KFA hlýtur viðurkenningu

Fulltrúi ÍSÍ afhenti formanni Kraftlyftingafélags Akureyrar viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á bikarmóti KRAFT um helginga.
KFA verður þar með annað aðildarfélag KRAFT sem nær því markmiði. Áður hafði Heiðrún, Kraftlyftingafélag Garðabæjar, fengið þessa viðurkenningu.
Við óskum Akureyringum til hamingju með þessa nafnbót og hvetjum önnur félög til að huga að þessu líka.

Styrkir – UMSÓKNIR

ÍSÍ veitir styrki til ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna og eru það sérsamböndin sem sækja um fyrir iðkendur sem þykja uppfylla skilyrðin. Nú er tímabært fyrir einstaklinga og félög að benda á verðuga kraftlyftingamenn svo hægt verði að sækja um í næsta úthlutun.
Hafið samband við gjaldkera KRAFT til að fá frekari leiðbeiningar og aðstoð við úmsókn.
Kári Rafn Karlsson [email protected]

Sömuleiðis skulu menn huga að umsóknum úr Afrekssjóði ÍSÍ, en Kári veitir líka upplýsingar um hann.

 

Þjálfari 1

Kraftlyftingasamband Íslands ætlar að bjóða upp á sérgreinahlutann í Þjálfara 1 námi ÍSÍ í haust. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið verður upp á sérhæft nám fyrir kraftlyftingaþjálfara og lítur KRAFT á það sem undirstöðuatriði í áframhaldandi uppbyggingu íþróttarinnar að öll félög eignist menntaðan þjálfara.
Nauðsynlegur undanfari sérgreinahlutans er almenni hluti þjálfara 1 hjá ÍSÍ, eða annað sambærilegt nám sem ÍSÍ metur jafngilt.

Námið er 60 tímar og skiptist svona:
– Skyndihjálparnámskeið – 16 tímar
– Keppnisreglur IPF og KRAFT, lög og reglugerðir KRAFT – 10 tímar
– Þjálfun. (Tækni, greining/ástandsmat keppandans, skipulag æfingatíma. leikfræði/taktík,  rétt næring, notkun búnaðar, undirbúningur og aðstoð í keppni) – 34 tímar

Námskeiðið hefst  dagana 20-23 september, en þá kemur mjög fær fyrirlesara frá norska sambandinu og kennir þjálfun.
Skráning hefst fljótlega og fer fram gegnum félögin.  Þetta er gert til að tryggja að menntunin nýtist þeim til uppbyggingar, og að þeir sem fara í námið á vegum síns félags skili þekkinguna inn í hópinn. Þeir sem hafa áhuga á að vera með ættu að hafa samband við sitt félag og taka helgina 20-23 september frá.

ÍSÍ 100 ára

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er 100 ára í dag.
Þess var minnst á kraftlyftingaþinginu á Akranesi og sendi kraftlyftingaþingið ÍSÍ heillaóskaskeyti í tilefni af þessum tímamótum.
Formaður og varaformaður Kraft voru fulltrúar okkar á móttöku í Ráðhúsi Reykjavíkur í tilefni dagsins og tekur Kraft þátt í sameiginlegri afmælisgjöf sem öll sérsambönd færa ÍSÍ.

Þjálfaramenntun – 1.stig

Vorannarfjarnám 1. stigs þjálfaramenntunar ÍSÍ mun hefjast mánudaginn 6. febrúar nk. og tekur það átta vikur.  Um er að ræða samtals 60 kennslustunda nám eða sem samsvarar öllu 1. stiginu,1a, 1b og 1c.  Námið er almennur hluti þjálfaramenntunar ÍSÍ og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar.  Skráning er á [email protected] eða í síma 514-4000 og þarf henni að vera lokið fyrir fimmtudaginn 2. febrúar. Með skráningu þarf að fylgja fullt nafn, kennitala, heimilisfang, netfang og símanúmer.  Rétt til þátttöku hafa allir sem lokið hafa grunnskólaprófi.

Þetta nám er metið sem ÍÞF 1024 í framhaldsskólum.

Allar nánari uppl. um fjarnámið og aðra þjálfaramenntun ÍSÍ gefur sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs í síma 460-1467 eða á [email protected]


Fyrirmyndarfélag

Kraftlyftingafélag Garðabæjar, Heiðrún, hlaut í dag nafnbótina “Fyrirmyndarfélag ÍSÍ” fyrst allra kraftlyftingafélaga.
Fulltrúi ÍSÍ afhenti formanni félagsins, Alexander Inga Olsen, viðurkenninguna í tengslum við Bikarmót KRAFT á Akureyri og var myndin tekin við það tækifæri .
Við óskum Garðbæingum til hamingju með þennan áfanga og hvetjum önnur kraftlyftingafélög til að fylgja þeim fast á eftir.

Hættan við lyfjamisnotkun

ÍSÍ hefur í samstarf við WADA gefið út bækling um hættuna við lyfjamisnotkun. Bæklingurinn er sérstaklega ætlaður ungu íþróttafólki og fjallar m.a. um megrunarvörur og fæðubótarefni, EPO, sterar og fíkniefni.
Kraftlyftingasamband Íslands tekur skýra afstöðu gegn hvers konar lyfjamisnotkun og hvetur kraftlyftingafélög til að upplýsa sína félagsmenn vel og skýrt um mál af þessu tagi. Hægt er að nálgast bæklinginn [email protected] og á netinu HÉR og upplagt að láta hann liggja frammi á æfingarstöðvum.

íþróttaþing ÍSÍ

70. íþróttaþing ÍSÍ fer fram 8. og 9. apríl nk og er nú Kraftlyftingasamband Íslands meðal þátttakenda í fyrsta sinn. Fulltrúar KRAFT voru kjörnir á þingi í janúar og eru Sigurjón Pétursson, formaður, og Guðjón Hafliðason, varaformaður.

Allar upplýsingar um þingið og mál sem þar verða tekin fyrir má finna á heimasíðu ÍSÍ.