Úthlutun úr afrekssjóði ÍSÍ

Í dag var úthlutað úr afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2015, samtals rúmlega 122 milljónir króna og féll verulegur skerfur í hlut Kraftlyftingasambands Íslands, eða 5.420.000 krónur vegna verkefna landsliðsins og 8 einstaklinga.
Auðunn Jónsson hlaut A-styrk aftur í ár, Júlían J. K. Jóhansson hlaut C-styrk og hlaut sambandið eingreiðslustyrk vegna verkefna 6 annarra landsliðsmanna. .
YFIRLIT YFIR STYRKVEITINGAR

Kostnaðaráætlun þeirra verkefna sem sótt var um styrk til úr sjóðnum alls var upp á 1.034 m. krónu, svo þessi úthlutun dugar skammt, dekkar 11.8% af þeim kostnaði sem sérsamböndin telja sig þurfa að leggja í vegna verkefna sinna afreksmanna.

Fyrir KRAFT kemur styrkurinn sér mjög vel og er viðurkenning á markvissu og öflugu starfi sambandsins að afreksmálum undanfarin ár og hvatning til áframhaldandi dáða.Sambandinu og einstaklingunum sem í hlut eiga er með þess sýnt traust.

Framundan er spennandi keppnistímabil, en fyrsta landsliðsverkefnið er Norðurlandamót unglinga sem fer fram í Finnlandi í lok febrúar

Ragnheiður og Júlían í viðtali

Júlían J. K. Jóhannsson og Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir voru valin kraftlyftingamaður og kraftlyftingakona ársins 2014.
Árdís Ósk tók þau tali að því tilefni:

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir

rksRagnheiður varð stigahæst kvenna á Íslandi á árinu þegar hún tók 400 kg í samanlögðu í -57 kg flokki á Norðurlandamóti í Kraftlyftingum sem haldið var í Njarðvík í ágúst og varð þar með Norðurlandameistari í sínum flokki. „Ég átti góðan dag og var mjög ánægð að ná 400,“ segir Ragnheiður en hún er einna stoltust af því móti þegar hún lítur yfir árið.

Æfingafélagarnir mikilvægir
Ragheiður þakkar helst frábærum þjálfara og skemmtilegum æfingafélögum þennan gríðarlega árangur sem hún hefur náð á stuttum tíma en Ragnheiður byrjaði fyrst að keppa fyrir tveimur árum. „Systir mín æfir með mér og hvetur mig til dáða. Rannveig og Ása hvetja mig einnig vel áfram á æfingum.“

Tekur skóna og beltið með sér í frí
Næsta mót hjá Ragnheiði er Evrópumeistaramóti í maí á næsta ári. „Ég stefni alla vega á meira en 400 þar,“ segir Ragnheiður en þó að langt sé í næsta mót er ekker lát á æfingum. „Ég nýt þess núna að vera bara að æfa án þess að keppa eða keyra upp fyrir mót,“ en Ragnheiður segist lítið hrifin af því að taka sér pásur frá æfingum því það sé leiðinlegt að missa úr og þurfa að vinna upp. „Ég tek alltaf með mér belti og skó þegar við förum til útlanda og í sumarfríinu var ég úti á landi en keyrði fjórum sinnum í viku í Kirkjubæjarklaustur að æfa, það er ágætis gym þar.

Júlían J. K. Jóhannsson

jjkjÉg er ánægðastur með heimsmeistaramót unglinga og sérstaklega bætingarnar í hnébeygju á mótinu. Ég er líka búinn að vera að ná fleiri gildum réttstöðulyftum undanfarið en áður,“ segir Júlían um árangur ársins. Á heimsmeistaramóti unglinga nældi Júlían sér í silfur í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 337,5 kg og þar lyfti hann líka 375 kg í hnébeygju og 267,5 kg í bekkpressu og náði þannig þriðja sæti í samanlögðu með 980 kg. Sá árangur skilaði honum 12. sæti á heimslista þetta árið.

Setur markið hærra á næsta ári
Júlían æfir allt árið um kring og segist ekki taka sér hlé. Hann æfir létt með litlu álagi fyrstu vikurnar eftir mót. „Til að ná árángri í íþróttinni er mikilvægast að æfa vel og vera einbeittur,“ segir Júlían. Næsta mót hjá honum er Evrópumót unglinga í apríl „mig langar til að standa mig vel á unglingamótunum bæði Evrópumótinu og Heimsmeistarmótinu. Ég vil standa mig betur á næsta ári en á þessu og ná lágmarki fyrir heimsmeistaramót í opnum flokki.“ Júlían á enn tvö ár eftir í unglingaflokki og er því rétt að byrja.
Júlían segir fjölskylduna styðja vel við bakið á sér og svarar því að það sé mamma hans sem er spenntust að fylgjast með og setur sig vel inn í hvað er að gerast.

Íþróttamenn ársins 2014

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands hefur valið Júlían J.K. Jóhannsson, Ármanni, kraftlyftingamann ársins 2014 i karlaflokki og Ragnheiði K. Sigurðardóttur, Gróttu, í kvennaflokki.

Júlían J.K. Jóhannsson, er fæddur 1993 en er þrátt fyrir ungan aldur í 12.sæti á heimslista í sínum flokki. Hann á mjög gott keppnistímabil að baki þar sem hann hefur sýnt stöðugar framfarir og bætt Íslandsmetin í sínum flokki í öllum greinum. Júlían hefur náð eftirtektarverðum árangri á alþjóðamótum á árinu.

Helstu afrek 2014:
Evrópumót unglinga +120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun samanlagt.
Evrópumót unglinga +120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun í hnébeygju.
Heimsmeistaramót unglinga +120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun samanlagt Heimsmeistaramót unglinga +120,0 kg flokki: 2.sæti og silfurverðlaun í réttstöðulyftu.

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir, Grótta,  er stigahæsta kona Íslands í kraftlyftingum á árinu. Ragnheiður er Íslandsmeistari í kraftlyftingum og í réttstöðulyftu og Norðurlandameistari í -57 kg flokki. Ragnheiður hefur bætt Íslandsmetin í öllum greinum í sínum flokki.

Helstu afrek 2014:
Norðurlandamót í kraftlyftingum -57,0 kg flokki: 1.sæti og gullverðlaun
Norðurlandamót í kraftlyftingum: 3 sæti á stigum
Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum -52,0 kg flokki: 1. sæti
Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum: 1.sæti á stigum
Íslandsmeistaramót í réttstöðulyftu – 57,0 kg flokki: 1 sæti
Íslandsmeistaramót í réttstöðulyftu: 1.sæti á stigum

Þrír kraftlyftingamenn fá afreksstyrki

Í dag var úthlutað úr afrekssjóði ÍSÍ með breyttum áherslum frá því sem verið hefur undanfarin ár.
Auðunn Jónsson, Breiðablik, fær A-styrk úr sjóðnum 2013.
María Guðsteinsdóttir og Júlían J.K. Jóhannsson, Ármanni, fá C-styrk í ár.
Auk þess var úthlutað til sambandsins vegna skilgreindra verkefna landsliðsins á árinu.

Þetta er fagnaðarefni og hvetur bæði afreksmönnum og sambandinu til dáða við að ná markmiðum afreksstefnu sinni.

Frétt ÍSÍ má lesa hér

Ráðherra heiðrar kraftlyftingamenn

Ráðherra mennta- og menningarmála, Katrín Jakobsdóttir, bauð stjórn og afreksmönnum KRAFT til móttöku í ráðherrabústaðnum í fyrradag. Tilefnið var velgengni Auðuns og Júlíans á árinu og meðal annara gesta voru Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ, Líney R. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og aðrir fulltrúar íþróttahreyfingarinnar.
Ráðherra óskaði Auðunni og Júlían til hamingju með þeirra afrek. “Við erum fámenn þjóð og þess vegna ekki sjálfgefið að meðal okkar skulu vera íþróttamenn í fremstu röð á heimsvísu eins og Auðunn og Júlían og því er það þeim mun ánægjulegra þegar menn ná slíkum árangri og af því getum við verið ákaflega stolt. Afreksfólk verður ekki til á einum degi þó svo að lyfturnar góðu á þessu heimsmeistaramóti hafi tekið einn dag; margra ára vinna liggur að baki svona árangri og vil ég óska ykkur innilega til hamingju“, sagði hún.  
Sigurjón Péturson, formaður KRAFT, tók til máls og þakkaði fyrir. Hann sagði það hafa verið forgangsverkefni stjórnar KRAFT að hefja íþróttina til þeirrar virðingar sem hún á skilið, og móttaka ráðherra sýna að það hafi tekist.
Án þess að gera upp á milli manna verður að segja það sérstaklega ánægjulegt að Auðunn Jónsson og fjölskylda hans skuli hafa fengið tækifæri til að gleðjast yfir afrekum hans við svo hátíðlegt tækifæri.

http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/7258

Júlían tók réttstöðugullið eftir æsispennandi keppni!

Júlían J.K. Jóhannsson keppti í dag á EM unglinga.  Júlían vigtaði 142,8 kg í flokki 120,0 +. Hann keppir nú í fyrsta sinn í aldursflokknum 19 – 23 ára og var yngstur í hópnum.
Júlían lyfti seríuna 320-235- 327,5 = 882,5 kg   og endaði í  4.  sæti. Sigurvegari í flokknum var rússinn Igor Filipov með 965 kg

Hnébeygjan gekk ekki  sem skyldi hjá Júlían í þetta skiptið. Hann kláraði opnunarþyngdinni 320,0 kg létt en mistókst tvisvar með tilraun við nýtt íslandsmet 335,0 kg. Það var auðsætt alla leið frá Danmörku að styrkurinn var til staðar, en tæknileg útfærsla var ekki nægilega góð að mati dómara. Júlían hefur mikið að sækja í bættri beygjutækni.

Á bekknum byrjaði Júlían örugglega á 220 kg. Hann setti nýtt íslandsmet í annari tilraun með 230 kg, skítlétt eins og þjálfarinn kallaði til hans, og bætti um betur í þeirri þriðju með 235,0 kg. Nýtt íslandsmet unglinga og persónuleg bæting um 7,5 kg var í höfn og nokkuð óvænt 4.sætið í bekkpressu.

Réttstaðan hefur lengst af verið besta grein Júlíans, en hann varð heimsmeistari drengja í greininni í fyrra og  sýndi í dag að það var engin tilviljun. Hann opnaði létt á 290 kg og hristi svo upp í keppinautum sínum með 315,0 kg í annarri. Míkið taugastríð upphófst nú í réttstöðukeppninni með taktískar meldingar á víxl. Íslenska liðið hélt haus og Júlían stóð uppi sem sigurvegari á nýju glæsilegu íslandsmeti unglinga 327,5 kg.

Samanlagður árangur hans er 882,5 kg sem er 20 kg persónuleg bæting og nýtt met unglinga.

Við fögnum þessum frábæra árangri Júlíans og óskum honum til hamingju með góðar bætingar og enn eitt réttstöðugullið.

Íslensku unglingarnir hafa gert góða hluti á þessu móti undir stjórn þjálfara síns, Grétars Hrafnssonar. Við óskum liðinu og aðstoðarmönnum þeirra til hamingju með árangurinn, verðskuldað frí í kvöld og góða ferð heim.

 

Gull í réttstöðu, silfur í bekkpressu, ógilt í beygju.

Júlían J.K. Jóhannsson lauk í dag keppni í +120,0 kg flokki á HM drengja í Canada, en draumur hans um sæti á verðlaunapalli rættist því miður ekki.
Júlían náði ekki dýpt í beygjunum og féll úr heildarkeppninni með þrjár ógildar tilraunir við 285,0 kg. Hann deildi þar örlög með þremur öðrum drengjum í flokknum, og ljóst var eftir fyrstu grein hverjir myndu skipta með sér góðmálmana.

Eftir þessari óskemmtilegu lífsreynslu tók Júlían sig saman í andlitinu og kláraði 195,0 kg örugglega á bekknum, en það er 5 kg yfir hans besta árangur til þessa og íslandsmet drengja í bekkpressu “single lift”. Þessi lyfta dugði honum til silfurs í greininni. Vonin um gull lifði reyndar lengi, þar sem hinn ógurlegi Norbert Mikula frá Ungverjalandi þurfti þrjár tilraunir í 285,0 kg, nýtt heimsmet drengja.

Réttstaðalyftan er sterkasta grein Júlíans og þar skildi hann keppinauta sína eftir strax í fyrstu umferð. Hann kláraði 287,5 og 300 kg mjög örugglega og vann gullverðlaun þar með. Síðasta lyftan hans var 310,0 kg og fór upp mjög örugglega, en ekki eins fallega niður. Hann missti hana úr höndunum á síðustu sekúndu og fékk hana ógilda.

Heimsmeistari varð Norbert Mikula, Ungverjalandi, með 860,0 kg.

Júlían kemur heim reynslunni ríkari. Að falla úr keppni er reynsla sem keppandi helst vill vera án en sem hægt er að læra af. Beygjutækni verður eflaust ofarlega á verkefnalista Júlíans á næstunni – en í þetta sinn var það hún sem eyðilagði fyrir hann.

Við óskum honum til hamingju með góðan árangur í hinum greinunum og verðskulduð verðlaun í þeim.