Viktor hafnaði í 6.sæti á nýju Íslandsmeti

Viktor Samúelsson, KFA, hefur lokið keppni í -105,0 kg flokki unglinga á HM. Hann hafnaði í 6. sæti  á nýju Íslandsmeti í opnum flokki og flokki unglinga,
Viktor opnaði með 290 kg í vel útfærðri hnébeygju. Hann kláraði 300 kg í annari af harðfylgi, en það er nýtt Íslandsmet í flokki unglinga og opnum flokki. Hann átti svo góða tilraun við 305 kg en missti jafnvægið og varð að játa sig sigraðan.
Á bekknum opnaði Viktor mjög örugglega með 225 kg. Hann reyndi svo tvisvar við persónulegt met 232,5 kg og var mjög nálægt í þriðju tilraun en náði ekki að klára.
Í réttstöðu opnaði hann á 280 kg létt. Tók síðan 292,5 og setti þar með nýtt Íslandsmet í samanlögðu með 817,5 kg. en það er bæting um 10 kg. Hann lyfti svo 297,5 kg í þriðju tilraun, en kláraði hana ekki nógu vel að mati dómaranna og fékk hana ógilda.
Við óskum Viktori til hamingju með bætingar og ný met í safnið.

Sigurvegari í flokknum var Rússinn Yuri Belkin með 980,0 kg.

Aron með brons í bekkpressu á HM í klassískum kraftlyftingum.

Aron Teitsson keppti á HM í klassískum kraftlyftingum í Suzdal í Rússlandi fyrr í sumar og lenti þar í 4.sæti í bekkpressu.
Eftir að búið er að vísa frá þá keppendur sem reyndu að svindla sér til verðlauna er ljóst að Aron hækkar um sæti og fær þess vegna bronsverðlaun í greininni í -83,0 kg flokki með 167,5 kg.
Við óskum honum til hamingju með þetta – og vildum að hann hefði getað fengið þessa viðurkenningu strax!

Fanney Hauksdóttir vinnur brons á HM í bekkpressu!

Fanney Hauksdóttir, Grótta, lenti í 4.sæti á HM unglinga í bekkpressu í Litháen í vor.
Eins og ljóst hefur orðið féll sigurvegarinn í flokknum á lyfjaprófi og Fanney færist þess vegna upp um sæti.
Fanney Hauksdóttir er þess vegna bronsverðlaunahafi í sínum flokki og fær auk þess bronsverðlaun á stigum fyrir sín 115,0 kg í -63,0 kg flokki.
http://goodlift.info/onecompetition_bp.php?lid=0&cid=257
Við óskum Fanneyju innilega til hamingju með hennar fyrstu verðlaun á alþjóðavettvangi!

Hörmum um leið að hún skyldi ekki fá að njóta þess að stíga á pallinn og taka við verðlaunum á staðnum. Notkun á ólöglegum efnum eyðileggur mjög fyrir þá sem eru með sitt á hreinu.

HM unglinga hefst í dag

Heimsmeistaramót unglinga í kraftlyftingum hefst í dag í Killeen í Texas.
Fjórir keppendur frá Íslandi taka þátt.
Arnhildur Anna Árnadóttir, Gróttu, keppir í -72,0 kg flokki unglinga á fimmtudag kl. 19.00 á íslenskum tíma.
Viktor Samúelsson, KFA, keppir í -105 kg flokki unglinga á laugardag kl. 19.00.
Júlían J.K. Jóhannsson, Ármanni, keppir í +120,.0 kg flokki unglinga á sunnudag kl. 18.00
Viktor Ben, Breiðablik, keppir í +120,0 kg flokki drengja á sunnudag kl. 15.00 en skemmtilegt viðtal við Viktor birtist á RÚV.IS um daginn og má lesa HÉR.

Við óskum þeim góða ferð og góðs gengis.

Bein útsending er frá mótinu.

Góður árangur hjá Aroni

Aron Teitsson, Gróttu, lauk fyrir stundu keppni á HM í klassískum kraftlyftingum í Suzdal í Rússlandi. Hann vigtaði 82,35kg í -83,0 kg  flokki.
Ekki verður annað sagt en að Aron hafi staðið sig mjög vel á sínu fyrsta alþjóðamóti. Hann lyfti af miklu öryggi og fór í gegn með 8 lyftur gildar og endaði í 640 kg samanlagt sem dugði í 7.sætið.

Aron byrjaði mjög létt og örugglega með 210 og 220 í hnébeygju. Hann þurfti að berjast við 230 í þriðju og hafði sigur. Aron er sterkur í bekknum og lyfti þar 160 – 167,5 mjög örugglega og endaði í 4.sæti í greininni. 170 kg í þriðju tilraun reyndist of þungt.
Í réttstöðu lyfti hann 225 – 235 – 242,5 kg og fékk s.s. samtals 640,0 kg.
Sigurvegari í flokknum var rússinn Alexey Kuzmin með 760 kg.

Við óskum Aroni til hamingju með vel heppnað mót og góðan árangur!

HM í klassískum kraftlyftingum

Fyrsta heimsmeistaramót IPF í klassískum kraftlyftingum í opnum flokki og flokki unglinga  karla og kvenna hefst í Suzdal í Rússlandi á þriðjudag.
Sýnt verður frá mótinu á vefnum.

Fyrir hönd Íslands keppir Aron Teitsson, Gróttu. Hann keppir í -83,0 kg flokki á fimmtudag og er þetta fyrsta alþjóðamót sem Aron tekur þátt í. Honum til halds og trausts er Grétar Hrafnsson landsliðsþjálfari.
Við óskum Aroni góðs gengis.
Keppendalisti

Ingimundur með nýtt Íslandsmet

Ingimundur Björgvinsson, Gróttu, keppti í dag á HM í bekkpressu. Hann vigtaði 103,3 kg í -105 kg flokki og endaði í 12. sæti í flokknum sem var fjölmennur og sterkur, og þurfti 300 kg til að ná 6.sætinu.

Ingimundur opnaði á nýju Íslandsmeti 250,0 kg. Hann reyndi síðan við 260 kg í næstu tilraun og svo 265 kg án árangurs og endaði þannig með 250,0 kg.
Ingimundur hafði ætlað sér stærri hluti, en það koma dagar eftir þennan dag.
Hann kemur heim með nýtt Íslandsmet og dýrmæta reynslu og við óskum honum til hamingju með það.

Eftir spennandi lokasprett sigraði Vitaliy Kireev frá Rússlandi með 312,5 kg á undan Petri Kuosma frá Finlandi og Mikael Lundin frá Svíþjóð.
http://goodlift.info/scoresheets/scoresheet_m.htm

Ingimundur lyftir á morgun

43Ingimundur Björgvinsson, Grótta, stígur á pallinn á HM í bekkpressu á morgun kl. 15.00 íslenskum tíma. Hann keppir í -105,0 kg opnum flokki. Það er fjölmennur flokkur og má búast við harðri og spennandi keppni.
Ingimundur er íslandsmeistari í flokknum og á íslandsmetið sem er 240,0 kg.
Þetta er fyrsta alþjóðamót Ingimundar og markmiðin eru skýr: að klára gildar lyftur og bæta íslandsmetið um 30 kg. Við óskum honum góðs gengis.
BEIN ÚTSENDING FRÁ MÓTINU.

Fanney í 4.sæti

Spennandi keppni í -63,0 kg flokki unglinga á HM í bekkpressu lauk í þessu með sigri Yaragina frá Kazakstan. Hún lyfti 132,5 kg.

Fanney Hauksdóttir keppti og vigtaði 58,0 kg inn í flokkinn. Hún gerði ógilt í fyrstu lyftu, en kláraði svo 110 kg í annarri og jafnaði sínu persónulega meti með 115,0 kg í þriðju. Þá tók við bið milli vonar og ótta en raunhæfur möguleiki var að þetta myndi duga í verðlaunasæti. Svo varð þó ekki á endanum, tveir keppinautar skutust fram hjá henni með 117,5 kg og Fanney hafnaði í 4.sæti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.
Við óskum til hamingju með árangurinn.

Fanney keppir á morgun

Nú stendur yfir Heimsmeistaramót í bekkpressu í Kaunas í Litháen. Keppt er í opnum og aldurstengdum flokkum karla og kvenna.
Tveir íslenskir keppendur taka þátt: Fanney Hauksdóttir, Grótta, sem keppir í -63,0 kg flokki unglinga og Ingimundur Björgvinsson, Grótta, sem keppir í -105,0 kg opnum flokki.
BEIN VEFÚTSENDING ER FRÁ MÓTINU

FanneyFanney keppir á morgun, þriðjudag kl 10.00 á íslenskum tíma.
Fanney er 21 árs gömul og vakti strax á sínu fyrsta móti athygli fyrir styrk sinn í bekkpressu. Hún er ríkjandi íslandsmeistari í greininni og á best 115,0 kg í -63,0 kg flokki. Það er íslandsmet bæði í únglinga- og opnum flokki.

Við krossum fingur á morgun og vonum að Fanney nái út úr sér öllu því sem hún hefur lagt inn fyrir á æfingum undanfarið.