Eleiko World Cup Classic

Á morgun hefst í Svíþjóð keppni á fyrsta heimsbikarmóti IPF í kraftlyftingum án útbúnaðar.  170 keppendur eru skráðir til leiks, 110 karlar og 60 konur. Heimasíða mótsins: https://sites.google.com/site/worldcupstockholm/

Live streaming verður á netinu: http://styrkelyft.qrodo.tv/

Mikil umræða hefur lengi átt sér stað í kraftlyftingaheiminum um ágæti þess að nota sérútbúnað í keppni og sýnist sitt hverjum. Öfgafyllstu útgáfurnar af bekkpressusloppum hafa hleypt vatni á myllu þeirra sem telja slíkar græjur skaðlegar bæði fyrir keppendur og ímynd íþróttarinnar og vilja helst bara keppa “á kjötinu”.  Á meðan finnst öðrum  útbúnaðurinn sjálfsagður og rétt beiting hans vera mikilvægur liður í keppninni.

IPF hefur ákveðið að koma til móts við þá sem vilja keppa RAW með því að halda nú í fyrsta sinn heimsbikarmót án útbúnaðar og nefna það Classic Powerlifting. Sérstakur stuðningsaðili mótsins er Eleiko. Sérstakar reglur um leyfilegan fatnað hafa verið birtar og lágmarksviðmið um heimsmet hafa verið sett.

það verður gaman að fylgjast með árangur manna á þessu móti og hvernig framhaldið verður í umræðunni um að vera eða ekki vera í búnaði.

Starfsáætlun IPF

Alþjóða kraftlyftingasambandið IPF hefur birt endurskoðaða starfsáætlun sína fyrir næstu þrjú ár 2012-2014.

http://www.powerlifting-ipf.com/fileadmin/data/strategic-plan.pdf

Sem fyrr er langtímamarkmiðið að kraftlyftingar verði ólympísk íþrótt, en til að svo megi verða þarf að efla sambandið og starfið á heimsvísu. Áætlunin sýnir markmiðin fyrir næstu þrjú ár og hvaða leiðir við ætlum að fara til á ná þeim.

Kraftlyftingasamband Íslands á aðilda að þessu starfi eins og reyndar allir sem vinna að framgangi íþróttarinnar innan KRAFT. Hver maður getur lagt sitt lóð á vogarskálina með því að vinna vel að sínum verkefnum, hver í sínu félagi.

Auðunn Jónsson 10. á heimslista IPF

Alþjóða kraftlyftingasambandið hefur birt listann yfir bestu kraftlyftingamenn og -konur ársins 2011.
Hér má sjá listann: http://www.powerlifting-ipf.com/336.html

Þar er gaman að finna Auðunn Jónsson, Breiðablik,  í 10.sæti í +120 kg flokki. Það var frábær árangur Auðuns á Evrópumótinu sl. sumar sem kom honum þangað.

María Guðsteinsdóttir, Ármanni, er í 25.sæti í -63,0 kg flokki kvenna með árangur sinn á Evrópumótinu.

Ársþing IPF

Ársþing Alþjóða kraftlyftingasambandsins, IPF, var haldið 7.nóvember sl. í tengslum við HM karla og kvenna í Pilzen í Tékklandi. Fulltrúi KRAFT sat þingið ásamt fulltrúm um 30 annarra landa. Skýrslur og reikningar voru lagðar fram og samþykktir. Stjórn IPF var endurkjörin til fjögurra ára. Bretinn John Stephenson sagði af sér formennsku í tækninefnd ÍPF eftir margra ára farsælt starf og í hans stað var valinn Hansi Smith frá Suður-Afríku.

Aðalverkefni IPF er áfram að ávinna sér traust og viðurkenningu ÍOC, Alþjóða Ólympíuhreyfingarinnar, með það fyrir augum að kraftlyftingar verði íþrótt á ólympíuleikum framtíðarinnar. Helsti þrándur í götu eru lyfjamálin þar sem ennþá er míkið verk óunnið. Fundurinn ákvað að herða enn aðgerðir gegn þeim þjóðum sem ekki uppfylla gerðar kröfur og auka  áherslu á OCT, lyfjapróf utan keppnis.
Á þinginu var verulega grisjað á lista aðildarþjóða. Margar þjóðir voru teknar af listanum eða settar til hliðar fyrir að uppfylla ekki gerðar kröfur um skipulag og lyfjaprófanir, en fundurinn ákvað að gera engar tilslakanir í þessum efnum.  
IPF leggur áfram áherslu á að efla umfjöllun um íþróttina, bæði á prenti, í fjölmiðlum og á netinu.
IPF og Eleiko gengu frá nýjum samstarfssamningi til fjögurra ára.
Á dagskrá er að efla þjálfaramenntun sambandsins og efna til svokallaðs “trainers clinic” á næstu árum. Töluvert var fjallað um dómaramál sambandins.

Kenneth Sandvik, Finnlandi, Dr. Lawrence Maile, Bandaríkin og Wei-Ling Chen, Taipei voru valin í IPF Hall of Fame.

Þinggerðin í heild sinni ásamt fjárhagsáætlun 2012 kemur út á heimasíðu IPF á næstunni.

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum 7.-13. nóvember

Heimsmeistaramót karla og kvenna í kraftlyftingum hefst í Pilzen í Tékklandi á mánudag. Á mótinu keppa 156 karlar og 91 konur frá 42 löndum í öllum heimsálfum. 

Fyrir hönd Íslands keppa María Guðsteinsdóttir, Ármanni,  í -63,0 kg flokki kvenna og Auðunn Jónsson, Breiðablik, í +120,0 kg flokki karla. Þeim til aðstoðar verða Klaus Jensen og Grétar Hrafnsson. Klaus mun auk þess dæma á mótinu. 

Alþjóða kraftlyftingasambandið IPF heldur ársþing sitt í tengslum við mótið og mun Gry Ek, ritari KRAFT, sitja þingið.

María keppir miðvikudaginn 9.nóvember kl. 14.00 að staðartíma.
Í hennar flokki eru 22 keppendur: http://www.powerlifting-ipf.com/47.html

Auðunn keppir sunnudaginn 13.nóvember kl. 10.00.
Hann mætir 23 sterkum mótherjum í sínum flokki: http://www.powerlifting-ipf.com/47.html

Bein útsending verður frá mótinu: http://goodlift.info/live.php

Heimasíða mótsins: http://www.powerlifting-czech.eu/

María og Auðunn keppa á HM

Nú styttist í heimsmeistaramótið í kraftlyftingum, en það fer fram í Pilzen í Tékklandi dagana 7. – 13. november nk.

Kraftlyftingasamband Íslands sendir tvo keppendur á mótið. María Guðsteinsdóttir keppir í -63,0 flokki kvenna og Auðunn Jónsson í +120,0 flokki karla. Þeim til aðstoðar eru Klaus Jensen og Grétar Hrafnsson. Klaus mun ennfremur dæma á mótinu.
María keppir miðvikudaginn 9.nóvember en Auðunn sunnudaginn 13.nóvember.
Bein vefútsending verður frá mótinu og munum við fjalla nánar um það þegar nær dregur.

Keppendur í kvennaflokki: http://www.powerlifting-ipf.com/47.html
Keppendur í karlaflokki: http://www.powerlifting-ipf.com/47.html
Heimasíða mótsins: http://www.powerlifting-czech.eu/

Gull í réttstöðu, silfur í bekkpressu, ógilt í beygju.

Júlían J.K. Jóhannsson lauk í dag keppni í +120,0 kg flokki á HM drengja í Canada, en draumur hans um sæti á verðlaunapalli rættist því miður ekki.
Júlían náði ekki dýpt í beygjunum og féll úr heildarkeppninni með þrjár ógildar tilraunir við 285,0 kg. Hann deildi þar örlög með þremur öðrum drengjum í flokknum, og ljóst var eftir fyrstu grein hverjir myndu skipta með sér góðmálmana.

Eftir þessari óskemmtilegu lífsreynslu tók Júlían sig saman í andlitinu og kláraði 195,0 kg örugglega á bekknum, en það er 5 kg yfir hans besta árangur til þessa og íslandsmet drengja í bekkpressu “single lift”. Þessi lyfta dugði honum til silfurs í greininni. Vonin um gull lifði reyndar lengi, þar sem hinn ógurlegi Norbert Mikula frá Ungverjalandi þurfti þrjár tilraunir í 285,0 kg, nýtt heimsmet drengja.

Réttstaðalyftan er sterkasta grein Júlíans og þar skildi hann keppinauta sína eftir strax í fyrstu umferð. Hann kláraði 287,5 og 300 kg mjög örugglega og vann gullverðlaun þar með. Síðasta lyftan hans var 310,0 kg og fór upp mjög örugglega, en ekki eins fallega niður. Hann missti hana úr höndunum á síðustu sekúndu og fékk hana ógilda.

Heimsmeistari varð Norbert Mikula, Ungverjalandi, með 860,0 kg.

Júlían kemur heim reynslunni ríkari. Að falla úr keppni er reynsla sem keppandi helst vill vera án en sem hægt er að læra af. Beygjutækni verður eflaust ofarlega á verkefnalista Júlíans á næstunni – en í þetta sinn var það hún sem eyðilagði fyrir hann.

Við óskum honum til hamingju með góðan árangur í hinum greinunum og verðskulduð verðlaun í þeim.

HM unglinga hafið

 Í dag hefst heimsmeistaramót unglinga í kraftlyftingum í Moose Jaw í Canada og stendur til 4.september. 234 ungir karlar og konur frá 29 löndum taka þátt.

Júlían J.K. Jóhannsson, Ármanni, keppir fyrir hönd Íslands. Honum til aðstoðar er Birgir Viðarsson.
Júlían keppir í +120 kg flokki drengja 18 ára og yngri og á góða möguleika á að vinna til verðlauna. Við óskum þeim félögum góðrar ferðar og góðs gengis á mótinu, en Júlían keppir á síðasta degi, sunnudaginn 4.september.

Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni vefútsendingu.
Heimasíða mótsins.

Ítarlegt viðtal og myndskeið með Júlían má skoða á heimasíðu Kraftlyftingadeildar Breiðabliks.