Njótið dagsins.

Eftir nákvæmlega viku fjölmennum við í Garðabæinn þar sem Heiðrúnarmenn halda sitt fyrsta bekkpressumót í samvinnu við Breiðablik.
Keppendum er bent á að stíga á vigtina áður en þeir panta þjóðhátíðarísinn 😉

ÍSÍ 100 ára

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er 100 ára í dag.
Þess var minnst á kraftlyftingaþinginu á Akranesi og sendi kraftlyftingaþingið ÍSÍ heillaóskaskeyti í tilefni af þessum tímamótum.
Formaður og varaformaður Kraft voru fulltrúar okkar á móttöku í Ráðhúsi Reykjavíkur í tilefni dagsins og tekur Kraft þátt í sameiginlegri afmælisgjöf sem öll sérsambönd færa ÍSÍ.

Við áramót

Stjórn Kraft óskar öllum sínum félögum og velunnurum gleði og heilsu á nýju ári.

Áramót gefa tækifæri til að horfa í tvær áttir, að gleðjast yfir afrek liðins árs og setja stefnuna á ný markmið.
Stjórn Kraft valdi  Maríu og Fannar kraftlyftingafólk ársins 2011, en margir fleiri eiga heiður skilið fyrir mikla vinnu og góðar bætingar á árinu.
Kraftlyftingadeild Breiðabliks valdi þau Huldu og Auðun sem sínar fyrirmyndir á árinu, Massi eignaðist fjölda Íslandsmeistara á árinu og ákváðu að heiðra Steinar Má Hafsteinsson sérstaklega fyrir hans árangur, Glímufélagið Ármann telur Júlían vera efnilegasti íþróttamaður félagsins og KFA heiðraði Viktor – svo nokkur dæmi séu nefnd.

HÉR má sjá yfirlit yfir árangur ársins í einstökum greinum og samanlögðu. Á vefnum er líka hægt að flétt upp einstaka keppendur og skoða framför hjá þeim.
Kannski áhugavert að flétta upp árangur í bekkpressu á liðnu ári fyrir þá sem eru að spá í ÍM í bekkpressu eftir tæpan mánuð…

Minning

Í dag er til grafar borinn Jóhannes Hjálmarsson á Akureyri. Hann var á 81. aldursári.
Jóhannes var lifandi sönnun þess að kraftlyftingar er íþrótt fyrir menn á öllum aldri. Hann hóf að stunda og keppa í kraftlyftingum um fimmtugt og gerði garðinn frægan á árunum 1980-90 eins og sjá má HÉR.
Jóhannes keppti fyrir Íslands hönd erlendis og varð tvisvar sinnum heimsmeistari öldunga og setti heimsmet í sínum aldursflokki.
Hann var virkur í félagsmálum, ekki síst íþróttamálum og var heiðursfélagi í Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Hans verður minnst með virðingu og vinsemd af þeim sem kynnstust honum.
Kraftlyftingaheimurinn vottar ástvinum Jóhannesar samúð í dag.

Nýárskveðja

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands sendir öllum meðlimum, félögum og velunnurum óskir um farsælt nýtt ár.

2010 hefur með sönnu verið merkilegt ár í sögu kraftlyftinga á Íslandi. Í apríl stofnaði ÍSÍ sérsamband um íþróttina og mikið uppbyggingarstarf hefur átt sér stað. Stjórnin vill þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóginn á árinu; öllum stjórnum kraftlyftingafélaga á landinu, stjórnendum og starfsmönnum ÍSÍ, stuðningsaðilum, fréttamönnum, áhorfendum, dómerum; en fyrst og fremst keppendum og aðstoðarmönnum þeirra.

Með áframhaldandi samstilltu átaki mun 2011 verða ennþá betra kraftlyftingaár!

GLEÐILEGT NÝTT ÁR!

Árnað heilla

Fimmtugur er í dag Hörður Magnússon kraftlyftingafrömuður.

Hörður hefur verið atkvæðamíkill í starfi fyrir kraftlyftingaíþróttina í mörg ár bæði sem keppandi, leiðbeinandi og ekki síst sem dómari, en Hörður er einn fárra Íslendinga sem hefur réttindi sem alþjóðadómari í kraftlyftingum.

Á þessum tímamótum vill stjórn Kraftlyftingasambands Íslands þakka honum fyrir hans mikla framlag í þágu íþróttarinnar. Við vonum að við fáum áfram að njóta góðs af reynslu hans, þekkingu og innsæi.

Stjórn KRAFT sendir honum innilegar hamingjuóskir með afmælið og veit að allur kraftlyftingaheimurinn tekur undir.

Samúðarkveðja

Látin er á Akureyri Sigríður Kristín Sigtryggsdóttir, en hún var eiginkona Guðmundar Svanlaugssonar kraftlyftingamanns. Guðmundur hefur verið ötull hvatamaður að uppbyggingu íþróttarinnar á Akureyri í mörg ár og er dómari hjá Kraft. Hann á marga vini innan sambandins bæði á Akureyri og víðar sem nú hugsa til hans með hlýhug.  Fyrir hönd þeirra allra sendir stjórn Kraftlyftingasambands Íslands honum og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.