Góður árangur hjá Aroni

Aron Teitsson, Gróttu, lauk fyrir stundu keppni á HM í klassískum kraftlyftingum í Suzdal í Rússlandi. Hann vigtaði 82,35kg í -83,0 kg  flokki.
Ekki verður annað sagt en að Aron hafi staðið sig mjög vel á sínu fyrsta alþjóðamóti. Hann lyfti af miklu öryggi og fór í gegn með 8 lyftur gildar og endaði í 640 kg samanlagt sem dugði í 7.sætið.

Aron byrjaði mjög létt og örugglega með 210 og 220 í hnébeygju. Hann þurfti að berjast við 230 í þriðju og hafði sigur. Aron er sterkur í bekknum og lyfti þar 160 – 167,5 mjög örugglega og endaði í 4.sæti í greininni. 170 kg í þriðju tilraun reyndist of þungt.
Í réttstöðu lyfti hann 225 – 235 – 242,5 kg og fékk s.s. samtals 640,0 kg.
Sigurvegari í flokknum var rússinn Alexey Kuzmin með 760 kg.

Við óskum Aroni til hamingju með vel heppnað mót og góðan árangur!

HM í klassískum kraftlyftingum

Fyrsta heimsmeistaramót IPF í klassískum kraftlyftingum í opnum flokki og flokki unglinga  karla og kvenna hefst í Suzdal í Rússlandi á þriðjudag.
Sýnt verður frá mótinu á vefnum.

Fyrir hönd Íslands keppir Aron Teitsson, Gróttu. Hann keppir í -83,0 kg flokki á fimmtudag og er þetta fyrsta alþjóðamót sem Aron tekur þátt í. Honum til halds og trausts er Grétar Hrafnsson landsliðsþjálfari.
Við óskum Aroni góðs gengis.
Keppendalisti

ÍM í klassískum kraftlyftingum á morgun

im13Laugardaginn 11.maí er merkilegur dagur í sögu kraftlyftinga á Íslandi, en þá verður haldið fyrsta Íslandsmeistarmótið í klassískum kraftlyftingum í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi.
Mótið hefst kl. 10.00 með keppni í kvennaflokkum og stendur fram eftir degi, en 50 keppendur eru skráðir til leiks.
Mótshaldari er kraftlyftingadeild Gróttu, en þetta er jafnframt fyrsta mót sem deildin heldur og má búast við miklu fjöri og skemmtilegri keppni – við hvetjum alla áhugamenn um kraftlyftingar að mæta og styðja sína menn.

ÍM 2013 – keppendalisti

Endanlegur keppendalisti á Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum liggur nú fyrir. Keppendur eru 50, þar af 22 konur.
Mótið verður haldið á Seltjarnarnesi 11.maí nk í umsjón Kraftlyftingadeildar Gróttu og er fyrsta Íslandsmeistaramót KRAFT í klassískum kraftlyftingum.
Nánari upplýsingar um tímasetningar og skipting í holl verða birtar fljótlega.
KEPPENDALISTI

ÍM í klassískum kraftlyftingum – skráning hafin

Skráning er hafin á Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum sem fer fram í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi laugardaginn 11.maí nk í umsjón Kraftlyftingadeildar Gróttu. Skráningarfrestur er til miðnættis 20.apríl.
Skráningareyðublað: imklassisk13

Félög þurfa hafa mótareglurnar í huga við skráningu keppenda, sérstaklega 3.grein um hlutgengi keppenda og 19.grein um fjölda starfsmanna á mótum.
Reglurgerð um mótahald.

Klassískar kraftlyftingar

Í nýuppfærðum reglum um mótahald er gert ráð fyrir að haldið sé árlegt Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum án búnaðar. Heiti mótsins verður Íslandsmeistaramót í klassískum kraftlyftingum og verður það heiti notað um kraftlyftingar án búnaðar.

Gert er ráð fyrir að skráning Íslandsmeta í klassískum kraftlyftingum hefjist 1.janúar 2014 og verða birtar lágmarksviðmið fyrir slík met fyrir þann tíma.

Eingöngu verður hægt að setja klassísk met á mótum þar sem keppt er án búnaðar. Nánar er fjallað um þetta í 24.grein mótareglnanna.

Seltjarnarnesmótið – úrslit

Stórt og mikið bekkpressumót lauk í íþróttamiðstöðinni á Seltjarnarnesi fyrir stundu. Konur og karlar úr 6 félögum reyndu með sér í klassiskri bekkpressu, eða bekkpressu án útbúnaðar.
Veitt voru verðlaun í öllum þyngdarflokkum, en stigaverðlaun kvenna hlaut Anna Hulda Ólafsdóttir, Breiðablik, fyrir 70 kg í -63,0 kg flokki og í karlaflokki sigraði Aron Lee Du Teitsson, Gróttu, sem lyfti 170 kg i -83,0 kg flokki.
Hér má sjá HEILDARÚRSLIT.
Dómarar á mótinu voru Geir Þórólfsson, Guðrún Bjarnadóttir og Herbert Eyjólfsson. Þulur var Sigurjón Pétursson.

Kraftlyftingafélögin tvö á Nesinu, Zetórar og Kraftlyftingadeild Gróttu, stóðu saman að skipulag mótsins og var undirbúningurinn til fyrirmyndar. Þetta var frumraun þeirra í mótahaldi og margir að gera hlutina í fyrsta skipti. Nokkrir tæknilegir hnökrar í upphafi mótsins komu ekki í veg fyrir að mótið sem heild fór vel fram og áhorfendur skemmtu ser konunglega.
Við óskum bæði keppendum og mótshöldurum til hamingju með mótið.